10.08.1912
Efri deild: 21. fundur, 23. löggjafarþing.
Sjá dálk 366 í B-deild Alþingistíðinda. (408)

71. mál, kolatollur

Guðjón Guðlaugsson:

Jeg ætla að svara háttv. þm. Ísfjk. örfáum orðum. Hann sagði, að hann mundi ekki ávinna sjer hylli neinnar stjettar fyrir það, er hann mælti, því að hann færi ekki eftir óskum þeirra. Það er als ekki ótítt, að þingmenn geri eitthvað eftir ósk einhverra, þótt þeir sjeu því ekki hlyntir í sjálfu sjer, að þeir t. d. fari eftir ósk kjósenda sinna, þótt þeir sjeu ekki á sama máli. Þetta þarf als ekki að vera gert í persónulegu hagnaðarskyni. Menn hugsa sem svo, að þeir sem óska þessa, er um er að ræða, kunni að sjá eitthvað í málinu, er þeir sjá ekki sjálfir. Háttv. þm. Ísfjk. sagði, að kaupmenn hefðu komið fram með tollinn, sem Lokaráð. Jeg er á sama máli og háttv. þm. um þetta og held, að þetta hafi í rauninni verið Lokaráð hjá kaupmönnum.

En annars er það ekki rjett, að kaupmönnum sje sama um, hvort tollar eru lagðir á vörur eða ekki. Það á að minsta kosti ekki við annarsstaðar, en þar sem alt er borgað með peningum útí hönd. Þótt kaupmenn þurfi ekki að greiða tollinn sjálfir, þá þurfa þeir þó að gjalda í toll, ef til vill, fleiri þúsund krónur fyrir fram, er vörurnar koma, og verða svo að liggja með þær lengi á eftir, og þetta veldur þeim mikilla óþæginda og kostnaðar. Fyrir því vilja kaupmenn helzt losast við alla tolla.

Það er ekki rjett, að það væru eingöngu kaupmenn, er báðu um eða stungu upp á kolatolli. Það voru líka útgerðarmenn, er fóru fram á kolatoll, hafa verið flekaðir til þess af kaupmönnum. Þetta hefur vafalaust verið gert til ginningar, og því þá ekki að lofa þeim að þefa upp úr því og vita, hve gott það er.

Jeg held, að þetta sje skylt því, er girðingalögin voru á ferðinni. Heimska bænda var notuð til að drepa þessi lög, er þeim voru sjálfum til hagnaðar. Í Húnavatnssýslu var haldinn bændafundur til að mótmæla þeim. Nú hafa þeir fengið að sjá, hvaða hag þeir hefðu getað haft af þeim, ef þeir ekki hefðu verið gintir til þess, að fótum troða lögin meðan þau voru í framkvæmd. Nú iðrast þeir syndanna og fá girðingarefnið miklu dýrara en eftir girðingalögunum, og verða í að taka til þess miklu óhentugri lán, auk þess að fara á mis við ýms hlunnindi, sem í lögin í öðrum efnum veittu. Sama mun verða niðurstaðan af hinu mikla heimskuópi, sem hrópað var yfir kolaeinkasölunni.

Það voru óneitanlega mestmegnis kaupmenn og útgerðarmenn, sem sögðu já og amen við því að greiða toll af kolum. Og verði nú þetta frumv. drepið, þá verður það gert af málsvörum þessara sömu manna, sem einungis virðast þá að hafa talað til þess að eyðileggja, án þess að byggja nokkuð upp í staðinn. —

Það er auðvitað satt, að þessi tollur, 2 kr. af hverju kolatonni, eykur að vísu verð kolanna að nokkrum mun, og það er skaði fyrir kaupendur vörunnar; en þeir, sem drápu einkasöluhugmynd milliþinganefndarinnar þegar í fæðingunni, hafa ekki hugsað um það. — Eg get í þessu sambandi getið þess, að í mínu bygðarlagi verðum við að kaupa kolin, sjálfsagt við tífalt hærra verði, en ef einkasalan hefði komizt á.

Það hefur verið mikið fárast um það hjer í deildinni af ýmsum háttv. þm., hve lítið bændur noti af kolum, en öll slík ummæli hljóta að vera sprottin af misskilningi, eins og svo margt annað.

Bændurnir eru nú, sem betur fer, víðast hættir að brenna áburðinum, — sauðataðinu—og hverju eiga þeir þá að brenna, ef ekki kolum. Háttv. þm. Ísfjk. hjelt fram, að því er mjer skildist, að á flestum jörðum mundi fást nægur mór til eldsneytis en jeg þykist nú reyndar þekkja mó, engu síður en háttv. þm. Ísafjk. og get jeg frætt hann á því, að jeg hef sjálfur leitað að mó á mörgum jörðum, en engan fundið, af þeirri einföldu ástæðu að hann var hvergi að fá. En á sumum stöðum er aftur á móti svo erfitt að vinna móinn, að lítt kleyft má kalla; og enn má geta þess, að allvíða er mótegundin svo ljeleg, að tæplega verður hún notuð. Þess má líka geta; nú eru tímarnir allmjög breyttir frá því, sem áður var. Fyrmeir voru víðast á bæjum hlý torfhús, og víða voru jafnvel kýr hafðar undir baðstofulofti, og af þeim naut fólkið nægilegs yls. — En nú eru allvíða komin upp timburhús, þar sem ekki verður notað annað til upphitunar, en einmitt kol.

Menn kunna nú kanske að segja, að ekki þurfi að byggja húsin úr timbri; heldur af steini; en til þess er því að svara, að steinhúsin eru allmiklu rakasamari, einkum og sjerílagi á meðan þau eru enn ung, og þarf að kynda þau afarmikið, og til slíkra kyndinga verður alt ómögulegt, nema kolin. Það var rjett, sem háttv. þm. Skgf. tók fram, að fjarstæða hefði það verið hjá h. þm. Ísfjk., að aðeins 1.000. hluti kolanna væri notaður til sveitanna; þetta gæti ef til vill fremur heimfærzt upp á einn hrepp eða svo.

Jeg skal játa það, að menn neyðast til þess víðsvegar hjér um land, að nota til eldsneytis annað en kol; því að menn geta varla fengið minna, en heilan skipsfarm, og víða verður því ekki við komið. Jeg skal viðurkenna það, að mjer dettur ekki í hug, að kaupa kol í Reykjavík og flytja til Hólmavíkur; en þó vil jeg geta þess, að maður einn norður þar, bað mig um að útvega sjer kol í Reykjavík, og ef jeg hefði gert það, mundu fleiri á eftir hafa farið, og kolaeyðslan þar af leiðandi hafa aukizt um 9/10 hluta. Jeg ætla svo ekki aðsegja fleira um málið að sinni; það er að vísu hálfgert neyðarúrræði; en mundi verzlunargjaldsfrv. háttv. þm. Ísfjk. ekki vera það líka? En á móti öllu því, sem til þess miðar, að auka tekjur landssjóðsins, get jeg ekki verið.