02.08.1912
Neðri deild: -1. fundur, 23. löggjafarþing.
Sjá dálk 183 í B-deild Alþingistíðinda. (654)

18. mál, æðsta umboðsstjórn landsins

Framsögum. (Lárus H. Bjarnason):

Menn eru nú farnir að yrkja sig upp, eins og von er til eftir svo langa stælu. Af öllum þeim andmælum sem upprunalega komu fram, er að eins eitt orðið eftir: að lækkun eftirlaunanna muni fæla aðra en embættismenn frá því að taka að sér ráðherra- stöðuna, vegna þess að hún (?: lækkunin) nái bara til þeirra ráðherra, sem ekki hafa verið embættismenn. Eg get ekki skilið að margur maður sé þannig gerður, að hann sækist eftir ráðherrastöðunni að eins vegna eftirlaunanna.

Sumir menn sækja róðurinn til að koma fram hugsjónum sínum, aðrir vegna valdanna eða vegsins, en fæstir vegna eftirlaunanna. Eg þykist vita að hv. þm. Seyðf. (V. G.) hefði tekið við ráðherradómi til að koma ritsímahugmynd sinni á hér um árið eða eimreiðinni á nú, jafnvel þó að engin eftirlaun hefðu fylgt ráðherraembættinu, og svo myndi um fleiri. Það er of mikið vantraust á mönnum að ætla að embættislausir menn muni ekki gefa kost á sér, þótt lækkuð verði eftirlaunin. Þeir sem annars eiga nokkuð erindi í ráðherrasætið, mundu taka það hvort sem nokkur eftirlaun fylgdu því eða engin. Enda skiftir það ekki miklu máli þótt eftirlaunin séu lækkuð um þetta lítilræði, úr 1/5 launa + 20 kr. fyrir hvert embættisár, niður í 1.000 kr. Dugandi menn eru jafn lifandi eða dauðir fyrir það. Þetta er að eins borið í vænginn af vandræðum.

Hv. þm. Sfjk. (V. G.) sagði að þingræðið væri ekki traust hér ennþá. Þó hafa nú þrír ráðherrar fylgt því. Og það dæmi sem hann nefndi, að síðasti ráðherra gerði það ekki að „Kabinets“- spursmáli, er þingið þvert ofan í vilja hans veitti viðskiftaráðunautsstöðuna á fjárlögunum, sýnir einmitt það gagnstæða! Hann gat sagt og átti að segja: Eg læt mér ekki lynda að tekið sé fram fyrir hendurnar á mér; hafið þið þá heldur ráðherrastöðunni. En hann gerði það ekki, heldur beygði sig fyrir þinginu.

Hv. 2. þm. Rang. (E. P.) bar það sama fram, að frv. gengi út yfir þá sem ekki væru embættismenn, en því er þegar svarað. Þá sagði hann að ekki lægi á þessu frv. því þó að stjórnarskrárbreyting verði ekki samþykt nú, þá yrði þess varla langt að bíða. En hvorki hann né nokkur annar getur spáð í þær eyður. Því að ef ekki á að samþykkja frv. frá 1911 nú, þá þarf að fitja upp á nýjan leik 1913, og enginn veit hvernig fer um breytinguna þá. Mér virðist alt mæla í móti því að fresta samþykt frv. Ef það hefði verið samþykt 1909, þá hefðum við ekki þurft að borga Birni Jónssyni nema 1.000 kr. eftirlaun í stað 3.000 kr. Hv. þm. getur ekkert sagt um það hvernig kann að fara þangað til stjórnarskrárbreyting verður samþ., enda allur varinn góður.