19.07.1912
Neðri deild: -1. fundur, 23. löggjafarþing.
Sjá dálk 11 í B-deild Alþingistíðinda. (492)

4. mál, breyting á alþingistíma

Ráðherrann (Kr. J):

Háttv. 1. þm. Árn. hefir hér haft mikið erfiði, að ráðast á svo lítið frumvarp, og mig furðar heldur að þessi logi, þessi brandur, skuli vera hlaupinn í hann út af svo litlu tilefni. Mér lízt svo, sem það sé augljóst, að hér sé ekki um annað að gera, en að breyta til um þingtímann vegna háskólans, nema þá að háttv. 1. þm. Árn. vilji taka að sér að útvega okkur háskólahús þegar á næsta hausti. Það væri auðvitað ágætt, en það er nú ekki gert svona í flughasti. Hann sagði ástæðurnar fyrir frv. ekki veigamiklar. Það getur verið að það sé satt, en sjálfur færði hann engin rök fyrir sínu máli. Hann talaði um þjóðarvilja, en hann er enginn til í þessu efni. Meðal þeirrar stéttar, sem mest hefir verið talað um í þessu sambandi, bændastéttarinnar, eru skoðanirnar mjög skiftar um það. Margir bændur segja og hafa sagt, að þeir vilji heldur vera burtu frá heimilum sínum í júlí- og ágústmánuði, en haust og vor; að minsta kosti minnist eg þess um föður minn heitinn, sem var einn af stærri bændum þessa lands og löngum þingmaður. Eg hygg að enginn þingtími sé óhentugri en einmitt sá sem nú er lögboðinn, og að bændur megi þá hvað sízt frá búum sínum vera, þegar mætist vetur og vor, því þá þarf oft að finna fljót bjargráð. Og eg held að það sé einmitt töluvert veigamikil ástæða fyrir mínu máli, að frá því að þing var sett hér á landi, frá því árið 930 og alt til þessa dags, skuli þing ætíð hafa verið látið byrja um mánaðamótin júní og júlí, nema síðan 1907. Þessi nærfelt þúsund ára venja virðist benda á það, að menn hafi séð, að þessi tími er hentugur; annars hefðu ekki allir komið sér saman um þetta alla tíð. — Ef til vill vœri haustið allra hentugasti tíminn — eg fyrir mitt leyti er á því, en því hygg að bændur mundu alment vera mótfallnir, því að þá þurfa þeir að ráðstafa heimilum sínum undir veturinn. Aftur á móti hygg eg að júlí- og ágústmán. sé einmitt heppilegur tími fyrir alla þá bændur, sem ekki þurfa beinlínis að halda á orfinu sjálfir daglega, en það hygg eg að sé ekki svo alltítt um þá, sem á annað borð bjóða sig fram til þings. (Sigurður Sigurðsson: Ojú!) (Bjarni Jónsson: Ekki eru þeir einyrkjar.) Eg held því að því fari fjarri, að þetta frumvarp útiloki bændur frá þingsetu. Annars skal eg ekki deila mikið um þetta mál, heldur fel eg það algerlega þinginu. Að eins vil eg enn og aftur leggja áherzlu á það, að ef það nær ekki fram að ganga, þá verður óhjákvæmilegt að sjá háskólanum fyrir sæmilegu húsnæði einhverstaðar annarsstaðar.