22.07.1912
Neðri deild: -1. fundur, 23. löggjafarþing.
Sjá dálk 38 í B-deild Alþingistíðinda. (510)

4. mál, breyting á alþingistíma

Sigurður Sigurðsson:

Það eru að eins nokkur orð almenns efnis, sem eg vildi segja út af ýmsum ummælum um þingfærsluna, sem hafa komið fram hér í deildinni. Eg skal ekki fara út í að hrekja alt það moldviður af ímynduðum röksemdaleiðslum, sem þyrlað hefir verið upp og átt að vera til meðmæla þessu frv. Hvað húsrúmið snertir, þá vil eg geta þess, að eftir því sem kunnugir menn hafa skýrt mér frá, má fá allmikið ónotað húsrúm uppi á háalofti. Það húsrúm þar uppi, sem Sigurður sál. Vigfússon kallaði „Fornöld“, má hæglega búa út fyrir bókasafn alþingis og losnuðu við það 2 herbergi, sem nota mætti til nefndarfunda. Um kostnaðaraukann við vetrarþingin skal eg heldur ekki tala mikið. Hann er ekki svo mikill, að það geti orðið neitt aðal atriði í þessu máli, einkum þegar þess er gætt, að upphitun hússins,sem mun hafa mest áhrif á kostnaðarmuninn, er nauðsynleg hvort sem er, vegna háskólans. Og hitaleiðslunni er eftir orðum hv. 1. þm. Rvk. (L. H. B.) ekki betur fyrir komið en svo, að ómögulegt er að hita upp húsið niðri án þess að hitinn leiðist um alt húsið. Spámaðurinn við sumarþing yrði þá svo óverulegur, að ekki getur komið til greina að færa slíkt fram sem ástæðu með frumvarpinu.

Eg skil það vel, að meðmælendur frv. geri alt sem þeir geta til að gylla sinn málstað og færa ástæðu fyrir þingfærslunni. Enn þessar ástæður eru þannig vaxnar, að eigi er unt að taka mark á þeim, og sumar þeirra eru blátt áfram hlægilegar, og því langur vegur frá, að þær geti kallast röksemdir. Og eitt af því er þessi þúsund ára reynsla, sem svo margir háttv. þm. hafa verið svo margorðir um. Hver er svo þessi reynsla, sem hér er verið að vitna til? Hefir ekki margt breyzt á 1000 árum? Stendur kannske alt við það sama og var á söguöldinni? Síður en svo. Íslendingar hafa verið án háskóla 1000 ár, ritsíma o. s. frv. (Lárus H. Bjarnason: Þá voru engir ráðunautar). Nei, þá voru engir ráðunautar og þá voru engir prófessorar eða þessi sægur af embættismönnum, þörfum og óþörfum, sem vér eigum við að búa. — Þegar alþingi var sett á stofn, urðu menn að ferðast alt á landi. Þá voru engar samgöngur á sjó meðfram ströndum landsins. Þá gat ekki verið um annað að ræða, en að halda þingið að sumrinu. En síðan hefir þetta breyzt. Þessi ástæða hv. þm. er nú hégómi einber og þess er eg fullviss, að hefðum við alþýðumennirnir leyft okkur að kom fram með annað eins, þá mundu hinir „lærðu menn“ hafa hrist höfuðin yfir fávizkunni. Þar hefði líka verið full von til þess, því að í raun og veru er þessi ástæða, um 1000 ára reynsluna, að eins tilraun að slá ryki í augu almennings.

Mér hefir skilist það á sumum háttv. þingm., að þeir gerðu ekki ráð fyrir að aðrir hygði til þingsetu en þeir, sem ekki vinna daglega líkamlega vinnu. Hv. 2. þm. S.-Múl. (J. Ól.) sagðist vel geta skilið það, að útgerðarmenn hygðu til þingmenskuframboðs, en það gat honum ekki skilist, að óbreyttur sjómaður vogaði sér að hugsa svo hátt. Þetta er svo einkennilegt og samboðið „lærðu mönnunum“, sem frekast má vera. En sem betur fer, eigum við marga af óbreyttum verkamönnum, sem mundu sóma sér fult eins vel á þingi og margir af þeim hálœrðu og reynast þar ráðvandari til orða og verka.

Hv. þm. Dal. (B. J.) talaði um það, að miðsumartíminn mundi vera flestum bændum heppilegastur til að vera frá heimilum sinum. Eg þykist þessu fult eins kunnugur og hann. Flestir bændur telja sumartímann þann tíma, sem mest um varðaði fyrir búskap þeirra. Heyskapurinn er undirstaða landbúnaðarins og því er það skiljanlegt, að á þeim tíma, sem heyannirnar standa yfir, vilji þeir helzt vera heima til þess að geta stjórnað og sagt fyrir um alt. Það eru að vísu til bændur, sem eiga fullorðna syni, eða hafa svo góða forstjóra, er geta sagt fyrir verkum í fjarveru húsbóndans, að fullnægjandi sé, en þeir bændur eru miklu færri en hinir.

Þess má líka geta, að þegar færsla þingtímans var til umræðu á þinginu 1905, þá þótti sjálfsagt að breyta til og var þingfærslan til vetrarins þá samþ. hér um bil umræðulaust í báðum deildum — í hv. Ed. með öllum atkv. og í Nd. með samhljóða atkv. flestra deildarmanna.

Hæstv. ráðherra (Kr. J.) og fleiri þm. hafa talið það eitt af vandkvæðunum við að færa þingtímann til 1. nóv., að jólin lentu í þingtímanum og að þingm. vildu fá jólafrí og yrði það talsverður kostnaðarauki. Þessir hv. þingm. héðan úr Rvík geta ekki hugsað sér annað en langt jólafrí. — En ekki hygg eg að bændurnir mundu gera kröfu til þess. En þótt svo yrði, að jólin lentu í þingtímanum, þá ætti það ekki að tefja meira fyrir en páskarnir hafa gert undanfarin tvö þing, nema síður sé.

Það var sagt, að kosninganaúrslitin 1908 hafi ekki bent á, að bændum hafi fjölgað á þingi. Þeim fjölgaði einmitt þá. Kjörtímabilið næsta á undan voru að eins 5 bændur á þingi; en urðu þá við kosningarnar 9 eða 10. Hitt er víst, að þeim mundi að minsta kosti ekki fjölga, ef þing væri háð um sumartímann.

Háttv. 1. þm. Rang. (E. J.) gat þess áðan í sambandi við þetta mál, að bændur hefðu ekki sýnt eins mikla eigingirni á þingi eins og embættismenn, og fekk ákúrur fyrir. Þó að frv. gefi ekki beint tilefni til þessara ummæla, eru þau á rökum bygð og verður ekki mótmælt. En eg skal ekki fara frekar út í þá sálma. Álít þeim, sem hér eiga hlutað máli, hentast, að sem minst sé um það rætt.

Háttv. 1. þm. Rvk. (L. H. B.) sagði, að stéttaskifting væri engin hér á landi. Þetta er ekki rétt, og er háttv. þm. þó ekki vanur að segja annað en það, sem hægt er að standa við. Það er stéttaskifting í landinu, en hún hefir ekki um langt skeið verið eins á veg komin og nú er. Þessi stéttaskifting er fyrst og fremst sú, að við höfum heilan sæg af svokölluðum „lærðum mönnum“, sem hafa eins og svarist í fóstbræðralag um að styðja hver annars hag. Það er og öllum augljóst, að þessir menn telja sig standa ofar en alþýðan og líta niður á hana með fyrirlitningaraugum, og vilja helzt ekkert eiga saman við hana að sælda, nema þegar þeir þurfa á liðsinni hennar að halda til að hlaða undir sig og koma ár sinni vel fyrir borð.