27.07.1912
Efri deild: 10. fundur, 23. löggjafarþing.
Sjá dálk 343 í B-deild Alþingistíðinda. (389)

48. mál, árgjald af verslun

Jens Pálsson, (flutningsm.):

Vegna þess, að hinn háttv. 2. þm. N.-Múl. tók það fram, að sig furðaði á því, að við flutningsmenn legðum til 2% gjald á landbúnaðinn, en að eins l1/2% á sjávarútveginn, skal jeg taka það fram, að sá mismunur stafar af þeim ósköpum af erlendri vöru, er sjávarútgerðarmaðurinn þarf að kaupa til þess að reka sjávarútveginn, en allar þessar vörur eru skattskyldar eftir frumv.; jeg vil þar nefna t. d. salt, kol og svo öll veiðarfæri, er nema mjög miklu verði, en þessi áhöld eru skilyrði til þess, að þeir geti hreyft sig og stundað atvinnu sína.

Sami háttv. þm. talaði um erfiðleik á flutning vörunnar. Jeg hef búið til sveita og kannast við, að aðflutningar sveitabænda eru því örðugri og dýrari, sem þeir búa fjær kauptúnum og fiskiverum, og satt er það, að flutningur er víða erfiður; en stórum hefur það breyzt á síðari árum með bættum vegabótum, og verður flutningurinn vitanlega hægari og hægari með ári hverju, eftir því sem samgöngur batna. Samhliða vegabótunum hafa komið betri flutningatæki, og víða farið að nota kerrur. Flutningurinn er því ódýrari, en hann var, og verður ódýrari með vaxandi vegabótum, og víða er hann nú þegar orðinn mjög ódýr, móts við það sem hann var fyrir fáum árum. — Flutningur á afurðum sjávarmannsins kostar líka mikið fje, og skal jeg t. d. benda á leiðirnar frá Grindavík til Hafnarfjarðar og frá Reykjanesi til Keflavíkur; þar er flutningskostnaður mikill, en útgerðarmenn semja við kaupmanninn um hann samhliða verzluninni, annað væri ókleyft. Legst flutningskostnaðurinn þannig á viðskifti þeirra.