13.08.1912
Efri deild: 23. fundur, 23. löggjafarþing.
Sjá dálk 376 í B-deild Alþingistíðinda. (414)

71. mál, kolatollur

Steingrímur Jónsson:

Jeg hef leyft mjer ásamt tveimur öðrum háttv. þingmönnum að koma fram með br.till. við þetta frumv.

Eins og jeg tók fram við 1. umr., álít jeg og meðflutningsmenn breyttill., að þetta frumv., er leggur það til, að lagður sje tollur á kol, sje allathugavert. Jeg lít svo á, að með því sjeum við byrjaðir á nýjung í tolllöggjöfinni, sem sje þeirri, að leggja á nauðsynjavörur, og því fremur virðist mjer þetta athugavert, sem hjer er um framleiðsluvöru að ræða.

Þar með er ekki sagt, að ekki geti verið rjett samt sem áður, að tolla slíkar vörur, en í byrjuninni verðum við að fara varlega. En mjer finst síður en svo, að varlega sje farið á stað með svo háum tolli.

Ef fjárhagur landsins væri sæmilegur nú sem stendur, þá mundi jeg vera þessu frv. mótfallinn. En af því að fjárhagurinn er svo bágur nú, þá er það álit okkar flm. br.till., að ekki tjái að eyðileggja þetta frv. að öllu leyti, og þess vegna höfum við komið fram með breyttill., svo að forsvaranlegt verði, að samþykkja frumv., og ráðum við hinni háttv. deild til að samþykkja frumv. með þessari breytingu, og það því fremur, sem engin vissa er fyrir því, að nokkurt annað tekjufrumv. gangi í gegn á þessu þingi. En þó svo fari, efast jeg um, að bætt verði fullkomlega úr tekjuskortinum.

Jeg skýrði frá því við 1. umr., hvers vegna 2 kr. tollurinn væri of hár. Hann er of hár, því þegar miðað er við, hvað kol venjulega kosta komin hingað upp, þá verður álagningin hjer um bil 14%, og þetta er óhæfilega hátt gjald. Því það er rangt, að halda, að þessi tollur falli sjerstaklega á efnamenn, en fari fram hjá fátæklingunum. Hann gengur auðvitað fram hjá mörgum efnalitlum, því hann snertir eigi teljandi landbúnaðarstjettina. Það var bent á það við 1. umr. af einum ræðumanni.

En þar sem flm. sagði, að þetta væri ekki rjett, þar sem bændur væru að auka mikið kolakaup sín, þá er það sagt alveg út í bláinn.

Jeg skal með það fyrir augum benda á verzlunarskýrslurnar, sem fjármálanefndin vitnar í. Þær sýna það, hvernig kolin skiftast á hafnirnar; og ef við greinum frá Reykjavík, Vestfirði, Austfirði og Eyjafjörð, þá eru þau kol svo lítil, er lenda á öðrum stöðum landsins, að það nemur tiltölulega mjög litlu.

Þá skal jeg tilfæra önnur dæmi. Samkvæmt landhagsskýrslunum fyrir 1910 hafa verið flutt 62 tonn af kolum það ár í báðar Skaftafellssýslurnar; það er að segja 17 tonn til Hornafjarðar í Austur-Skaftafellssýslu og 45 tonn til Víkur í Vestur-Skaftafellssýslu. Það er þess vegna fullkomlega augljóst, að hjer eru kolin alls ekki brúkuð nema í kauptúnunum, og notuð þar mjög lítið.

En þrátt fyrir þetta, er jeg nú hef tekið fram, þá vil jeg ekki eyðileggja frv.,heldur samþykkja hæfilega háan toll á kolin, þó að sá tollur verði mjög tilfinnanlegur fyrir kaupstaða- og þorpsbúa, og þó að tollurinn verði ekki þyngstur á efnamönnum, heldur hlutfallslega þyngri á efnalausum mönnum. Það stafar af því, að húsakynni fátæklinganna eru verri; þeir hafa ekki Svendborgarofna, er spara kolin, þeir hafa ekki miðstöðvarhitun, og þeir hafa ekki nýtýzku eldfæri, er eyða litlu. Enda er kaupmönnum það kunnugt, að þegar hart sverfur að, þá fer síðasti skildingurinn fátæklingsins fyrir eldivið, og það er einnig mjög eðlilegt, því við getum ekki jetið matinn hráan; við þurfum að hafa eldivið til að elda hann við.

En þrátt fyrir þessa agnúa verð jeg með frv. vegna þess, að aðalupphæð tollsins verður aðallega greidd af útlendingum (Björn Þorláksson: Heyr!). Í sambandi við þetta vil jeg geta þess, hvað illa hefur verið farið með frumv. milliþinganefndarinnar um einkaleyfi á kolum, þó jeg hefði ýmislegt við einstök atriði þess að athuga. Með því frv. var hægt að fá mjög miklar tekjur handa landssjóði af kolunum, án þess þó að verð þeirra hækkaði, og þess vegna var það mjög illa farið, að frv. var vísað á bug, án þess að alþingi gæfist kostur á, að laga ýmsar misfellur, er á því voru.

Háttv. þingm. V.-Sk. var við 1. umr. að tala um, að jeg vildi ekki láta níðast á útlendingum, en jeg sagði það ekki, heldur hitt, að ekki væri gengið of nærri þeim. Annars viðhafði háttv. þm. ýmisleg ummæli í ræðu sinni, sem voru betur löguð fyrir kjósendur í Vestur-Skaftafellssýslu en til þess, að sannfæra háttv. þm.

Við höfum oft síðastliðin 10—15 ár gengið full nærri útlendingum í löggjöfinni, og má nær því heita, að það sje tízka, en við lifum ekki á því. Hinsvegar þótti mjer vænt um, er það var upplýst hjer á þingi, að útlendingar greiddu 2/5 hluta vínstollsins, en það er nú búið.

Jeg skal nú tilfæra nokkur dæmi þess, að við höfum gengið fullnærri rjetti útlendinga.

Það var árið 1896, ef jeg man rjett, að Englendingar fundu að því, að við hefðum þá samið nokkuð harkaleg botnvörpulög. Afleiðingin af því varð sú, að við urðum að taka lögin aftur, og komu þá lögin frá 1898.

Þá eru hvalaveiðarnar. Ef þeir hefðu haft ráðin á alþingi, sem harkalegast vildu beita sjer þar, þá væri nú lítið orðið af þeirri atvinnugrein hjer.

Þá er síldarlöggjöf vor, og Norðmenn; það er einmitt nú fyrir þinginu erindi frá þeim um það efni. Þykir þeim við hafa gengið of nærri rjetti þeirra.

Útlendingar sögðu áður, að það væri mjög ódýrt, að sigla hjer við land, en nú er komið annað hljóð í strokkinn. Nú kvarta þeir undan, hversu há skipagjöld, hafnargjöld og vitagjöld sjeu hjer án þess þó að nokkuð verulegt komi í móti, hafnir illar, vitar fáir o. s. frv.

Við sjáum þess vegna, að það verður að fara varlega, og að þau ummæli, er háttv. þm. V.-Sk. viðhafði, eru ekki sem bezt viðeigandi hjer í salnum. Ef það er rjett, sem sami háttv. þm. skaut fram og síðan sagði mjer prívat, að kolainnflutningur hjer til landsins næmi alls 140 þús. tonna, þá er áreiðanlegt, að Íslendingar nota ekki nema 40 þús. tonna af því, því eftir síðustu skýrslum frá 1909 notuðum við 39 þús. tonna, og kolanotkun vor hefur varla aukizt meira, en því nemur.

Af þessum 140 þús. tonna af kolum nota því útlendingar 100 þús. tonna, og næmi því sá skattur, sem lagður yrði á þá eftir frumv þessu 200.000 krónum, eða sem næst 14% af nettoverði kolanna. Það liggur því í augum uppi, að skattur þessi yrði hár fyrir þá, og að þeir mundu ekki sækja hingað meiri kol, en þeir nauðsynlega þyrftu. Þegar botnvörpungarnir eru að veiðum við Vestfirði, þá flytja þeir allan fisk sinn glænýjan á markaðinn, og taka þá kol um leið, svo að þá þurfa þeir ekki að kola hjer á landi.

Aðaltíminn, er þeir þurfa að kola hjer á landi, er þegar þeir eru að veiðum hjer syðra á svæðinu frá Reykjanesi austur að Hvalbak, en þá mundi borga sig fyrir þá að fara til Færeyja og kola þar, heldur en að kaupa kolin svo háu verði hjer, eins og þau mundu kosta með þessum tolli.

Það er af þessum ástæðum að við viljum færa gjaldið niður í 6—7% af nettoverði kolanna, en við viljum ekki fella frumv. (Stefán Stefánsson: að svo stöddu) með tilliti til hins nauðulega ástands landssjóðs.

Þá vil eg víkja nokkrum orðum að 2. gr. frumvarpsins; þar stendur, að tollinn eigi að greiða „af geymslurúmum á floti í landhelgi“, eða kolum, sem eru: „flutt í landhelgi yfir í önnur skip þeim til notkunar“.

Hið fyrra tel jeg naumast framkvæmanlegt, og hið síðara mun vera brot á almennum siglingareglum.

Við 1. umræðu benti hæstv. ráðherra flutningsmönnum á, að hætt væri við, að útlendar stjórnir vildu hafa eitthvað um þetta að segja, ekki síður en kolaeinokunarfrumvarpið, svo að jafnvel gæti að því rekið, að frumv. gæti ekki náð staðfestingu. Í tilefni af því vildi eg spyrja flutningsmenn að því, hvort þeir hefðu athugað þetta rækilega.