19.07.1912
Neðri deild: -1. fundur, 23. löggjafarþing.
Sjá dálk 45 í B-deild Alþingistíðinda. (515)

10. mál, ritsíma- og talsímakerfi Íslands

Ráðherrann (Kr. J.):

Þegar stjórnin leggur þetta frv. fram, ætti ekki að þurfa að fara um það mörgum orðum. Það var hér í fyrra, að mestu leyti óbreytt, en dagaði þá uppi í háttv. Ed. og álítur nú stjórnin rétt að taka það upp aftur. Markmið þess er aðallega að gera fasta áætlun um lagningu síma og flokkun þeirra eftir því, hve mikils verðir þeir þykja. Þetta fyrirkomulag ætti að útiloka það, sem átt hefir sér stað áður, að einstakir þingmenn séu sí og æ að koma hver með sína tillögu um smáspotta þar og þar og troða þeim inn í fjárlögin. Þetta ætti því að vera til bóta. Fleira skal eg ekki segja nú um frv. sjálft, en að eins geta þess til leiðbeiningar væntanlegri nefnd, að mótmæli voru hafin gegn því ytra, eitthvað einni klukkustund áður en eg mætti með það á ríkisráðsfundi. Eg fékk þá sem sé boð frá forsætisráðherranum um að koma á fund með honum og samgöngumálaráðherranum. Það sem haft var á móti frumvarpinu var það, að 6. grein þess mundi koma í bága við gerða samninga. Þar (í 6. gr.) stendur svo: „Enn fremur er landstjórninni heimilt að láta reisa loftskeytastöð í Reykjavík, er hafi nægan kraft til sambands við útlönd, eftir nánari ákvörðun landsstjórnarinnar.“ Þetta var sagt að riði í bága við samninginn við „Stóra Norræna ritsímafélagið“. Eg kannaðist að vísu við þetta, en vænti þess hins vegar, að það félag mundi gefa samþykki sitt til þessa ákvæðis, enda var mér það vitanlegt, að aðalhöfundur frumvarpsins, Forberg landssímstjóri, hafði átt tal við stjórn þess, áður en hann samdi frumvarpið. En svo var auk þess annað atriði, sem sé það, að enska stjórnin hafði átt bréfaskifti við samgöngumálaráðherrann og tjáð honum, að þar sem hún hefði umráð yfir nokkrum hluta símasambands þess, er tengir Ísland við Danmörku, ?: nokkur hluti síma þessa liggur yfir brezk lönd, þá mundi hún verða því mótfallin, að hér yrði sett á fót svo víðtækt loftskeytasamband. í þriðja lagi var það tekið fram, að að því er tekur til loftskeytasambands við önnur lönd, þá bæri að skoða þetta mál sem eitt af sameiginlegu málunum.

Með því að tíminn til andsvara gegn þessum mótmælum var svo stuttur, sem áður er sagt, gat eg eigi sagt annað en það, að eg skyldi leggja það til við alþingi, að þessi grein frumvarpsins yrði feld úr því, eða að því yrði vikið við, á þá leið, að það kæmi eigi í bága við gerða samninga, en óskaði þess jafnframt, að skjöl öll og skilríki, er málið snerta, yrðu send hingað. En um bréfin frá Bretastjórn er það að segja, að þau hefi eg ekki fengið enn þá.

Eg skal svo ekki segja meira um þetta að sinni. Hefi aðeins viljað segja þetta til skýringar málinu. Sérstaklega vil eg biðja væntanlega nefnd að athuga þetta vel. Hún getur fengið öll skilríki, sem til eru þar að lútandi, hjá stjórnarráðinu.