27.07.1912
Efri deild: 10. fundur, 23. löggjafarþing.
Sjá dálk 331 í B-deild Alþingistíðinda. (381)

48. mál, árgjald af verslun

Jens Pálsson, (flutningsmaður):

Hæstv. forseti og háttv. deild.

Jeg geng að því vísu, að enginn ágreiningur geti verið um það, að landssjóður sje langveigamesta ferja eða farkostur hins opinbera lífs þjóðar vorrar og þjóðfjelags. Aðrir sjóðir, sem koma til greina svo sem sýslusjóðir og hreppssjóðir, þeir eru svo margfalt veigaminni, og verka á svo takmörkuðum sviðum, að líkja má þeim við mýflugur á móts við úlfaldann. Það hljóta líka allir að vera sammála um það, að eigi oss að verða auðið greiðrar og tryggilegrar farar fram á við, í átt sannrar menningar, manndóms og þjóðþrifa, þá þurfi þessi veigamesta ferja eða farkostur þjóðlífs vors að vera svo vel útbúin, að fram megi halda með skynsemd og öruggleik, án þess að hætta sjer í nokkurn voða, sem dilk getur dregið á eftir sjer. Að minsta kosti má aldrei vera hætt við því, að ferjan hrekist úr leið eða aftur á bak.

Allir hljóta að vera samdóma um það, að höfuðskilyrðið fyrir því, að svo sje, er, að skeiðin þessi, sem þjóðlíf vort siglir á, sje alt af svo fermd, að kraftarins verði neytt, er knýr farið áfram, og hans verði neytt án áhættu. — En hvað er um þetta skilyrði sem stendur? Hefur þess verið gætt, sem vera bar? Er krafturinn fyrir hendi? — Nei, svo er eigi. Við höfum affermt freklega, en ekki gætt þess að sama skapi að ferma. — Farmrýmið, fjárhirzla landsins, er um það bil að verða tóm. Kannske of mikið sagt, að hún sje það alveg, en eitt er víst, að landssjóður hefur verið látinn taka stór víxillán; en til þeirra úrræða hefði aldrei verið gripið, ef eigi væri til muna þröngt í búi. Það er því víst og satt, farkostur vors opinbera lífs er án farms og seglfestu. Því er svo komið nú, að ekki er óhætt áfram, ekki sízt, þar eð við siglum með rígskorðaðan farm á þiljum, meinfarm, sem heitir og er skuldir. Það eru skuldir, sem landið er í; landssjóður hefur verið látinn taka lán. Slíkt hefðum við átt að forðast; en nú er að taka því, sem er, og leitast við að borga lánin og sigla skuldlaust, Jeg kalla það heilagt valdboð nauðsynarinnar, að sjá ferju vors opinbera lífs fyrir farmi og seglfestu; valdboð, sem kveður svo ríkt að orði, „að lífið liggi við“. Valdboð, sem gengur út frá hjarta vors opinbera framfara- og framþróunarlífs, valdboð til vor allra fulltrúa þjóðarinnar, sem sitjum á þessu þingi, um að sjá þessu máli borgið.

Mjer finst hjer liggja fyrir ófrávísanlegt aðkall frá hverju skynbæru mannsbarni á landinu um, að það takist á þessu þingi, en í veði sje framþróunarlíf þjóðarinnar, Ef ekki er hægt að sjá málinu borgið skynsamlega og röggsamlega nú þegar, þá hlýtur að koma bráðlega kyrstaða eða. afturför. Og valdboð nauðsynjarinnar hlýtur að hafa náð hverjum einasta þingm, og hljóma í hugskoti hans. Málinu verður að bjarga á þessu þingi.

Jeg get ekki hugsað mjer meiri hugraun í starfi mínu við hin opinberu mál en það, ef við förum hjeðan af þessu þingi, án þess að bæta þetta ástand. Ástandið er nú líka að verða hverju mannsbarni í landinu ljóst. Tillögur og frv. þingmanna og stjórnarinnar, sem komið hafa fram, þau sýna, að þeim er það ljóst. Og jeg veit það er lifandi í huga okkar allra. Allir vilja bæta úr þörfinni með ráðdeild og röggsamlegri lagasetningu, sem frambúð er að.

Allir viljum vjer og vafalaust þá leið halda til úrgreiðslu þessa vandkvæðis, sem vjer teljum eðlilegasta, sanngjarnasta og rjettlátasta. En vandi er að sjá slíka leið og finna. — En áhættan er og mikil að láta greiðslu þessa vandkvæðis dragast,og :sú áhætta nær til hvers mannsbarns í landinu. — Því finst okkur flutningsmönnum eðlilegt, rjett og sanngjarnt, að löggjafarvaldið í löggjöf sinni um þetta mál, heiti á þau öll, hvaða atvinnu sem þau stunda, og í hvaða stjett, sem þau eru, að leggja fram sitt liðsinni, að vinna öll að því samtaka eftir megni og sem jafnaðarfylst, að leggja meginferju síns opinbera lífs til farm og seglfestu. Sú leið sýnist okkur flutningsmönnum heppilegust. Þetta er meginhugsunin í frumv. og á þessum grundvelli er það bygt. Samkvæmt frv. er landsbændum, sjómönnum og öllum ætlað að leggja sitt fram til nauðsynjaverksins. Jafnframt vakti fyrir oss, að gæta jafnaðar til hins ítrasta milli atvinnuvega og stjetta. Þá þarf að gæta að því, að sjómenn þurfa meira að halda á útlendum varningi. Og engum má ofþyngja, en allir verða að hjálpa. Þó er víst, að þetta frv. er eins og önnur mannaverk ekki fullkomið, og vonandi er, að það geti batnað í meðferðinni á margan hátt.

Eftir útreikningi manns, sem gott vit hefur á. slíkum hlutum, þá ætti frv., ef það nyti sín og yrði að lögum, að gefa landssjóðnum um 400.000 kr. á ári. Þetta er höfuðniðurstaðan af frv. — En ekki ber að fara hjer við 1. umr. út í einstök atriði, enda frv. svo háttað, að þau eru svo samtvinnuð, að hvað leiðir af öðru.ef út í það er farið. Því hætt við, að menn leiðist út í að fara út fyrir þingsköp, ef mikið er um málið talað við 1. umr.

Að endingu geri jeg það að till. minni, að kosin verði 5 manna nefnd í málið að lokinni 1. umr.