19.07.1912
Neðri deild: -1. fundur, 23. löggjafarþing.
Sjá dálk 89 í B-deild Alþingistíðinda. (550)

9. mál, landssjóður kaupi einkasímann til Vestmannaeyja

Björn Kristjánsson:

Mig langar til að leita mér nokkurra upplýsinga hjá stjórninni þessu máli viðvíkjandi. í fyrsta lagi um það, hvort fjárhagur landssjóðs sé þannig vaxinn nú, að hann sé fær um að ráðast í þessi kaup. Í öðru lagi, hvort landssjóði muni veita auðveldara að útvega lán nú, en þegar hann reyndi að útvega lán til veðdeildarbréfa kaupanna. Þá taldi stjórnin ómögulegt að útvega fé til láns. Í þriðja lagi vildi eg beina þeirri spurningu til hæstv. ráðh. (Kr. J.) hvers vegna samningurinn við Vestmanneyinga hafi verið svo úr garði gerður, að landið verður að kaupa símann nú í ár, eða að bíða í 9 ár að öðrum kosti. — Það hefir verið sagt, að útlit sé fyrir að síminn verði arðberandi. Eg efast um að svo verði þegar til lengdar lætur. Þetta er eini síminn á landinu sem er í hættu, sem getur bilað þannig að víðgerðin kosti stórfé. Réttast er að félagið haldi símanum fyrst um sinn þangað til reynsla er fengin fyrir því að hann geti borið sig; það er ekki rétt að losa leyfishafa strax við ábyrgðina af honum, eftir því kappi sem þeir lögðu á það, að leggja símann fyrir eigið fé í staðinn fyrir að fá ókeypis loftskeyta samband.