19.07.1912
Neðri deild: -1. fundur, 23. löggjafarþing.
Sjá dálk 89 í B-deild Alþingistíðinda. (549)

9. mál, landssjóður kaupi einkasímann til Vestmannaeyja

Ráðherrann (Kr. J.):

Í athugasemdunum við frv. þetta er þess getið að með leyfisbréfi dags. 9. júní 1911 hafi félagi í Vestmanneyjum verið gefið leyfi til að stofna og starfrækja síma milli lands og eyja og símakerfi í eyjunum. Leyfi þetta var veitt til 1. Okt. 1912, en verði það endurnýjað, þá er skylt að endurnýja það til 9 ára, þ. e. a. s. landssjóður hefir rétt til að kaupa símann á þessu fyrsta ári, en verður að öðrum kosti að bíða næstu 9 ár með að kaupa hann. Stjórnarráðið álitur hagfelt að nota nú þegar þessa heimild. Annarsvegar lítur út fyrir að síminn muni verða mjög arðberandi og hinsvegar er þetta eini síminn hér á landi er nokkurs er um vert, sem ekki er eign landssjóðs, en réttast þykir vera, að landið eigi alla símana. Eftir skýrslu símastjóra er stofnkostnaðurinn um 45 þús. kr., en viðhaldskostnaðurinn enginn enn. Þetta er það verð sem stjórnin leggur til að síminn sé keyptur fyrir, og eru stofnendur hans samkvæmt samgingum skyldir að ganga að því. Eg veit ekki hvort álitið verður þörf á að athuga málið í nefnd, en ef hv. þingdm. sýnist svo, mætti vísa því til nefndarinnar er kosin var í málið næst á undan.