02.08.1912
Neðri deild: -1. fundur, 23. löggjafarþing.
Sjá dálk 185 í B-deild Alþingistíðinda. (655)

18. mál, æðsta umboðsstjórn landsins

Jón Ólafsson:

Herra forseti! Aldrei þessu vanur stend eg upp til að gera grein fyrir atkvæði mínu. En það kemur til af því, að afstaða mín í þessu máli er nokkuð einkennileg. Eg er á þeirri skoðun að rétt sé að embættismenn hafi eftirlaun, og álít óhyggilegt að svifta þá þeim. Það hefir verið sagt, að það megi launa þeim svo hátt, að þeir geti lagt upp, það er nú hvorttveggja, að þetta er ekki alment gert, heldur er embættismönnum vorum flestum launað miklu frekar of lágt, og þótt þeim væri launað hærra, þá væri það engin trygging fyrir því að þeir legðu upp, og þá er altaf hætt við að bænir um eftirlaun kæmu til þingsins, en þá mundu menn reka sig á að gróðinn færi að verða lítill. Við verðum að líta á hvernig ástandið er annarstaðar í þessu efni. í Bandaríkjunum eru engir embættismenn eða starfsmenn ríkisins með eftirlaunarétti, nema þeir hermenn, sem barist hafa í stríði fyrir ættjörð sína, en það er orðin svo sterk alda með því að taka upp eftirlaun, að það er að eins tímspursmál hvenær það verður gert. Þjóðin þar hefir nefnilega komist að þeirri niðurstöðu, að það muni verða miklu ódýrara að eftirlauna embættismönnum sínum. Menn hafa þar komist að raun um, að það, að embættismönnum sem eru skammlífir í embætti, hættir við, eins og sagt er, „að gera sér vin af þeim rangláta mammon“, að gera sér embættið að féþúfu. En eins og menn vita, þá eru flestir embættismenn í Bandaríkjunum kosnir til ákveðins árafjölda í senn og sumir hinna æðri fara frá við hver stjórnarskifti. Það er freisting fyrir menn, þó að ráðvandir séu að upplagi, að nota sér stöðu sína sér til hagsmuna, er þeir geta átt á hættu að verða fleygt úr henni allslausum, eftir að búið er að nota starfskrafta þeirra í henni um nokkurn tíma. Af þessari ástæðu er eg nú með eftirlaunum embættismanna, þó eg hafi áður verið á móti þeim. Það er engin ástæða á móti eftirlaunum yfir höfuð, þó það hafi komið fyrir að ungir menn hafi verið settir á eftirlaun sakir þess að þeir hafa ekki getað staðið í stöðu sinni fyrir eitthvert sjálfskaparvíti. Það er ekki laganna galli. — En þó eg sé nú meðmæltur eftirlaunum embættismanna yfirleitt, þá er eg þó algerlega mótfallinn eftirlaunum ráðherra. Ef embættismaður verður ráðherra, þá getur hann haldið embætti sínu opnu fyrir sig. Og ef embættislaus maður tekur ráðherrastöðu, þá fæ eg eigi séð að hann sé ver settur en áður, þá er hann sleppir henni; ef hann hefir gegnt embættinu vel, þá er hann þvert á móti betur settur til allrar atvinnu eftir en áður. En einmitt af því að eg er á móti eftirlaunum ráðherra, þá álít eg þetta frv. tómt kák, sem tjaldar að eins til einnar nætur og get eg því eigi verið með því. Það er hvorki heilt né hálft. Hafi sá andi átt að koma fram í frv., að ráðherra eigi að vera eftirlaunalaus, þá hefði flutningsm. átt að ákveða eftirlaunin t. d. 50 aura en ekki 1.000 kr. því hefði eg getað greitt atkvæði.