23.07.1912
Neðri deild: -1. fundur, 23. löggjafarþing.
Sjá dálk 199 í B-deild Alþingistíðinda. (666)

19. mál, verðtollur

Flutnm. (Lárus H. Bjarnason):

Eg er hv. 2. þm. S.-Múl. (J. Ól.) þakklátur fyrir góðar undirtektir yfirleitt. Það er sjálfsagt ýmislegt sem að frv. má finna, en þó vildi eg leyfa mér að bera í bætifláka fyrir kyrsetninguna. Lögin eiga ekki að ganga í gildi fyr en 1913. Menn hafa því góðan tíma til að átta sig á þeim. Hver maður skrifar væntanlega viðskiftamanni sínum, að eins mikið liggi á að fá sölureikninginn í hvert skifti, eins og vöruna, og verður þá ekki svo hætt við, að dráttur á því að senda reikninginn gefi tilefni til kyrsetningar. Það er og engan veginn meining mín að farið sé eftir markaðsverði ef maðurinn getur sannað að hann hafi fengið vöruna með lægra verði. Hafi varan verið keypt á uppboði, er innanhandar að sýna reikning uppboðshaldara. Hitt vil eg, að reynt sé að reisa skorður við því að verðið sé tilfært lægra en það er í raun og veru. Eg býst við, að bæði þetta, sem háttv. þm. lagði til málsins og aðrar athugasemdir verði athugaðar í nefndinni. Þætti mér vænt um að athugasemdirnar yrðu sem flestar.