09.08.1912
Neðri deild: -1. fundur, 23. löggjafarþing.
Sjá dálk 82 í B-deild Alþingistíðinda. (540)

10. mál, ritsíma- og talsímakerfi Íslands

Jón Ólafsson:

Herra forseti! Það er hér sem oftar verið að toga skækilinn milli kjördæmanna. Eg stend nú ekki upp til að toga skækil míns kjördæmis, hvorki til né frá. Mér finst þetta frv. ekki verðskulda eins ómjúkar undirtektir eins og það hefir fengið. Tala eg það helzt til þeirra manna, sem eru að tala um misrétti. Þegar síminn var fyrst lagður hingað til lands, var sjálfsagt að leggja hann til höfuðstaðarins yfir þau héruð sem beinast lá við. Að sjálfsögðu var ekkert tillag heimtað af þessum héröðum, þó þar væru settar upp stöðvar, úr því að yfir þau þurfti að leggja símann hvort sem var. Síðan hafa nokkur héruð beðið um síma til sín og boðið framlag frá sér til lagningarinnar, og hefir það orðið til þess, að farið var að skattleggja hvert hérað, er síma fær. Við þetta hefir komið fram misrétti við þau héruð er fyrst fengu síma.

En nú mætti benda á ýmsa vegi til að jafna þetta misrétti. Það mætti t. d. nefna þann veg, að landssjóður endurborgi þeim sveitum, sem þegar hafa goldið tillag og heimtaði svo ekkert tillag framvegis. En eg býst við að það þætti tilfinnanlegt að snara þeirri upphæð út úr landssjóðnum nú. Það mun nú vera orðið um 80.000 kr. sem sveitirnar eru búnar að leggja fram til símalagningar. En það má benda á annan veg. Ef til vill mætti jafna misréttið með því, að leggja einu sinni fyrir alt gjald á þær sýslur, sem hafa fengið síma.

Eg geri þetta alls ekki að tillögu minni, heldur vildi eg að eins benda þm. á, að þetta væri vegur til að jafna misréttið milli héraðanna.