21.08.1912
Neðri deild: -1. fundur, 23. löggjafarþing.
Sjá dálk 110 í B-deild Alþingistíðinda. (577)

11. mál, samningur um einkaréttarsölu á steinolíu

Framsögum. (Björn Kristjánsson):

Eg skildi hæstv., ráðherra (H. H.) svo sem landið væri ekki skyldugt til að kaupa áhöld félagsins nema landið segði samningunum upp fyrir 1918. Eg bið hv. þm. að lesa 10. gr. til enda. Þá munu þeir sjá að landið á líka að kaupa þau ef samningurinn verður ekki framlengdur. Annars furðar mig á því hvílíkt kapp hann leggur á, að koma þessu frv. fram, þar sem hann hefir farið að útvega sér heimild til að framlengja þingtímann þess vegna. Mér er það óskiljanlegt af því að búið er að sjá fyrir nægum tekjum í landssjóð til næsta þings. Hvað er þá um að vera? Ekki er fjárþröngin.

Eg hefi þegar tekið það fram, að þetta frumv. getur engin áhrif haft á alheimsmarkaðinn. Til þess eru nægar sannanir. Og nóg er mér boðið, þegar farið er að vefengja símskeyti sem eg hefi í höndunum. Hæstv. ráðherra (H. H.) ber háum flutningsgjöldum við hækkuninni á steinolíu. Það nær engri átt. Flutningsgjald frá New-York til Hamborgar getur ekki verið hærra en svo sem 2 kr. á hver 150 kíló. En flutningsgjöld frá Kaupmannahöfn til Íslands eru miklu dýrari en milli New-York og t. d. Danmerkur, og ætti þó hver maður að sjá, að verðhækkunin getur ekki stafað eingöngu af hækkun á flutningsgjaldi. Flutningskostnaður á steinolíu ætti þá að vera hærri en á allri annari vöru. Slíkt þarf enginn að ætla sér að telja neinum trú um.