08.08.1912
Efri deild: 19. fundur, 23. löggjafarþing.
Sjá dálk 422 í B-deild Alþingistíðinda. (458)

68. mál, meðferð fjárkláðans

Stefán Stefánsson:

Jeg vildi að eins strika undir það, sem háttv. þm. Skgf. sagði, að hjer er eigi um annað að ræða en heimildarlög; og noti stjórnin ekki lögin, þá er það skylda þingsins, að hvetja hana til að framfylgja lögunum. Já, jeg vil bæta því við, að ef þingið nú feldi þessa tillögu, þá lægi í því, að þingið vildi eigi að stjórnin framfylgdi lögunum (Sigurður Eggerz: Það er að eins formspursmál). Nei, það er meira en formspursmál.

Það var upplýst af háttv. l. þm. Húnv., að miklar birgðir af tóbaki liggi fyrir í Húnavatnssýslu, og að þær liggi undir skemdum. Í Strandasýslu eru einnig miklar tóbaksbirgðir og eigi betur geymdar. Sessunautur minn skýtur því að mjer, að á Hólmavík muni vera geymd um 300 pd.

Það hafa komið úr Húnavatnssýslu eindregnar áskoranir um það. að beita lögunum, eins og jeg gat um við 2. umr. þessa máls. Og er þá nokkurt vit í því, að láta tóbakið liggja þar ónotað og skemmast, og láta kláðann berast þar út um sýsluna og líklegast út fyrir sýsluna, hver veit hve víða?

Jeg ljet þess getið við 2. umr. þessa máls. að jeg væri sannfærður um, að landið mundi vera laust við kláðann að mestu eða öllu leyti, ef stjórnin hefði notað sjer heimild þá, sem lög nr. 40, 8. nóv. 1901, veita henni, að því, er snertir útrýmingarbaðanir á grunuðu svæðunum. En þetta hefur stjórnin eigi gert sem skyldi, enda mun aðalráðunautur hennar í þessum efnum, dýralæknirinn í Reykjavík, eigi hafa ýtt svo mjög undir hana. Þegar Myklestad gerði útrýmingaratlöguna að fjárkláðanum um árið, var herra dýralæknirinn mótfallinn þeirri aðferð, sem Myklestad beitti, og taldi hana kák eitt, sem með engu móti gæti leitt til útrýmingar kláðanum. En nú sýndi það sig, að Myklestad tókst að útrýma kláðanum á stórum svæðum, og að mestu leyti um land alt, svo kláðinn hefur að eins stungið sjer niður hjer og hvar, og í sumum sýslum hefur hans aldrei orðið vart síðan útrýmingartilraunin var gerð. Hefði ötullega verið að því gengið, að taka fyrir kverkar kláðanum hvar sem á honum bólaði, mundi sögu hans lokið hjer á landi, og fullyrðingar dýralæknisnis jafnframt að engu orðið, og er engin furða, þó honum taki það sárt; þegar litið er á aðgerðir stjórnarinnar í málinu hin síðustu árin, sem mun vera samkvæmt tillögum dýralæknisins, þá dettur manni ósjálfrátt í hug, að honum muni það eigi mjög um geð, að kláðans verði sem víðast vart, svo spádómar hans rætist og fullyrðingar hans reynist rjettar; en fjarri sje mjer, að halda því fram, að þetta hugboð sje rjett; það væri ósæmileg aðdróttun að þessum sæmdarmanni.

Jeg hef orðið þess var, að hann er mjög mótfallinn skoðunum nefndarinnar, og þykir svo sem nefndin hafi í áliti sínu rangfært orð hans. Sje svo, er það eigi viljandi gert. En skoðun vora á málinu erum vjer reiðubúnir til að verja hvar sem er, og þætti ekkert fyrir því, að hann tæki ofan í okkur opinberlega, eins og hann kvað hafa haft við orð, því þá gefst oss tækifæri til að bera hönd fyrir höfuð okkar, enda má þá telja víst, að fleira komi fram um þetta mál, en hjer hefur verið minst á. Jeg læt þessa getið, af því jeg sje, að dýralæknirinn er hjer viðstaddur.

Jeg vonast eftir, að öll þingsályktunartillagan verði samþykt og sjerstaklega 1. liður hennar verði eigi feldur af þeim ástæðum, sem jeg nefndi í upphafi þessa máls.