27.07.1912
Neðri deild: -1. fundur, 23. löggjafarþing.
Sjá dálk 128 í B-deild Alþingistíðinda. (603)

16. mál, verslun og veitingar áfengra drykkja á Íslandi

Lárus H. Bjarnason:

Eg skal fyrst minnast á það, sem háttv. flutnm. (J. M.) sagði, að nefndin tæki ekki við frumv. aftur. Það er ekki komið undir nefndinni, heldur undir hv. d. Deildin getur vísað frv. aftur til nefndarinnar til frekari íhugunar.

Háttv. flutnm. vill færa sér það til afsökunar, að með aðflutningsbannslögunum 1909 sé gengið svo nærri persónulegu frelsi, að lengra verði ekki komist. Þetta er ekki rétt. Fyrri heldur en eftir 1. janúar 1915 er það t. d. ekki óheimilt eftir þeim lögum, að ríða með pela upp á vasann.

Annars greiddi eg atkv. með bannlögunum af því, að því hafði verið skotið undir úrskurð þjóðarinnar, hvort hún vildi að bannaður yrði aðflutningur áfengra drykkja, og þjóðin nærri einróma játað því.

Háttv. flutnm. fór ekki út í þá mótbáru, sem eg hélt fram, að frv. kæmi í bág við 55. gr. stjórnarskrárinnar. Þar segir svo í niðurlagi greinarinnar:

„Ekkert félag má leysa upp með stjórnarráðstöfun. Þó má banna félög um sinn, en þá verður þegar að höfða mál gegn félaginu, til þess það verði leyst upp.“

Nú segir háttv. flutnm. að það hafi verið tilgangur sinn að geta lokað klúbbunum. Hann hefði því þurft að bæta við að strax skyldi höfða mál.

Viðvíkjandi hegningunni sagði flutnm. að það væri orðin tízka um hinn mentaða heim, að hafa bilið milli hámarks og lágmarks sem stœrst, en það er of mælt, enda hefði hv. flutningsm. þá átt að hafa það enn rýmra. Ef lögð er þriggja mánaða fangelsisvist við svo lítilfjörlegu broti sem því, að maður súpi á sínum eigin pela inni á kaffihúsi, veitti naumast af æfilöngu fangelsi eða lífláti fyrir stærri brotin. Flutnm. (J.M.) sagði, að eg vildi milda hegningarákvæðin, og það er satt, því að þau eru sum of hörð. En hann gleymdi að geta þess, að eg vil jafnframt láta búa þannig um lögin, að þau geti gert eitthvert gagn. Eins og gengið er frá þessu frv., má alstaðar fara í kring um það. Hvað eru t. d. „föst félagsherbergi“? Yfirleitt er að vísu erfitt að búa svo um lög, að ekki megi fara í kring um þau, en hér er mönnum bent til þess, hvernig menn eigi að fara kringum þau, og það er alveg óvanalegt.

Hv. flm. kveðst hafa hugsað sér, að hann sem lögreglustjóri gæti leyft að hafa vín um hönd í veizlum, en það er hvergi gert ráð fyrir slíkum undantekningum í frv. Hann yrði því að neita um þær þó hann hugsi sér nú að hann geti gert það.

Eg hefi ekki komið með þessar aðfinslur til að draga úr frv., heldur til að gera það nýtilegt í framkvæmd. Eg vildi gjarnan að lögin gætu orðið annað en kák.

Háttv. flm. óskaði þess, að eg gerði athugasemdir við frv., og vona eg að eg hafi ekki stygt hann með aðfinslum mínum. En sumt í frv. er þess eðlis, að miklu betur mætti gera, og leyfi eg mér því að gera það að tillögu minni, að frv. verði vísað aftur til nefndarinnar, til nánari athugunar.