27.07.1912
Efri deild: 10. fundur, 23. löggjafarþing.
Sjá dálk 346 í B-deild Alþingistíðinda. (392)

48. mál, árgjald af verslun

Guðjón Guðlaugsson:

Jeg vil benda á það, að það er rangt, að telja kaupstaðarfólkið sem sjerstaka stjett. Það leitar margt að atvinnu hjá landbúnaðinum að sumrinu, og fær fyrir það peninga eða ávísanir, er greiðast í peningum. Þetta fólk þarf eftir frumv. að eins að greiða aðflutningsgjald.

Enga mótsögn finn jeg hjá mjer um smjörbúin; ef nú ætti eigi eingöngu að kippa af þeim styrknum, heldur einnig að leggja á þau sjerstakt gjald, þá er það bein mótsögn við framkomu fyrri þinga.

Við bændur verðum oft að selja kaupstaðarfólki kjöt með lágu verði til að greiða verkakaup þess og ýms peningaútgjöld; á þetta kjöt segir háttv. flutningsm., að eigi sje lagður neinn tollur; en það er ekki rjett; verðið skapast eptir verði þess á erlendum markaði, það sjá allir og skilja. Hver innlendur maður vill kaupa kjöttunnu fyrir 60—70 kr., þegar verðið á henni ytra er að eins 40—50 kr. nettó? Hjer er því sjávarútveginum veittur styrkur til þess, að þvinga verðið niður, beint á kostnað landbóndans.