21.08.1912
Neðri deild: -1. fundur, 23. löggjafarþing.
Sjá dálk 109 í B-deild Alþingistíðinda. (576)

11. mál, samningur um einkaréttarsölu á steinolíu

Ráðherraun (H. H.):

Eg sé ekki til neins, að ræða einstakar greinar frv. En þó langar mig til að bera blak af 10. gr. Menn hafa sagt að það ákvæði væri hættulegt landinu. Engin tök væru á því fyrir landsstjórnina að koma í veg fyrir að settar yrðu á stofn dýrar innréttingar, margra miljóna króna virði, sagði einhver, sem landið yrði svo neytt til að kaupa. En þetta er ekki rétt. Þó að gerðir væru samningar um 10 ár, þá hefði landið heimild til að segja þeim upp á hverju ári. Ef landið segði upp yrði það að kaupa eignir félagsins en ef leyfishafi segði upp þá væri engin kvöð á landssjóði til þess. Og hálf-brosleg er sú mótbára, að leyfishafi mundi hafa mikla tilhneigingu til þess að kasta út þúsundum til að setja landið í vanda. Slíkt væri blátt áfram óhugsanlegt. Ef leyfishafi bygði ekki nema það sem nauðsynlegt væri, þá væri landsjóði hættulaust að taka þær byggingar að sér.

Mótbára hv. þm. N.-Þing. (B. Sv.) um að þingtíminn muni ekki hrökkva til að koma frv. fram, ættu menn ekki að setja fyrir sig. Því að eg hefi heimild frá hans hátign konunginum til að framlengja þingtímann til 30. þm. ef þörf gerist.

Eg hefi hér fyrir framan mig bréf til alþingis frá fiskiveiðafélagi Íslands. Ber það með sér að útgerðarmenn hafa mikinn áhuga á að eitthvað sé gert. Það lýsir yfir því, að forstjóri steinolíufélagsins hafi sagt að hækkunin á steinolíunni stafi ekki af aukinni notkun heldur aðallega af því að flutningsgjaldið hafi hækkað svo stórum.