18.07.1912
Neðri deild: -1. fundur, 23. löggjafarþing.
Sjá dálk 119 í B-deild Alþingistíðinda. (596)

14. mál, útflutningsgjald af fiski, lýsi o. fl.

Guðlaugur Guðmundsson:

Eg œtla mér ekki að fara að þrátta mikið um þetta mál á þessu stigi þess, en þar sem hv. síðasti ræðumaður var að tala um, að hér væri verið að taka upp skakka stefnu í tolllöggjöfinni, þá vil eg geta þess, að það er nokkuð seint að vakna nú, þar sem þessi stefna hefir ráðið í samfleytt 31 ár. Og eg get satt að segja ekki séð, hvaða ástæða sé til að hlífa frekara þessum afurðum en öðrum. Það gæti verið meining í því að tala um að afnema alt útflutningsgjald af innlendum vörum, en eftir því sem hagur landssjóðs er núna, þá er eg hrœddur um að slík tillaga fengi ekki mikinn byr. En meðan þetta er gildandi regla, þá sé eg enga ástæðu til að bregða út af henni í þessu atriði fremur en öðrum, enda veit eg það með vissu, að hlutaðeigendur verða ekkert hissa á þessum tolli, og er eg hræddur um að það yrði jafnvel brosað að okkur, ef við vildum ekki gera okkur þessa atvinnugrein arðberandi eins og aðrar. Eg get heldur ekki séð, að þær upphœðir, sem stjórnarráðið stingur upp á, séu svo háar, að þær þurfi að fæla nokkurn frá þessum atvinnurekstri. Að vísu var síldarolía í nokkuð lægra verði síðasta vetur en áður, vegna innflutnings Norðmanna á hvallýsi seinasta vetur, en hvernig þetta verður í framtíðinni, er auðvitað ekki hægt að segja. Þess ber og að gæta, að enda þótt þeir menn, sem reka þessa atvinnu, séu búsettir hér á landi, þá stendur þó útlent fjármagn að baki þeim, bæði norskt og hollenzkt. Og eins og háir tollar voru áður fyr lagðir á hvalveiðarnar, eins virðist rétt að tolla og þessa atvinnugrein, einkum þar sem hvalveiðar hér á landi eru nú að hverfa úr sögunni og landið missir stórfé við það. Þá er ekki óheppilegt að fá eitthvað í skarðið.

Það er rangt að liggja stjórnarráðinu á hálsi fyrir það, að það hefir ekki gert áætlun um hve miklu tekjurnar af þessum tolli muni nema, því að enn er engin reynsla fengin fyrir, hve mikið þessar verksmiðjur geta framleitt, en ef afli ekki bregst og þær geta starfað, þá má búast við, að þessi útflutningur verði æði stórfenglegur. Eg hygg, að þá mætti reikna áburðinn og mjölið í þúsundum tonna og síldarolíuna í þúsundum fata — en nákvæmlega verður ekkert um þetta sagt, áður en reynslan er fengin. Nefnd í málið álít eg, eins og eg hefi sagt, alveg óþarfa, en vil þó ekki setja mig upp á móti henni, ef hv. deild virðist það heppilegra.