02.08.1912
Neðri deild: -1. fundur, 23. löggjafarþing.
Sjá dálk 177 í B-deild Alþingistíðinda. (650)

18. mál, æðsta umboðsstjórn landsins

Ráðherrann (H. H.):

Það er engum blöðum um það að fletta, að í þessu frv. er þolanlega séð fyrir hagsmunum þeirra ráðherraefna, sem í eftirlaunaembættum sitja, og sparnaðurinn kemur aðallega niður á þeim, sem ekki hafa eftirlaunarétt, þegar þeir verða ráðherrar. Það kveður svo ramt að þessu, að eiginlega ætti frv. að heita: „Frv. til laga um einkarétt eftirlaunamanna til ráðherraembættis“. Eins og þetta frv. er orðað, er það eiginlega einokunarfrv. ekki síður en frv. um einkasölu á kolum og steinolíu, sem háttv. flytjendur frv. þó ekki tjá sig mjög fylgjandi, einokun á ráðgjafastöðum embættismönnum til handa þó að slíkt muni síst vera tilgangurinn með frv. En það gæti þó hugsast, að slík einokun gæti einhvern tíma þótt koma heldur óheppilega niður, og gæfi litlar tekjur fyrir landssjóðinn.