23.08.1912
Neðri deild: -1. fundur, 23. löggjafarþing.
Sjá dálk 88 í B-deild Alþingistíðinda. (547)

10. mál, ritsíma- og talsímakerfi Íslands

Framsögumaður (Jón Magnússon):

Eg hefi engu sérlegu við að bæta það sem stendur í nefndarálitinu. Þar er gerð grein fyrir hverjar séu þær helztu breytingar, sem Ed. hefir gert á frv. Ástæðurnar til þess að Ed. hefir tekið símann frá Ölfusárbrú til Vestmannaeyja upp í 1. fl. eru þær sömu sem háttv. 2. þm. Rang. (E. P.) hélt fram við 2. umr. þessa máls hér í deildinni. Er þá bygt á því, að Rangárvallasýsla fái endurgreitt tillag sitt til símans og Vestmannaeyjahreppur sé laus við tillag til starfrækslunnar. Öll sanngirni mælir með að sveitirnar leggi hvorki starfrækslukostnað né annað til þeirra síma, sem auðséð er að marg borga sig.

Eg hefi svo ekki fleira að segja að sinni. Eg vona að hv. deild samþykki frv. eins og það nú liggur fyrir. Annars gæti orðið dráttur á framkvæmdum, sem þjóðin óskar eftir og á heimting á að verði gerðar sem allra fyrst.