12.08.1912
Neðri deild: -1. fundur, 23. löggjafarþing.
Sjá dálk 213 í B-deild Alþingistíðinda. (671)

19. mál, verðtollur

Framsögum. meiri hl. (Pétur Jónsson):

Eg vil fyrst benda á það, að í 7. brt. á þgskj. 188 er prentvilla: „Nú sýnist“ fyrir „nú reynist“.

Eg sé ekki til neins að ræða útreikning þann, sem gerður hefir verið til að sýna, hvernig farmgjaldið komi niður á einstakar vörur. Það er að eins til að lengja þingtíðindin og trufla menn mjög sem á heyra að vera að þvæla um mjög margar tölur. Eg ætla að eins að drepa á einstök atriði.

Mér heyrðist hv. 1. þm. G.-K (B. Kr.) halda því fram, að kaupmenn mundu fremur geta beitt brögðum eða svikið eftir verðtollsfrv. en eftir farmgjaldsfrv. Það getur verið, að sá hugsunarháttur sé kominn inn sumstaðar, að ekki sé synd að svíkja tolla. En eins og tekið er fram í nefndaráliti meiri hl. hefir það hingað til ekki verið alment, að menn hafi viljað vita svik í fari sínu. Innan kaupmannastéttarinnar eru það að eins stöku menn, helzt þeir sem ekki hafa mikla verzlun og ýms aðskotadýr í verzluninni. Eg held að treysta megi kaupmannastéttinni eins framvegis og hingað til. Enda er að líta á það, að þótt lögreglustjóri geti ekki séð í bili, hvort faktúrur eru réttar eða ekki, þá mundu svikin með góðu eftirliti jafnaðarlega komast upp ef þau næmi miklu og menn mundu ekki þora að hafa sverðið hangandi yfir höfði sér vegna þess að hegningin er svo þung. Eg skal kannast við það, að hægara er að fyrirbyggja fals, ef þungagjald er, en möguleikar eru þó til þess að draga undan á ýmsan hátt, þótt ekki kunni það að vera í stórum stíl.

Þá hélt hv. framsm. minnihl. (B. Kr.) því fram, að það væri ekki rétt, að farmgjaldið hvíldi þyngra á nauðsynjavörum en ónauðsynlegum vörum. Eg hygg, að honum veitist torvelt að sannfæra nokkurn skýran og skynsaman mann um það, því að það er vitanlegt að flestar nauðsynjavörur eru þungavörur, en þær ónauðsynlegu og miður nauðsynlegu léttavörur, svo sem „galanteri“ vörur o. fl. Sé vörum skift í tvo flokka eftir því, hvort þær eru nauðsynlegar og óhjákvæmilegar eða ekki, þá er það ljóst, að farmgjaldið legst þyngra á þann flokkinn, sem nauðsynjavörurnar eru í.

Eg þarf ekki að fara út í neinar tölur þessu viðvíkjandi, það er öllum þeim ljóst, sem verða t. d. að flytja vörur sínar á hestum — og ekki ætti kaupmönnum síður að vera kunnugt um það.

Það ber ekki svo mikið á þessu í skýrslu þeirri, er fylgir áliti hv. minni hl., vegna þess að þar er svo mörgum misjafnlega þungum vörum safnað saman í hverjum flokki, og það jafnar svo upp, að fargjaldið fer hvergi yfir 770. En séu einstakar vörur teknar út úr flokknum, þá verður mismunurinn strax auðsær. Ódýrar leirvörur koma til að bera 25—27% og er það hinum miklu umbúðum að kenna. Eg mundi samt ekki fást mikið um það þótt slíkt skakkafall yrði um eina einstaka vörutegund, en eg er hræddur um að skakkinn hitti þær fleiri. Til þess að komast hjá því, yrðu flokkarnir að vera miklu fleiri — eins og þeir voru líka á seinasta þingi. En því hefir háttv. þingm. G.-K. viljað komast hjá, vegna þess að honum hefir verið það ljóst, að ætti að flokka niður þannig að þolanlegur mismunur milli vörutegunda í hverjum flokki ætti sér stað, þá þyrfti að setja á stofn sérstakt tolleftirlit. Hann hefir því kosið að fækka flokkunum eins og rétt var og afleiðingin af því þess vegna eðlilega orðið sú, að gjaldið kemur ranglátlega niður á ýmsum vörutegundum.

Hv. framsm. minni hl. (B. Kr.) sagði, að þessar ójöfnur mundu lagast, þegar kaupmennirnir færu að leggja á vörurnar. Það getur verið mikið rétt, að kaupmenn mundu leggja farmgjaldið á vörurnar nokkurn veginn eftir verði, eins og verðtollinn sjálfan, ef allir verzluðu hlutfallslega jafnt með allar vörur. En því er nú svo farið, að verzlun hér á landi er altaf að greinast meir og meir; ýmsir verzla aðallega með sérstaka vörutegund, eða þá mjög fáar, og yrði þá afleiðingin sú, að þær verzlanir, sem aðallega verzluðu með nauðsynjavörurnar, þungavörurnar, yrðu harðast úti og þyrftu að leggja hæst gjald á, en hinar, sem verzluðu með glysvarning og aðra léttavöru, hefðu lítið af gjaldinu að segja. Þeir, sem með nauðsynjavöruna verzla aðallega, geta ekki dreyft gjaldinu yfir á aðrar vörur. Eg skal játa það, að hefðu lík lög verið gefin út á einokunartímanum, eða fyrir 50—60 árum, þegar vanalega var ekki nema einn kaupmaður í hverjum kaupstað og verzlað með allar vörur, sem almenningur þurfti að kaupa, þá hefði það komið í sama stað niður, hvort lögin hefðu fyrirskipað farmgjald eða verðgjald, en nú er komin alt önnur skipun á alla verzlun og því hlýtur að fara svo, að hjá því verður ekki komist að leggja á allar vörur eftir því sem flokkarnir, eða álagningshlutföllin benda til.

Að lokum skal eg geta þess, að þótt eg sé sannfærður um, að verðtollsfrv. okkar er bæði réttmætara og betra mál en farmgjaldið, þá lít eg svo á, að ef okkur tekst ekki að sannfæra hv. þm. um það, þá kýs eg samt heldur að farmgjaldsfrv. gangi fram, en að engin ráðstöfun verði gerð til að afla landssjóði tekna. Þess vegna álít eg það mjög óheppilegt, að bæði þessi frv. eru á dagskrá í dag og rædd jafnhliða. Eg hefði heldur kosið að farmgjaldsfrv. hefði verið geymt til seinni tíma og haft til vara.