09.08.1912
Efri deild: 20. fundur, 23. löggjafarþing.
Sjá dálk 418 í B-deild Alþingistíðinda. (453)

68. mál, meðferð fjárkláðans

Jósef Björnsson, (framsögumaður):

Jeg ætla ekki að vera langorður. Tek það fram fyrir hönd nefndarinnar, að við tökum aftur þingsályktunartillöguna á þskj. 114 og breytingartillöguna á þskj. 132. Það, sem þar er, hefur verið endurprentað á þeirri þingsályktunartillögu, sem hjer liggur fyrir. Hún er, eins og háttv. deild sjer, í 3 liðum. Að því, er snertir 1. liðinn, þá fer hann fram á, að skora á landsstjórnina, að hún beiti lögunum nr. 40, frá 8. nóv. 1901, sem gefa amtmönnum, en nú stjórninni, heimild til að fyrirskipa valdbað þar sem kláði kemur upp, til þess að hindra útbreiðslu hans. Eflaust geta verið skiftar skoðanir um það, hvort ástæða sje til, að skora á landsstjórnina, að beita þessum lögum. Nefndin lítur svo á, að ekkert sje á móti því, þar eð lögin eru heimildarlög, og því er ekki hægt að neita, að lögunum hefur ekki verið beitt nægilega vel undanfarið eftir því, sem nefndin frekast veit. Hún getur ekki litið öðruvísi á, eins og tekið var fram í síðustu umræðu um þetta mál, en lögum þessum hefði mátt beita meir, en gert hefur verið. En af hverju það stafar, veit nefndin ekki. En líkindi eru til þess, að meðráðamenn stjórnarinnar hafi fremur dregið úr því, að lögum þessum yrði beitt. — Að því. er snertir 2. lið tillögunnar, þá vil jeg taka það fram, að nefndin óskar eftir, að mál það, sem hjer liggur fyrir, kláðamálið, verði svo ljóst þingi og þjóð, sem unt er, áður en ráðizt er í jafn kostnaðarsamt og stórt fyrirtæki, sem það er, að tvíbaða alt sauðfje á landinu. Því vill nefndin skora á stjórnina, að hún leiti eftir og afli sjer allra upplýsinga, sem hægt er fá, svo málið verði ljósara, en nokkur tök eru á að það verði nú. Nefndin hefur í þessum lið tekið til greina bendingar hæstv. ráðherra um afstöðu stjórnarinnar til þess að koma fram með rökstuddar tillögur um meðferð málsins.

Hún hefur felt það burt, að stjórnin komi fram með nokkurt frumv., en ætlast að eins til þess, að stjórnarráðið geti unnið úr skýrslunum, og það leggi fyrir þingið 1913 útdrátt úr þeim og tillögur sínar í málinu.

Hvað 3. liðinn snertir, þá er hann fjárkláðanum mestmegnis óviðkomandi, þó ætla megi, eins og jeg hef tekið fram áður, að þrifaböð geti stutt að útrýmingu hans. Liður þessi er um það, að landsmenn verði spurðir um, hvort þeir vilji ekki heimildarlög, til þess að gera samþyktir um árleg þrifaböð als fjár. Nefndin er í engum vafa um, að árleg þrifaböð eru til hagsmuna fyrir fjáreigendurna. Þó ekki sje litið á annað, en að fjeð þrífst betur. En af betri þrifum leiðir minni fóðureyðslu og meiri hagnað af fjáreigninni yfirleitt, og eru það ærnar ástæður til þess, að óska eftir, að árleg þrifaböð yrðu tekin upp um land alt.

Jeg skal svo ekki fara fleiri orðum um málið að sinni; en jeg vona, að hin háttv. deild taki þingsályktunartillögunni vel.

Að lokum vil jeg að eins bæta því við, að jeg tel, að rjett sje, að hver sjerstakur liður tillögunnar sje borinn undir atkvæði út af fyrir sig.