27.07.1912
Efri deild: 10. fundur, 23. löggjafarþing.
Sjá dálk 342 í B-deild Alþingistíðinda. (388)

48. mál, árgjald af verslun

Einar Jónsson:

Jeg vildi að eins gera örstutta athugasemd til athugunar fyrir væntanlega nefnd í málinu.

Jeg efast eigi um, að hinir háttv. flutningsmenn hafi eigi viljað íþyngja landbúnaðinum neitt fram yfir sjávarútveginn, eða viljað sýna neina hlutdrægni í þá átt; þess vegna furðar mig á því, að 2% gjald er lagt á afurðir landbúnaðarins móts við l1/2°/0 gjald á afurðir sjávarútvegsins, og get jeg ekki sjeð, að það sje rjett eða sanngjarnt.

Það sýnist svo, sem almenningur líti svo á, sem sjávarútvegur sje arðsamari eða eftirsóknarverðari atvinna en sveitabúskapur; til þess að sannfærast um, að þetta sje rjett, þarf eigi annað, en gæta að því, hversu miklu meiri aðsókn er að sjávarútveginum en landbúnaðinum, svo miklu meiri, að sveitamenn eru í vandræðum með að fá vinnukraft.

Auk þess verður að gæta þess, að sveitabændur greiða einskonar sjerstakan skatt, að jeg nefni það svo, framyfir sjávarmanninn, sem sje flutningsgjald á afurðum sínum til kaupstaðarins, og svo flutning á erlenda varningnum og sjávarföngum heim til sín. Þessar kaupstaðarferðir eru víða örðugar og dýrar, taka langan tíma, þurfa marga hesta og einatt verða beztu menn heimilisins að fara þær. Þessi kostnaður er víða mjög mikill, og víða margfalt meiri en við sjóinn, og trúað gæti jeg því, ef farið væri að reikna hann út, að hann næmi jafnvel nokkrum aurum á pundi hverju.