10.08.1912
Efri deild: 21. fundur, 23. löggjafarþing.
Sjá dálk 356 í B-deild Alþingistíðinda. (404)

71. mál, kolatollur

Sigurður Stefánsson:

Jeg ætla mjer ekki að mæla mjer til neinnar vinsemdar, hvorki hvað frumv. þetta snertir, eða önnur skattafrumvörp; jeg fer þar einungis eftir því, hvað eg tel landinu hentugast.

Jeg get að öllu leyti strikað undir alt það, sem háttv. 2. kgk. þm. tók fram, viðvíkjandi frumv. þessu.

Hinn háttv. flutningsmaður var mjög mikið að tala um princíp“, gömul „princíp“, ný „princíp“, „skattaprincíp“ og alskonar „princíp“, en eg met öll þessi „princíp“ hans að engu. Þegar maður er að drukna, þá hugsar hann ekki um það, eftir hvaða „princípum“ hann megi bjarga sjer, heldur bjargar hann sjer sem bezt hann getur, hvort sem það ríður í bág við einhver „princip“ eða ekki. Annars veit jeg ekki, hvaða tollvitringar hafa frætt háttv. flutningsm., að þessi „princíp“, sem hann kveður þetta frumv. bygt á, væru hin einu rjettu og rjettlátu.

Kolin eru nú á tímum orðin hrein nauðsynjavara, og ef að ætti að tolla þau, þá mætti ekki síður tolla brauð eða aðra matvöru. Kolin eiga nú ekki lítinn þátt í framleiðslu matvörunnar, og því kæmi hitt eins vel við, og jeg teldi það því eðlilegra og vildi það heldur, að nauðsynjavaran væri tolluð. Sá tollur kæmi að minsta kosti miklu jafnar niður á gjaldendurna, en þessi tollur.

Það er annars hrein fjarstæða, sem oft er haldið fram, að eigi megi tolla nauðsynjavöru, sá tollur kemur jafnast niður á landsmenn, og ef menn bera traust til landsstjórnarinnar, að hún fari vel með fjeð, þá er hjer í sjálfu sjer ekki um annað að ræða, en að láta fjeð úr einum vasa í annan.

En þetta verður ekki sagt um kolin; tollur á þeim nær ekki jafnt til allra, kolin eru nú orðið ein aðalframleiðsluvara landsins. sem nær eingöngu er keypt til að reka sjávarútveginn, og svo af kaupstaðar- og sjávarþorpsmönnum, því jeg þori að segja, að ekki 1/100 af öllum þeim kolum, er flytjast til landsins, sje notuð í ofna og eldavjelar til sveita. (Jens Pálsson: Ekki 1/1000). Já, það mun óhætt að fullyrða, að það sje ekki yfir 1/1000. Og þó bændur hætti þeim skrælingjaskap, er hefur tíðkazt, að brenna sauðataði, þá þurfa þeir ekki að kaupa kol vegna þess, því svo er fyrir að þakka, að á nær því annari hverri jörð er nóg af mó, svo eldsneytið er þar svo að segja við fætur bóndans, ef hann hefur mannrænu til að hirða það, og það meira að segja mikið ódýrara en kolin eru, einkum þegar búið er að flytja þau langa leið frá kaupstaðnum.

Það er oft talað um það, að botnvörpungarnir borgi sig svo vel, og er þessvegna rjett, að hyggja að því, hvernig því er háttað.

Botnvörpuútgerðin er komin hjer á fót af hreinni og beinni nauðsyn; menn voru neyddir til þess, að fylgja útlendingum í þessu efni, því annars hefðu þeir sópað fiskimið vor, og hirt þar alt, sem hægt er, og við Íslendingar ekkert haft; þess vegna er það, að við höfum verið neyddir til þess af knýjandi nauðsyn, að leggja af fátækt okkar of fjár í þessa atvinnugrein, til þess að horfa ekki aðgerðalausir á það, að útlendingar sætu einir að fiskimiðum vorum, og framtíðarhorfur þessa útvegs eru als ekki eins glæsilegar, og sveitabændurnir ætla, því að vel getur rekið að því, að miðin þrjóti eftir nokkurn tíma, hjer eins og annarsstaðar, sem botnvörpuútvegur hefur verið rekinn í stórum stýl, en hvað tekur þá við? Alt stöðvast.

Viðvíkjandi því, hvað botnvörpungarnir borga sig vel, þá er stöðugt bent á það, hvað þeir afla mikið, en menn gæta þess ekki, hvað aflinn kostar útgerðarmanninn. Eins og nú er til hagað, þurfa útgerðarmenn hvers botnvörpungs að fá 120—150 þús. kr. til þess að standast útgerðarkostn., og ef aflinn bregst eða fiskurinn fellur í verði, þá kemur alger hnekkir eða jafnvel hrun, því útgerðin stendur ekki á föstum fótum. Hún er gerð af nauðsyn og um efni fram, að því leyti til, að fjeð er mest eða alt tekið að láni, og þessvegna er mótstöðuafl hennar mikið minna, en ef þeir, er botnvörpungana hafa keypt, hefðu getað lagt í þá annað, en eintómt lánsfje.

Það er rangt, er sagt hefur verið, að botnvörpuútgerðin og sjávarútvegurinn sje skaðleg fyrir landbúnaðinn, því hyrfi sjávarútvegurinn, mundi landbúnaðurinn bera sig ver, eins og líka að sjávarútvegurinn getur ekki án landbúnaðarins verið. Það er hiklaust bezt og hagfeldast, að þeir vinni saman í bróðerni, en sjeu ekki að reyna að íþyngja hver öðrum.

Háttv. þm. Strand. vildi samþykkja toll á kolum af velvild við kaupmannaráð Reykjavíkur, vildi taka þessu veglega tilboði þeirra, er þeir buðu, er þeir voru að jarðsyngja kolaeinkaleyfið. Mikið skelfing var þetta tilboð veglegt eða hitt þó heldur! Háttv. þm. er þó ljóst eins og öllum öðrum, að kaupmennirnir greiða sjálfir ekkert af tollinum, heldur leggja hann og það meira að segja margfaldan á vörur sínar, svo það erum við, viðskiftamenn þeirra, er greiðum allan tollinn, og talsverða aukagetu auk þess til kaupmannanna fyrir umstang þeirra. Það var þessvegna ekki nema fyrir mjög einfaldar sálir, að gína við þessari flugu kaupmannanna. Þetta gildir ekki eingöngu um þennan toll, heldur og alla aðra tolla, og kaupmönnum er þetta ekki láandi; þeir vilja fá fje sitt, ásamt sæmilegu hundraðsgjaldi.

Jeg verð að líta svo á, að öll þau skattafrumvörp sjeu ósanngjörn og eigi ekki að ná framgangi, sem leggjast eingöngu á annan aðalatvinnuveg landsins, en hlífa hinum algerlega, en það gerir frumvarp það, sem hjer liggur fyrir. Það leggst að mestu leyti á sjáfarútveginn, kaupstaðarbúa og þurrabúðarlýð, og fyrir þá væri tollur á brauðið, sem þeir borða, engu ósanngjarnari, því að sá tollur legðist þó á alla, ríka sem fátæka, til sveita sem til sjávar, því allir þurfa að neyta brauðsins.

Jeg er ekki mótfallinn frumv. þessu fyrir þá sök, að eg telji hinar aðrar leiðir í tollmálunum, er komið hafa fram hjer á háttv. alþingi, svo æskilegar, síður en svo, enda munu engir þingmenn hafa ætlazt til þess, að frumvörp þau yrðu til frambúðar, heldur stungið upp á þeim sem bráðabirgðarlögum. En þessar bráðabirgðaráðstafanir mega ekki hefta annan atvinnuveg landsins — sjávarútveginn — eins og þetta frumv. gerir. Menn verða í skattalögunum að finna þær leiðir, sem ekki hefta framleiðslu í landinu eða koma eins ranglátlega niður, eins og þessi tollur.

Það er því öðru nær, en frumv. þetta sje nokkur bót á kolaeinkasölufrumvarpinu. Það er þvert á móti miklu verra.