13.08.1912
Efri deild: 23. fundur, 23. löggjafarþing.
Sjá dálk 398 í B-deild Alþingistíðinda. (419)

71. mál, kolatollur

Sigurður Eggerz flm.:

Jeg skal ekki þreyta hina háttv. deild á löngu máli.

Háttv. 2. þm. G.-K. talaði mjög svo um það, hve það væri örðugt, að hafa eftirlit með umskipun hjer við land, en það var óþarfi fyrir hinn háttv. þm., því að oss flutnm, er það ljóst, enda aldrei ætlun vor, að tolleftirlit yrði sett á fót, og erum við fúsir til þess, ef þörf þykir, að breyta ákvæðinu svo, að það nái aðeins til hafna, en þá er það vel framkvæmanlegt.

Sami háttv. þm. gerir mikið úr því, hversu útlendingar væru ólöghlýðnir, og að því er jeg veit til, öldungis ástæðulaust; ef útlendingar vildu beita oss valdi, og neita að greiða gjöld þau, er þeim ber að greiða, þá er mjög örðugt, enda ókleyft, fyrir lögreglustjórann, að innheimta þau. Jeg get borið um þetta af þeirri reynslu, sem jeg hef frá því jeg var settur sýslumaður í Barðastrandarsýslu, en þangað kemur ógrynni útlendra skipa: á Patreksfjörð, að skipstjórarnir, að fáum undanteknum, koma beina leið til lögreglustjóra, til að greiða vitagjöld og önnur gjöld, er þeim ber.

Sami háttv. þm. gerði mikið úr því, hve mikið útlendingar verzluðu hjer, en það er mjög svo rangt, því að það, sem þeir kaupa hjer, er smáræði; skip þeirra eru svo vel útbúin, að þau þurfa þess ekki.

Annars hljóta allir að sjá það, hversu mikil sanngirniskrafa þessi tollur er, sem er hreinasta lítilræði móts við þann auð fjár, sem þeir moka hjer upp á fiskimiðum vorum (Jens Pálsson: Utan landhelgis er allra eign). En þeir skreppa inn fyrir landhelgina á stundum og ætti háttv. þm. G.-K. að kunna skil á því, þar sem hann meðal annars ber hjer fram í deildinni frumv. til að koma meira í veg fyrir það, en verið hefur.

Það er dæmalaust hlægilegt, að heyra annari eins fjarstæðu haldið fram eins og þeirri, er háttv. 2. þm. G.-K. sagði, að fátæklingarnir notuðu meiri kol en efnamennirnir; þeir gerðu það máske, ef þeir hefðu eins mörg herbergi, en það er það meinlega við fátæktina, að þeir verða oftast að kúra í einu herbergi og oft og tíðum geta þeir því miður ekki hitað það; og það mun vera hið venjulega, að þeir nota kolin aðeins til eldunar. Sami háttv. þm. taldi kolanotkun til sveita mjög litla og benti í því efni á Skaftafellssýslur, en það var mjög óheppilegt hjá háttv. þm., því að þar er hann nauða ókunnugur; sannleikurinn, er sá, að kolanotkun hefur stórkostlega aukizt þar hin síðari ár, og að benda á verzlunarskýrslurnar í því sambandi hefur enga þýðingu, því að mjög mikið af kolum er selt þar á stranduppboðum. Ef kol væru alstaðar jafn mikið notuð eins og þar, þá væri vel. Háttv. þm. hefði ekki átt að vera að tala um þessa hluti, þar sem hann ber ekki nokkurt skyn á það fyrir ókunnugleika sakir, botnar ekki meira í því en vegalengdum þar eða þvílíku.

Það er öldungis ómótmælt enn, að með þessu frumv. er haldið fast við gamlar tollstefnur landsins, fáa tollstofna, enga tollgæzlu, og það er höfuðatriðið, er fyrir öllum ætti að vaka.