21.08.1912
Neðri deild: -1. fundur, 23. löggjafarþing.
Sjá dálk 111 í B-deild Alþingistíðinda. (578)

11. mál, samningur um einkaréttarsölu á steinolíu

Eggert Pálsson:

Eg ætla ekki að leggja út í kappræðu við hæstv. ráðh. (H. H.) og því síður þar sem skoðanir okkar fara saman í aðalatriðunum. En hann hafði ekki öldungis rétt eftir mér ummæli mín um 10. gr. Eg nefndi ekki á nafn að landinu kynni að geta blætt svo mörgum miljónum króna skifti ef samningar yrðu rofnir eða félagsskapnum yrði slitið En hinu gerði eg ráð fyrir, að sú upphæð mundi geta orðið allstór og hættulega há, sem landið yrði að gefa fyrir lóðir og ýmisleg mannvirki sem félagið kynni að leggja fé í. Hv. ráðherra benti á að samningnum mætti segja upp og fría þannig landssjóðinn við óþörf lóða- og mannvirkjakaup En þetta er ekki rétt, að því er til fyrstu áranna kemur eða til 1. júní 1918. Honum verður alls ekki sagt upp til þess tíma, en hins vegar getur leyfishafi lagt mikið fé í lóðir og húsakaup og það því fremur, sem hann á það víst að landssjóður kaupir alt af honum, hið óþarfa jafnt sem hið þarfa, eftir matsverði. En hvers virði þær lóðir og mannvirki yrðu fyrir landssjóðinn ef hann vildi ekki takast sjálfur söluna á hendur á eftir, hygg eg að flestir geti rent grun í. Hann yrði vitanlega að sitja með alt og hefði af því skaða, en engan arð. Þetta veit eg að hinum hæstv. ráðherra hlýtur að vera ljóst. En af því að þetta er nokkurs konar aukaatriði skal eg ekki þrátta um það frekar.