02.08.1912
Neðri deild: -1. fundur, 23. löggjafarþing.
Sjá dálk 166 í B-deild Alþingistíðinda. (640)

18. mál, æðsta umboðsstjórn landsins

Framsögum. (Lárus H. Bjarnason):

Það var gerð grein fyrir því við 1. umr. af flutningsmönnum þessa máls, hvað fyrir þeim hefði vakað er þeir fluttu þetta mál inn í deildina.

Nefndin er öll á þeirri skoðun, að ráðh. eigi ekki að hafa nein lögákveðin eftirlaun. Það sem skilur meiri og minni hluta nefndarinnar er það, hvort breyta skuli ákvæðinu um ráðherraeftirlaun áður en stjórnarskránni er breytt. Minni hlutinn, háttv. form. nefndarinnar, þm. Vestm. (J. M.), ætlar að breytingin megi bíða þangað til stjórnarskr. er breytt, en meiri hlutanum sýnist svo sem brugðið geti til beggja vona hvenær það verði og býst auk þess ekki við að hægara verði að breyta þessu ákvæði þegar ráðherrar eru orðnir þrír, því að þrír menn hafa meiri tök á þinginu en einn maður. Allur er varinn góður og því réttast að samþykkja frv. strax. Á þingunum 1909 og 1911 komu fram frumv., sem gengu í sömu átt og þetta, en náðu ekki fram að ganga vegna ómerkilegs atriðis, sem í milli bar.

Það liggur engin brtill. fyrir, svo eg býst ekki við að þurfa að halda langa ræðu. Að eins hefir nefndin sjálf komið með eina viðaukatill., þar sem hún leggur til að beint sé tekið fram, að ákvæðin í 1. gr. eigi ekki við þá, sem kunna að hafa unnið sér rétt til annarar eftirlaunaupphæðar.

Áður en andmæli verða hafin gegn frumv. þykist eg ekki þurfa að segja fleira.