25.07.1912
Efri deild: 8. fundur, 23. löggjafarþing.
Sjá dálk 415 í B-deild Alþingistíðinda. (445)

40. mál, jarðskjálftaskemdir

Jens Pálsson, (flm.):

Mál þetta er eins einfalt og óbrotið og nokkurt mál getur verið.

Ítarleg skjöl, er skýra frá ástæðunum til þess, að það kom fram, hafa legið frammi á lestrarsalnum, svo að þingmönnum hlýtur að vera málið ljóst út í æsar.

Af þessum skjölum sjest, að eitt sýslufjelag landsins hefur orðið fyrir ærnu tjóni, þar sem 7 hreppar þess hafa orðið fyrir stórskemdum af landskjálftanum 6. maí þ. á.

Hrepparnir og sýslurnar hafa komið sjer saman um það, að snúa sjer ekki til einstakra manna, eða leita samskota hjá öðrum.

Hins vegar hafa sýslurnar snúið sjer til landsstjórnarinnar og farið fram á 25 þús. kr. lán úr landssjóði, er endurgreiðist með jöfnum afborgunum á 10 árum, og hefur málið samkvæmt brjefi ráðherra fengið góðar undirtektir.

En jafnframt hefur sýslunefndin skotið því til landsstjórnarinnar, að fá eftirgjöf á vöxtum, og hefur hæstv. ráðherra tekið vel undir það, og skotið því til háttv. Alþingis.

Jeg þykist svo ekki þurfa að tala meira um þetta mál. Jeg vænti þess, að allir álíti þessar málaleitanir hæfilegar og hóflegar, og að háttv. deild fallist á lánveitinguna með eftirgjöf vaxtanna.