22.07.1912
Neðri deild: -1. fundur, 23. löggjafarþing.
Sjá dálk 21 í B-deild Alþingistíðinda. (500)

4. mál, breyting á alþingistíma

Bjarni Jónsson:

Eg hefi ávalt verið á þeirri skoðun, að heppilegast væri, að þing kæmi saman þ. 1. júli. Aftur álít eg vetrartímann mjög óheppilegan þingtíma, eigi sízt fyrir þá sök, hversu vetrarferðir hér á landi eru háskalegar. Á vetrin er allra veðra von og slys tíðust um það leyti; skip geta farist, menn orðið úti o. s. frv. Eg veit, að þingmenn munu svo kunnir ferðalögum hér, að eigi þurfi að skýra þetta nánar. Auk þess eru ferðir miklum mun dýrari á vetrin en á sumrin. Eg var því mjög hissa, er þingtíminn var fluttur aftur á miðjan vetur. — Þá er að athuga, hvaða þingtími sé hentugastur hinum ýmsu stéttum landsmanna. Sumir hv. þingmenn telja sumarið óhentugt bændum og sjómönnum. Eg er á gagnstæðri skoðun. Eg álít að bændum sé hægast að vera að heiman um sláttinn. Það er hægra að fá mann til að annast sumarstörfin, heyskapinn, en haust- og vorstörf, því að þau eru miklu margbrotnari og erfiðari viðureignar en sumarstörfin. Haust og vor er frekar nauðsyn á, að bóndinn sé heima sjálfur, til þess að taka ákvarðanir um bú sitt og hag. Þetta mun öllum kunnugt, nema ef til vill einstöku mönnum, er lagt hafa sérstaklega stund á þessi fræði og eru því betur að sér í þeim en aðrir menn!

Eg er hissa á því, að enginn skuli hafa minst á eina stétt í landinu við þessar umræður um breytingu þingtímans, en það er kennarastéttin. Eg vona, að menn lái mér eigi, þó að eg minni á þessa stétt, því að þó eg sé eigi kennari nú, þá er eg þó að minsta kosti afsettur kennari. Mér þykir undarlegt, að enginn skuli hafa minst á þessa stétt, því að það gæti þó hugsast, að það væri gott, að hafa hér á þinginu einhvern úr stétt þeirra manna, sem settir eru til þess að eyða heimskunni í landinu. En það getur engum dulist, að kennarar geta eigi setið á vetrar- eða haustþingum. Þeir eru útilokaðir frá þingmensku, ef þing er eigi háð á sumrin. Þetta ætti að geta vegið dálítið á móti því, þó að einstöku bændum sé óþægilegt að sækja þing á sumrin.

Þá vil eg minnast nokkrum orðum á br.till. á þgskj. 31 og 32. Að mínu áliti er of snemt að þing komi saman 17. júní. Enda mun það einmitt hafa verið ástæðan til, að fornmenn fluttu samkomudag þingsins til Jónsmessu, eins og hv. þm. Sfjk. (V. G.) gat um. Vorverkum er víðast hvar til sveita eigi lokið kringum 17. júní; vegir eru enn slæmir, og hestar eigi komnir í hold. Eg álít því heppilegra að þing komi eigi saman fyr en 1. júlí. Það gæti hugsast, að þingið drægist með því móti fram í september, en þó vart lengur en til 10.—11. mánaðarins, en þá er eigi svo áliðið, að bændur komist eigi heim fyrir fjallskil. — Eg vil skjóta því til hv. þm. Sfjk. (V. G.), hvort hann vildi eigi taka till. sína aftur. Hún gæti stofnað sjálfu frv. í hættu. Á síðasta þingi féll frv. fyrir klaufaskap vegna þess, að sams konar br.till. kom fram þá.

Það má vera, að mánuðirnir nóv.— des. sé heppilegri þingtími en miðsvetrartíminn, en þó er sá annmarki á, að þingmenn yrðu þá að ferðast heim um jólaleytið, og gætu þau ferðalög orðið mörgum erfið; skipagöngur eru þá erfiðar og hætt við slysum á sjó og landi. Eg vildi því líka skjóta til flutningsmanna þessarar tillögu, að þeir tækju hana aftur, til þess að sjálfu frumvarpinu yrði eigi í hættu stofnað; því að eg tel víst, að þeir séu okkur sammála um það, að flytja beri þingtímann frá miðjum vetri.

Áður en eg sezt niður, vil eg geta þess, að eg álit eigi nauðsynlegt háskólans vegna, að breyta þingtímanum. Þegar mál þetta lá fyrir síðasta þingi, tók eg það fram, að eg áliti það í alla staði vel framkvæmanlegt, að hafa þing og háskólann samtímis í þinghúsinu, þó að smáóþægindi kynnu að stafa af því. Eg get þessa að eins til þess, að mér verði eigi borið á brýn, að nú blási af annari átt en áður hjá mér um háskólann.