25.07.1912
Efri deild: 8. fundur, 23. löggjafarþing.
Sjá dálk 416 í B-deild Alþingistíðinda. (447)

40. mál, jarðskjálftaskemdir

Jens Pálsson, (flm.):

Út af ræðu háttv. 1. þm. Húnv., skal jeg svara honum nokkrum orðum.

Um lánsmögulegleika landssjóðs hef jeg enga rannsókn hafið, en gengið að því með fullu trausti, að landsstjórnin hefði ekki veitt jafn örugt svar, ef hún hefði sjeð verulega örðugleika á því, að veita lánið.

Það liggur fyrir skýrt brjef frá landsstjórninni; jeg hef það að vísu ekki hjer hjá mjer — gæti þó látið sækja það — en geng út frá því, að mjer sje treyst til að herma rjett frá.

Hitt er aðalatriðið, að sýslufjelagið og síðan hrepparnir taki ábyrgð á láninu, og að landsstjórnin hafi hönd í bagga með föstum ákvörðunum um það, að ekki megi verja peningunum til annars en að endurbyggja húsin.

Það að landskjálftinn skyldi koma í blíðu, snemma á vori, hjálpar til, þannig að menn hafa lengri tíma fyrir sjer til að koma öllu í lag.

Þetta fje verður styrkur, sem þeir fá sem lánsfje, er þeir borga sjálfir. Og þar sem þessir menn fyrir nokkrum árum hafa orðið fyrir tjóni af landskjálfta, get jeg ekki efazt um, að þeir byggi byggingarnar með alveg sjerstöku tilliti til þess, að þær verði sem traustastar til að standast slíkt. Og þar sem sýslustjórnin og sveitastjórnir munu um þetta hlutast, má vænta als hins bezta; og loks getur maður eftir anda allra skjalanna gengið að því vísu, að byggingunum verður einmitt hagað eftir því, sem ástæður krefjast.