22.07.1912
Neðri deild: -1. fundur, 23. löggjafarþing.
Sjá dálk 26 í B-deild Alþingistíðinda. (503)

4. mál, breyting á alþingistíma

Einar Jónsson:

Eg stend upp til þess að gera örfáar athugasemdir út af ræðum háttv. þriggja þm.

Háttv. þm. Sfjk. (V. G.) færði þá ástæða aðallega með því, að færa til þingtímann, að háskóli og þing gæti ekki samrýmzt í þessu húsi á sama tíma. Nú vil eg spyrja: Eru öll herbergi í húsinu notuð sem vera mætti? Eg veit ekki betur en að salir séu hér uppi yfir alveg auðir. Væri nú nokkrum manni vorkunn að ganga upp stigana, ef þau herbergi væri tekin til afnota til nefndarfunda? Eg hygg ekki.

Sami hv. þm. (V. G.) taldi það mikilsvert atriði til stuðnings þinghaldi á sumrum, að forfeður vorir hefðu háð alþingi á sumrum. En eg hygg að hv. þm. hafi ekki nægilega athugað það, hve ástandið nú er gerbreytt frá því sem var í fyrri daga. Þingið var háð á Þingvöllum og höfðust menn þar við í tjöldum, en höfðu ekki hús yfir sér. Höfðu enga vegi um landið, engar, eða mjög illar samgöngur á sjó, höfðu með sér konur sínar, unglinga etc. og er þá skiljanlegt, hvers vegna forfeður vorir höfðu þingið á sumrum en ekki vetrum.

Það er rétt hjá hv. þm. Dal. (B. J.), að þing á vetrum er óhentugur tími kennarastéttinni, að því er kemur til þingsetu, en ef það er hentastur tími öðrum stéttum, þá verður kennarastéttin að beygja sig, þar sem um langtum fjölmennari stéttir er að ræða að öðru leyti. Sú kenning hv. þm Dal. (B. J.) að bændum sé hentast að vera frá búi sínu á sumrum, sýnir, að hann hefir líklega aldrei gengið að slætti, og því síður verið sveitabóndi. Eg hygg ekki, að bændur séu betur settir við það, að eiga á hættu ef til vill að þurfa að skera niður fé sitt af fóðurskorti, þegar heim kemur eftir þing á sumri — hafi heyskapurinn gengið stórum ver vegna fjarveru hans, heldur en taka því, sem að höndum ber með fóðurskort seinni part vetrar, þar sem heyásetningin hefir þó verið bóndans eigið verk áður hann fer til þings, á þeim tíma sem nú gildir. Það hefir enn fremur sýnt sig, að því er kemur til kennarastéttarinnar, að kennarar hafa undanfarin tvö vetrarþing fundið ráð til þess að sitja á þingi.

Það skal eg kannast við, að kennurum er ætlað að útiloka heimskuna í landinu, en þar fyrir er engin nauðsyn, að menn úr þeim flokki innleiði heimskuna í þingið.

Eg sé, að hæstv. ráðherra (Kr. J.) er ekki viðstaddur, en honum hefði eg þurft að svara nokkuru útaf ákúrum þeim, sem hann beindi til mín, en mér er illa við að tala við fjarstadda menn. En því mætti þó skila til hans, að þær ávítur hans voru óþarfar, og biðst eg engrar fyrirgefningar á orðum mínum. Hann hélt fram hinu sama sem háttv. þm. Sfjk. (V. G.), að vér hefðum þúsund ára reynslu fyrir þinghaldi á sumrum. Vísast hér til andsvara, þeirra sem eg svaraði hv. þm. Sfjk. (V.G.) áðan. Þar við mætti og bæta því, að margt yngra þykir þurfa breytingar við, heldur en það sem er þúsund ára að aldri, svo sem nú þessa dagana þykir jafnvel þörf á, að skift sé um ráðherra, og er hann þó yngri en þetta. Þar með segi eg ekki, að hann sé ekki nógu gamall sem slíkur.

Eg skal að lokum leyfa mér að stinga upp á 5 manna nefnd, og að frestað sé þessari umræðu.