09.08.1912
Neðri deild: -1. fundur, 23. löggjafarþing.
Sjá dálk 64 í B-deild Alþingistíðinda. (526)

10. mál, ritsíma- og talsímakerfi Íslands

Halldór Steinsson:

Það er aðallega út af ummælum hv. þm. V.-Ísf. (M. Ó.) að eg vildi segja nokkur orð. Hann talaði mörg fögur orð um Suðureyri við Súgandafjörð, og er í sjálfu sér ekkert út á það setjandi, ef hann hefði ekki fegrað þann stað með því, að kasta skugga á aðra staði. Það sýndi sig líka bersýnilega, að hann var ekki fær um þennan samanburð, er hann myndaðist við að gera, með því að það kom glögglega í ljós, að hann var allsendis ókunnugur þeim stöðum, er hann talaði um.

Hann hélt því fram, að krafan um að setja Hellissand úr 3. fl. í 2. fl., væri ekki á rökum bygð, þar sem Hellissandur og Ólafsvík væru í sama hreppi. En þetta er ekki rétt. Ólafsvík liggur í Ólafsvíkurhreppi, en Hellissandur í Neshreppi utan Ennis. Hefði hv. þm. fremur átt að þegja, en að sýna landfræðiskunnáttu sína á þennan hátt. Skal eg nú segja frá ástæðunum fyrir br.till. nefndarinnar.

Hellissandur er stórt kauptún og búa þar 450 manns. Auk þess sækja margir þangað á vetrum til sjóróðra úr öðrum hreppum Snæfellsnessýslu og Dalasýslu og jafnvel öðrum fjarliggjandi stöðum. Þar eru tvær verzlanir og kemur þangað fjöldi þilskipa, ýmist til þess að kaupa síld og ís, leggja af sér sjúka menn, o. s. frv. Þá er ekki óalgengt að sjá skip á veiðum útundan Jökli svo tugum og jafnvel hundruðum skiftir. Fyrir þau skip er Hellissandur einmitt mjög heppilegur staður, ef þau þurfa að hafa samband við land. Þá mundi og símastöðin á Hellissandi mikið notuð innan sýslunnar, til þess að ná sambandi við Ólafsvík, Stykkishólm og fleiri staði. Þegar litið er á það, hvað Snæfellsnessýsla hefir lagt mikið til síma, hljóta allir að kannast við, að hún hefir orðið hart úti, í samanburði við önnur héruð landsins. öll línan í gegnum Snæfellsnessýslu kostar um 60,000 kr. og af því hefir sýslan lagt til 12,000 kr. Og auk þess, sem þegar er komið, er gert ráð fyrir línu til Grundarfjarðar, sem sýslan á að kosta. Eru því þyngslin af símalagningunni talsverð á sýslunni, eins og hver maður getur séð. Eg skal geta þess, að vegarlengdin milli Sands og Ólafsvíkur er ekki mikil 8—10 km. og hefir landsímastjórinn áætlað að sími þar á milli mundi kosta um 4.000 kr., og er það smávægilegt í samanburði við þann arð, er hann mundi gefa. Enda hefir landsímastjórinn fallist á þessa till., eins og yfirleitt till. nefndarinnar. Frumv. í heild sinni tel eg þarfasta frv., sem komið hefir fram á þessu þingi. Þörfin er svo mikil, að það er ófullnægjandi, taka spotta og spotta á hverju fjárhags-tímabili, og með því fyrirkomulagi er engin vissa fyrir því, að þeir staðir verði látnir sitja fyrir, þar sem þörfin er brýnust. Breyt.till., sem fram hafa komið, er eg yfirleitt hlyntur, þó að eg geti ekki greitt atkv. með þeim öllum. En það er ekki af því, að eg sé beinlínis á móti þeim. Margir þeir staðir, sem farið er fram á að leggja síma til, eiga mikinn rétt á sér. Reyndar eru nokkrar br.till. þýðingarlitlar, t. d. þær er fara fram á, að auka línum við 3. fl. Eg er hræddur um, að ef br.till. rignir niður, geti það orðið til þess, að svæfa málið á þessu þingi, og það væri illa farið.