19.08.1912
Efri deild: 28. fundur, 23. löggjafarþing.
Sjá dálk 450 í B-deild Alþingistíðinda. (474)

89. mál, styrkur til búnaðarfélaga

Steingrímur Jónsson:

Jeg tel tillögu þessa ekki ósanngjarna, og er ekki á móti henni vegna þess, að hún valdi ruglingi, en jeg tel málið að öllu óundirbúið. Slíkt mál og þetta á að koma frá Búnaðarfjelagi Íslands, og á að vera rannsakað af því, og þess vegna er rjett að vísa því þangað, eins og 6. kgk. þm. leggur til, en það á líka að rannsaka Austfirði, afskektar sveitir í Eyjafjarðarsýslu, uppsveitir í Þingeyjarsýslu og á Sljettu, því að þar hygg jeg að ástæður í þessum efnum sjeu ekki betri en á Vestfjörðum.

Búnaðarfjelagið ætti að rannsaka, hvað ræktuð dagslátta í túni kostar í ýmsum sveitum landsins, því að það er hinn eini rjetti mælikvarðinn til að fara eftir, og jeg álít, að Búnaðarfjelagið geti vel gert það.