02.08.1912
Neðri deild: -1. fundur, 23. löggjafarþing.
Sjá dálk 168 í B-deild Alþingistíðinda. (643)

18. mál, æðsta umboðsstjórn landsins

Framsögum. (Lárus H. Bjarnason):

Út af því, sem hæstv. ráðherra (H. H.) sagði, skal eg getá þess, að samkvæmt gildandi lögum getur það ekki komið fyrir að maður, sem nýtur embættislauna hafi samtímis eftirlaun. Eg veit eitt dæmi til að maður, sem hafði embættiseftirlaun, var látinn gegna starfi — ekki embættisstarfi — með fullum launum. Hitt getur ekki komið til mála að maður njóti samtímis embættislauna og embættiseftirlauna.

Það er rétt, sem háttv. þm. Vestm. (J. M.) sagði, að eftir þessu frv. fengi embættislaus maður lægri eftirlaun eftir að hafa gengt ráðherrastöðu heldur en embættismaður. Það leiðir af því að embættismaðurinn hefir rétt, sem ekki verður af honum tekinn, til eftirlauna eftir fyrra embætti sitt. Hann býst ekki við að óttast þyrfti hættu af þremur ráðherrum fyrir framgang þessa frv., en það er augljós oftrú. Frv. mundi leiða til mikils sparnaðar fyrir landssjóð, jafnvel meðan ráðherrann er einn.

Annars má athuga þessar athugasemdir hæstv. ráðherra (H. H.) og hv. þm. Vestm. (J. M.) til 3. umr. Nú liggur að eins fyrir eitt af tvennu, að vísa frv. til 3. umr. eða fella það.