09.08.1912
Neðri deild: -1. fundur, 23. löggjafarþing.
Sjá dálk 73 í B-deild Alþingistíðinda. (531)

10. mál, ritsíma- og talsímakerfi Íslands

Jóhannes Jóhannesson:

Sem formaður nefndarinnar vil eg leyfa mér að taka það fram, að nefndin er sterklega mótfallin br.till. 1. á þgskj. 143, um að flytja talsímalínuna til Vestmannaeyja til 1 flokks, sakir þess að það mundi draga óþægilegan dilk á eftir sér, fyrst og fremst að endurborga 4.000 kr. til Rangárvallasýslu sem hún hefir þegar lagt til línunnar, og í öðru lagi eru endastöðvarnar á fyrsta flokks línum starfræktar að öllu leyti á landssjóðs kostnað. Nú leggja Vestmannaeyingar 400 kr. á ári til reksturs stöðvarinnar í Vestmannaeyjum, en sem mundu falla burt við samþykt þessarar br.till. Nefndin viðurkennir það, að Rangárvallasýsla hafi lagt fram talsvert mikið til þessa talsíma og sýnir nefndin það í verkinu með því, að hún leggur til að lækka til Víkursímans um 1.000 krónur, sem annars mundu leggjast á Rangárvallasýslu. Eg vil því leggja til, að 1. br.till. og þar af leiðandi 2. br.till. á þingskj. 143 verði feldar.