10.08.1912
Efri deild: 21. fundur, 23. löggjafarþing.
Sjá dálk 362 í B-deild Alþingistíðinda. (406)

71. mál, kolatollur

Jósef Björnsson:

Jeg get sagt líkt og háttv. 4. kgk. þm. sagði um tollinn á kolum, að hann væri óþyrmilegur, að menn hafa tekið óþyrmilega á frv. Má vel vera, að ýmsar mótbárur gegn frumv. hafi við rök að styðjast. En það hefur sjálfsagt farið svo fyrir fleirum en mjer, að þeim hefur ekki dulizt, að rökin hafa alt af ekki verið eins góð og skyldi. Jeg skal að eins minnast örlítið á ræðu háttv. 4 kgk. þm., þar sem hann talaði um hæð tollsins. Hann sagði, að hann væri 14%, og miðaði það við 14—15 kr. verð á kolum. Jeg hef reynt eftir því, sem jeg hef getað, að afla mjer þekkingar á kolaverði, hef athugað skýrslur milliþinganefndarinnar og fylgt því, sem sagt hefur verið um kolaverð í umsögnum þeim, sem út af einkasölu spunnust, og að þessu athuguðu, get jeg, ekki sjeð, að hægt sje að fá kol hjer í Reykjavík fyrir þetta verð. Það verður að miða við það verð, sem hægt er að fá kolin fyrir hjer, og þau eru vanalega seld fyrir, en ekki eitthvert verð, sem reiknað er út og varpað framan í fólk í kappræðum um mál, í „Kampens Hede“, eins og kaupmenn gerðu í vor, er þeir voru í leiðangri gegn kolafrumv. fjármálanefndarinnar. Á slíku er ekkert byggjandi. Það verður að miða við það verð, sem menn í raun og veru kaupa kol fyrir. Og það verð er talsvert hærra, en hinn háttv. 4. kgk. þm. gerði ráð fyrir, og hundraðsgjaldið í toll af þeim því lægra, en honum reiknaðist.

Þar sem hinn háttv. 2. kgk. þm. mintist á, að athuga yrði, hvort þetta frumv. hnekti ekki sumum mikilvægum atvinnuvegum, þá er það rjett, að þess verður að gæta, að ekkert það sje gert í tollalöggjöfinni, er hamli mönnum frá að reka atvinnu á nokkru sviði. Og ef hægt er að sýna mjer fram á það, að þessi tollur, sem frv. fer fram á, verði til þess, að reka atvinnurekendur burtu úr landinu, eða þeir hætti við atvinnu sína, þá skal jeg verða manna fúsastur til að hætta við frumv., en meðan mjer er ekki sýnt fram á slíka hættu, sje jeg eigi ástæðu til annars en að halda því fram. Annars skal jeg geta þess, að það voru ekki kaupmenn einir, sem óskuðu kolatolls á seinasta vetri. Það gat verið öldungis eðlilegt, að þeir óskuðu kollatolls fremur en einkasölu, eins og einhver háttv. þingmaður tók í fram áðan. En þeir höfðu útvegsmenn að veifa kring um sig, því útvegsmenn tóku í sama strenginn. Þeir gátu risið; sem einn maður gegn þessum óskum og tillögum, ef þeim fanst þær hepta atvinnuveg þann, er þeir reka. En því fór fjarri, að þeir gerðu slíkt. Þeir virðast því ekki hafa verið hræddir um það þá, að þessi tollur yrði til niðurdreps atvinnuvegi þeirra.

Þá skal jeg snúa mjer að háttv. þm. Ísfjk. og drepa á örfá atriði, er hann nefndi. Hann sagði, að það mætti eins vel leggja. toll á brauðið, sem við borðuðum, og á kolin. Það kæmi jafnt niður á öll landsins börn, sagði hann, því að allir þurfa að borða. Um það er jeg vitaskuld sammála háttv. þm. Ísfjk., að allir þurfa að borða. En jeg lít svo á, að það sje ekki sem rjettlátastur gjaldamáti, að láta skattinn koma niður sem jafnt gjald á matinn, af því að allir þurfa hans við. Jeg lít svo á, sem tollálögurnar verði að fara eftir gjaldþoli þeirra, er eiga að greiða tollana. Auðmennirnir verða að bera stærstu byrðarnar (Sigurður Stefánsson: Hjer er enginn auður til). Auðmaðurinu þarf ekki meira að borða, en erfiðismaðurinn, er ekkert gjaldþol hefur, en hróplegt ranglæti væri, að á báðum hvíldi jafnt gjald til almennings þarfa. Það má því með engu móti bera saman brauðtoll og kolatoll.

Jeg er samdóma háttv. flm. um það, að það sjeu útlendingar, stór fyrirtæki innanlands, auðugir atvinnurekendur, er mest kaupi af kolum, því að það eru vitanlega stóreignir, er standa að baki botnvörpungaútgerðinni. (Sigurður Stefánsson: Stór lán). Má vera að stundum standi stór lán í þessari útgerð, en þá gefa þau oftast háa vexti. Það eru því þeir, sem mikið gjaldþol hafa, er þessi tollur lendir á, og slíkt er rjettlátt.

Þá gerði sami háttv. þm. Ísfjk. mikið úr því, hve lítið væri brúkað af kolum í sveit. Hann sagði, að í öllum sveitum landsins væri ekki brúkað nema 1/1000 þeirra kola, er flyttust til landsins. En gái hinn háttv. þm. nú að, hvað hann er að fara með. Eftir skýrslum um þetta efni er flutt til landsins um 70—80 þús. tonna af kolum á ári. Samkvæmt þessu ættu allar sveitir landsins ekki að brúka meira en 70—80 tonna. Mjer þykir hart, að slíkum fullyrðingum er varpað fram, því að jeg get sannað, að þetta er svo rangt, sem verða má, og þarf ekki að fara út fyrir mína sýslu til að sýna, að ein lítil sveit notar eins mikið af kolum, sem hinn háttv. þm. sagði, að allar sveitir landsins notuðu. (Sigurður Stefánsson: Jeg hef aldrei talað þetta. Einhver: Jú, þm. sagði 1/1000. (Sigurður Stefánsson: Jeg sagði 1/100). Nei, hinn háttv. þm. sagði 1/1000. Jeg skrifaði það eftir honum um leið og hann talaði það.

Þá talaði hinn háttv. þm. Ísfjk. um það, að mótekja væri á annari hverri jörð á landinu. Það getur verið, að það sje þannig að jafnaði. En það verður þó að muna eftir því, að á heilum svæðum er engin mótekja. Ef þeir, sem á slíkum svæðum búa, vilja ekki brenna taði, verða þeir að brenna kolum — hafa ekki önnur ráð.

Jeg lít því svo á þetta mál, eins og háttv. deildarmenn hafa víst skilið, að hjer sje hvorki ráðizt á sjávarútveg nje einstakar stjettir jafn óþyrmilega og hinir háttv. ræðumenn hafa sumir haldið fram. Jeg fæ enn ekki sjeð, eins og jeg sagði áðan, að þessi tollur, sem frv. gerir ráð fyrir, reki atvinnurekendur burt úr landinu, þótt hann komist á, eða að það stafi hætta af honum. Þetta er og heldur einfalt mál, eins og hinn háttv. flm. tók fram. Það er tekinn einn nýr tollstofn og bætt við gömlu tollstofnana. Og það er gömul stefna, að hafa tollstofnana fáa og innheimtuna einfalda. Hjer er engin ný leið farin að þessu leyti, og jeg sje ekki, að hún geti verið eins hættuleg og háttv. 2. kgk. þm. hjelt fram.

Jeg segi ekki meira að sinni. En mjer finst frv. ekki svo margbrotið nje flókið, að ekki megi laga þá galla, sem á því kunna að vera, án þess að því sje vísað til nefndar, með breytingartillögum frá einstökum deildarmönnum. Jeg mun því greiða atkvæði móti, að málinu verði vísað til nefndar.