02.08.1912
Neðri deild: -1. fundur, 23. löggjafarþing.
Sjá dálk 182 í B-deild Alþingistíðinda. (653)

18. mál, æðsta umboðsstjórn landsins

Eggert Pálsson:

Það hefir blandast inn í umræður þessa máls umtal um eftirlaun alment, og hlýt eg því að telja mér leyfilegt að minnast lítið eitt á skoðun mína á því máli. Eg er sannfærður um það, að sú krafa er orðin svo sterk hjá þjóðinni, að eftirlaun embættismanna yfirleitt verði afnumin, að ekki verði til langframa á móti henni staðið. Eins og nú stendur heimilar stjórnarskráin ekki afnám eftirlauna, svo að henni þarf að breyta í þessu efni, ef þessari kröfu á að verða sint. Það hefir verið sagt, að stjórnarskrárbreyting standi ekki svo fast fyrir dyrum að vænta megi að henni verði hrundið fram á nálægum tíma. Eg skil nú ekki að það geti átt sér stað. Því þótt henni verði ekki komið fram á þessu þingi, þá getur aldrei farið svo, að hennar verði mjög langt að bíða úr þessu. Og þegar stjórnarskránni verður breytt, þá verður áreiðanlega sett inn í hana ákvæði er heimilar afnám eftirlaunanna. En hins vegar þykist eg vita að þjóðin muni þá fús á að hækka eitthvað laun embættismanna sinna, svo að þeir geti frekar lagt upp fé og séð sér þannig farborða í ellinni. En verði nú stjórnarskránni breytt innan skamms, þá sé eg ekki að þetta frv. hafi svo stórvægilega þýðingu, að það ekki geti beðið þangað til eftirlaunamálið í heildinni yrði tekið fyrir. Það er ekki sennilegt að margir ráðherrar komist á eftirlaun þangað til breyting í þeim efnum yrði um garð gengin. Og þó þeir yrðu einn eða tveir, þá græddi þjóðin ekkert stórvægilegt fé þótt frv. næði nú fram að ganga, því til þess ráðherra sem nú er, nær frv. vitanlega ekki. Og auk þessa er þannig frá frumv. gengið, að lækkunin nær að eins til eða kemur að eins niður á þeim, sem ekki hafa verið embættismenn áður og af slíkum mönnum verða varla margir ráðherrar á þessu tímabili þangað til stjórnarskránni yrði breytt. Eg sé því eigi að það hafi verulega þýðingu að samþykkja þetta frv. En það vil eg taka fram, og ætti annars að vera öllum sýnilegt, að afstaða þingmanna til þessa frv. þarf ekki að standa í neinu sambandi við það, hvort þeir eru með eða móti afnámi eftirlauna embættismanna yfir höfuð. Eg fyrir mitt leyti er hiklaust meðmæltur afnámi eftirlauna yfirleitt, en er hinsvegar á móti þessu frv. Því auk þess, sem samþykt þess verður að teljast þýðingarlítið atriði fyrir landssjóðinn, þá hlýtur það að verða til að skapa misrétti. Þeir sem ekki eru embættismenn og kynnu að verða ráðherrar verða misrétti beittir gagnvart hinum sem væru embættismenn áður. Verði frv. samþ., er loku fyrir það skotið að efnilegur embættislaus maður geti tekið að sér ráðherrastöðuna, en fyrir embættismennina verður ráðherrastaðan jafn eftirsóknarvert hnoss eins og hún hefir verið að undanförnu.