10.08.1912
Efri deild: 21. fundur, 23. löggjafarþing.
Sjá dálk 352 í B-deild Alþingistíðinda. (402)

71. mál, kolatollur

Eiríkur Briem:

Jeg álít, að þetta frumv. eigi ekki fram að ganga. Það sem fyrir mjer vakir, og jeg tel aðalatriðið, er um toll þennan er að ræða, er að hann er svo hár, að hann getur borið alt annan árangur, en háttv. flutnm. hafa ráð gert fyrir.

Þar, sem háttv. framsm. taldi, að mikið af tolli þessum yrði greitt af útlendingum, þá minnir það mig á samskonar ummæli, er höfð voru sem ástæða til laga frá 19. september 1893, um hafnsögugjald í Reykjavík þar sem hverju skipi er gert að skyldu, að greiða hafnsögumannsgjald, hvort sem það notar hafnsögumann eða eigi. Áður en lög þessi urðu til, kom hingað til Reykjavíkur fjöldi franskra fiskiskipa, og voru lögin mest gerð með tilliti til þeirra, því margir franskir skipstjórar, sem koma ár eftir ár, notuðu ekki hafnsögumenn, en þeir voru ekki taldir ofgóðir til þess að greiða gjaldið. En niðurstaðan varð alt önnur, en við var búizt; hafnsögumennirnir græddu ekki fje á lagabreytingunni, að skylda skipin til að greiða hafnsögugjald, heldur þvert á móti töpuðu á því. Skipin hættu að koma hingað, en fóru til Patreksfjarðar og víðar, en auk þess var tapið meira, því að hafnarsjóður misti mikið hafnargjald, sem hann áður hafði fengið, auk þess sem margvísleg viðskifti franskra sjómanna hjer hættu.

Þetta er einmitt hið hættulega við frv. Það leggur svo háan skatt á ýmsa atvinnu, að það er mjög hætt við, að hún taki aðra stefnu.

Háttv. þm. talaði ennfremur um það, að kolatollurinn mundi nema 160 þús. kr. og auk þess fara vaxandi, en jeg hygg miklu fremur, að hann mundi fara minkandi, því mestöll kol, er hingað eru flutt, eru notuð í framleiðslutæki; um kol til hitunar tala jeg ekki, en kolin yrðu of dýr til þess, er svo hár tollur kæmi, svo hætta er mjög mikil á, að atvinnan breyttist, hvað rekstur snertir, og að því er útlendinga snertir, þá kynnu þeir að takmarka kolakaup sín hjer.

Kol þau, er nú flytjast hingað, eru mest notuð af botnvörpungunum; þannig er mjer sagt, að botnvörpungar þeir, sem hjer eru nú, og eru stærstir, muni eyða um 1.500 tons af kolum á ári, og yrði því eftir þessu frumv., er hjer liggur fyrir, að greiða 3.000 kr. í toll, og er það mikil upphæð fyrir útgerðina, svo mikil, að það gæti verið skoðunarmál, hvort eigi borgaði sig fyrir þá, að flytja til Færeyja eða Skotlands, en að því væri hið mesta tap, bæði fyrir landssjóð, hvað skatta snertir, og eins fyrir almenning, er misti mikla atvinnu. Þetta verður að taka til greina, er um frv. þetta er að ræða.

Enskur ferðamaður, er ferðast hafði um Litlu-Asíu, segir, að alstaðar megi á jörðinni finna þar leifar eftir þjóðirnar, sem þar hafa ráðið, nema eftir eina, nefnilega Tyrkja, sem þar ráða enn. Þær einu menjar, sem þar megi sjá um yfirráð Tyrkja, sjeu rústirnar eftir þau mannvirki og þá menningu, sem þar var áður, og sem eyðzt hefur, síðan þeir urðu þar ráðandi; með stjórnarráðstöfunum sínum og þungum álögum gáfu þeir nefnilega tilefni til þess, að margvíslegur atvinnurekstur lagðist niður og fluttist burtu, og því er svo komið, að beztu og frjósömustu lönd þar eru sama sem í kalda koli.

Það er þessi stefna frumv., að hnekkja atvinnurekstrinum, sem er svo ísjárverð; það gæti auk annars orðið til þess, að árangurinn af frumv. yrði alt annar en til var ætlazt, og þó ekki ræki svo langt, að t. d. botnvörpungarnir flyttu til Færeyja eða Skotlands, þá gæti þó útvegurinn breyzt svo, að frumv. næði als ekki til tilgangi sínum.

Við könnumst allir við hina nýju uppfundningu, dieselmótorana, er nota steinolíu í kolastað, og er farið að nota þá í stór skip. Þeir gætu hæglega komizt hjer á. Og hver væri afleiðingin af því önnur en sú, að eigi fengjust þær tekjur, sem er ætlazt til með frumv., en auk þess væri óhagur fyrir landið, að styðja að þeirri breytingu, því olían tekur mikið minna rúm í skipunum en kolin. svo atvinnurekstur útlendra manna yrði því ekki eins háður landinu og nú er, þegar þeir gætu haft með sjer birgðir til lengri tíma.

Háttv. flutnm. sagði, að hjer væri ekki um nýja stefnu að ræða í tolllöggjöf vorri, en það er ekki rjett. Hjer er einmitt um nýja stefnu að ræða, þá stefnu, að leggja svo há gjöld á, að það hamli atvinnu manna, svo að hún geti beðið mikinn hnekki af eða breytist alveg. en það hefur í för með sjer tap bæði fyrir landssjóð og almenning. Eða græðir ekki almenningur mikið við það t. d., að mikill fiskur er lagður á land.

Hann fær atvinnu o. fl. við það.

Af framantöldum ástæðum vil jeg eindregið ráða hinni háttv. deild til að fella frumv. þetta.