27.07.1912
Efri deild: 10. fundur, 23. löggjafarþing.
Sjá dálk 338 í B-deild Alþingistíðinda. (385)

48. mál, árgjald af verslun

Ágúst Flygenring:

Jeg vildi aðeins benda á það, að af praktískum ástæðum hefði það verið heppilegra, að þetta frumv. hefði komið fram í Nd.; þar eiga að rjettu lagi öll fjáraukanýmæli fyrst að vera borin upp.

Setjum t. d., að eitthvað af þessu fjáraukamoldviðri, sem nú er á ferðinni, yrði samþ. með miklum meiri hluta í Nd., þá yrði þessi deild, virðist mjer, að bíða úrslitanna hjer líka um það sama frumv. Jeg álít því, að hvað þetta frumv. snertir, þá verði sú væntanlega nefnd hjer í deildinni, að bíða einhverra úrslita um það, sem nú liggur fyrir Nd.

En þetta getur vel orðið nokkuð löng bið, því ef fjármálanefndin þar er ekki afkastameiri en svo, að því sagt er, að aðeins einu frumv. hafi verið banað — auðvitað því frumv., sem sjálfsagt var, að samþykkja strax í þingbyrjun — en liðinn er fullur þriðjungur þingtímans nú — þá fær nefndin hjer góðan umhugsunartíma, og þarf ekki, að láta sjer ótt. Að ræða málið nú tel jeg alveg þýðingarlaust, svo lítil von, sem um það er, að það gangi fram.