14.08.1912
Efri deild: 23. fundur, 23. löggjafarþing.
Sjá dálk 393 í B-deild Alþingistíðinda. (417)

71. mál, kolatollur

Sigurður Eggerz, (flm.):

Háttv. 4. kgk. virtist vera allhræddur um það, að útlendir botnvörpungar mundu reyna að smeygja sjer undan þessum kolatolli með því að taka kol sín annarstaðar, svo sem í Færeyjum.

En þetta getur ekki verið rjett álitið, því að botnvörpungar eru ekki ávalt á föstum miðum, og því eiga þeir örðugra með að hafa fasta bækistöð með kol sín. Og hins ber líka að gæta, að svo framarlega sem botnvörpungarnir álíta betra að vera hjer sem næst fiskimiðunum, þá mundu þeir á engan hátt horfa í tollinn, því eigin hagsmuna sinna mundu þeir reyna fyrst og fremst að gæta.

Mjer virtist háttv. 4. kgk. gefa í skyn, að jeg hefði haldið því fram, að lítilfjörlegt væri, að taka tillit til þess, hvað útlendingar vildu vera láta. Það voru ekki mín orð. En það sem jeg sagði var það, að hjer yrði að viðhafa „takt“.

Því ef við hefðum alt af skolfið eins og hrísla gagnvart útlendingum, þá mundi lítið hafa orðið úr þjóðarsjálfstæði voru.

Háttv. 4. kgk. vildi halda því fast fram, að reikningur sinn um 14% gjaldið væri rjettur, en því verð jeg hiklausl að neita; því þótt útsöluverðið sje ekki lagt til grundvallar, þá verður reikningurinn í tilliti til innkaupsverðsins rangur. Því við innkaupsverðið verður þó altaf að bæta flutningskostnaðinum, og hann er töluverður á kolunum.

Hvað snertir hitt frv., sem liggur hjer fyrir hinni háttv. deild, nefnilega frv. um afgjald af allri verzlun, þá liggur það í augum uppi, að það hlýtur að koma allmiklu harðar niður á almenningi; sjerstaklega íþyngja mjög fátæklingum, sem kaupa lífsnauðsynjar sínar beint úr verzlununum. Gjaldið verður líka allþungbært kaupmönnum, og er því í raun og veru eðlilegt, að þeir leggi það aðallega á þær vörurnar, sem fljótast seljast, en það eru einmitt nauðsynjavörurnar, og hljóta allir að sjá, hverjar afleiðingar það hefur fyrir fátæklingana.

En þessi kolatollur kemur aðallega niður á efnamönnum, þeim, sem mest hafa gjaldþolið. Og þar að auki er innheimta kolatollsins ljett, og það er stór kostur. Og löggjafarvaldið sjálft vill bæði og á að ákveða, með hvaða sköttum og á hvern hátt það vill íþyngja landsmönnum.

Jeg lýsti því yfir í fyrri ræðu minni, af hverju jeg ekki get aðhylzt br.till. um lækkun tollsins niður í 1 kr. Það er ekki af því, að jeg ekki viðurkenni, að æskilegast hefði verið, að hafa hann sem lægstan, heldur af því, að eins og nú er ástatt, er jeg hræddur um, að með því móti mundi gjaldið varla nægja til þess, að fylla upp í bráðnauðsynlegustu fjármálaeyðurnar.

En eins og jeg hef áður tekið fram, þá er sá höfuðkostur þessa frv., að það snertir aðallega efnamennina og botnvörpuútgerðarmennina, og allir játa, að slíkur útvegur borgi sig yfir höfuð mjög vel, eins og ljósast má sjá af því, hve miklu fje bankarnir árlega verja til styrktar slíkum fyrirtækjum.