12.08.1912
Neðri deild: -1. fundur, 23. löggjafarþing.
Sjá dálk 220 í B-deild Alþingistíðinda. (674)

19. mál, verðtollur

Ráðherrann (H. H.):

Mér er vegna stöðu minnar dálítið vandfarið að taka þátt í þessum umræðum, fyrir þá sök, að hag landssjóðisns er nú þannig komið, að stjórnin verður eiginlega nauðug viljug að sætta sig við hvern þann sæmilegan tekjuauka sem fæst hjá þinginu, hvort sem henni líkar vegurinn til þess betur eða verr. Það er óhjákvæmileg nauðsyn að auka tekjurnar þegar á þessu þingi, og það er nú orðið auðsætt öllum, að þær leiðir, sem eg eftir atvikum hefði talið hepplegastar, verða ekki farnar í þetta sinn, heldur er eina vonin sú, eftir því sem komið er, að það lánist að fá samþykt annað hvort af þessum frumvörpum, sem hin háttv. skattanefnd loks hefir klofnað um, og nú eru hér til umræðu. — Þó að eg sé persónulega óánægður með þau bæði og telji tollafargan það á allan aðfluttan varning, sem bæði frv. fara fram á, varhugaverðan afveg í tolllöggjöf vorri, þá verð eg þó fyrir landssjóðsins hönd, að sætta mig við það frv., sem betri fær byrinn, og get að svo stöddu hvorugu hafnað, þótt mér þyki þeirra talsverður munur, eins og eg síðar mun víkja að.

Háttv. framsögumaður meiri hlutans (P. J.), formælandi verðtollsins, vildi nú að vísu draga það í efa, að fjárþörf landssjóðs færi eins mikil eins og af er látið, og leiddi ýms rök að því, að tekjur mundu verða svo miklar á yfirstandandi fjárhagstímabili 1912—1913, að ekki bæri brýna nauðsyn til að „rembast við“ að drífa fram tekjuaukalög á þessu aukaþingi. Eg efast ekki um að hann hafi samvizkusamlega aflað sér þeirra upplýsinga, sem hann gat, en þó er mér ómögulegt að sannfærast af tölum þeim sem hann nefndi, og mun hann ekki geta neitað því, að bæði geta tekjurnar orðið miklu lægri og gjöldin miklu meiri, en hann gizkaði á. Hann, sem áður hefir talið það sjálfsagða varfærnisskyldu að áætla tekjur landssjóðs eftir meðaltali undanfarandi 5 og 3 ára, áætla nú eftir að eins síðasta árs tekjum, og gjöldin jafnvel lægri, en þau reyndust á síðasta landsreikningi. Þó að eg heyrði ekki vel tölu hans, má eg þó fullyrða, að þar vantaði ýmislegt í útgjöldin. Hann tók ekkert tillit til þeirra miklu afborgana af lánum landssjóðs, sem inna þarf af hendi bæði þetta ár og næstu ár, og ekki skil eg, hvernig hann hugssar sér að skifta tillaginu til Reykjavíkurhafnarinnar niður á 10 ár. Fleira virtist mér alt of lágt áætlað, og ekkert tillit var tekið til þeirrar reynzlu undanfarandi 20 ára, að gjöldin hækka ár frá ári umfram fjárlagaveitingar, svo að numið hafa á síðari árum alt að því 18% umfram fjárlagaáætlanir. En þó að nú svo væri, sem öll ástæða er til að rengja, að hægt væri að slampast einhvernveginn af þetta fjárhagstímabil án mjög mikils tekjuhalla, þá þarf alt um það bráðnauðsynlega að fá tekjuaukalög þegar á þessu þingi, því að ella væri, eins og oft hefir verið sýnt, ómögulegt að koma fram með fjárlagafrv. á næsta þingi fyrir árin 1914—1915. — Að háttv. þm. hafi áætlað tekjuaukaþörfina að loknu yfirstandandi fjárhagstímabili alt of lágt, álít eg full sannað og sýnt í álitsskjali milliþinganefndarinnar síðustu, sem eg skírskota til. Hygg eg að þar skakki hjá honum hundruðum þúsunda.

Auk þessa er nauðsyn á að safna fé umfram útgjöldin, bæði til þess að hafa veltufé, eins og hann sagði, og af öðrum ástæðum, til þess að standast útgjöldin hefir landssjóður selt erlendis 1/2 miljón af bankavaxtabréfum Landsbankans, sem hann átti að liggja með og ekki mátti hreyfa. Það var aldrei tilætlun alþingis, þegar það veitti heimild til 2 miljóna lántöku til þess að kaupa bankavaxtabréf Landsbankans, að það yrði að eyðslufé, heldur átti með því að útvega veðdeildinni starfsfé, og áttu vextir og afborganir lánsins að greiðast af bankavaxtabréfunum, landssjóði útgjaldalaust. En nú er ekki nóg með það, að þessar vaxtagreiðslur kastast yfir á landssjóðsins bak af þeirri hálfu miljón sem seld hefir verið, heldur er og markaðurinn erlendis fyrir íslenzk verðbréf fyltur með þessum bréfum, sem búist var við að landssjóður geymdi, og hlýtur það að hafa haft spillandi áhrif á sölu annara veðdeildarbréfa Landsbankans þar og þar með á lánskjör almennings hér. Eg hygg því ekki úr vegi að reyna sem fyrst að spara saman fé til þess að kaupa aftur veðdeildarbréf fyrir sömu upphæð og selt hefir verið fyrir, auk þess sem nauðsynlegt er að borga aftur þær 200 þús. króna víxilskuldir, sem landsjóður hefir orðið að setja sig í til daglegra útgjalda, þó ekki væri til annars en þess, að draga ekki þetta fé frá starfsafla bankanna og viðskiftalífinu.

Nei, þess verður vissulega ekki dulist, að það er bráðnauðsynlegt að fylla skörð þau, sem höggvin hafa verið í landssjóðstekjurnar, sem allra fyrst, ef stjórnin á ekki að standa með tvær hendur tómar og peninga landssjóðs fastbundna. Eg er þakklátur öllum þeim háttv. þm., er hafa sýnt sig í því að vilja stuðla að því að bæta úr skák, þar á meðal formælendum beggja þessara frv., sem hér standa andvíg, og keppa hvort á móti öðru. En þó að eg fyrir landssjóðsins hönd vilji njóta fylgis og fulltingis aðstandenda frumvarpanna og hvoruga styggja, þá verð eg þó að láta uppi álit mitt um það, hvort frv. heldur beri að aðhyllast, og það jafnvel þótt það álit gangi á móti því frv., sem að svo stöddu sýnist hafa miklu fjölmennara fylgi hér í deildinni, og hefir fyldi 6 sjöundu hluta af háttv. skattanefnd.

Eftir þeim skýrslum og upplýsingum sem fyrir liggja, verður að álíta, að bæði frv. mundu gefa landssjóði hér um bil jafn miklar tekur. Að minsta kosti á það ekki að muna mjög miklu. Einnig í öðru meginatriði legg eg þau að jöfnu: þau koma bæði jafn réttlátlega eða réttara sagt: jafn ranglátlega niður á gjaldendur.

Í snöggu bragði virðist að vísu svo, að verðtollurinn sé miklu réttlátari heldur en þungatollurinn. Það er mjög svo ígengilegt í svipinn, að þar sem gjaldið sé miðað við verðið, og þannig sé því hærra, sem varan er dýrari, þá komi skatturinn þyngst niður á þeim, sem kaupa dýru vörurnar, en léttast á þeim sem kaupa ódýrustu vörurnar, leggist þannig meir á þá ríku, sem gjaldþolið hafi, en komi létt við þá fátæku. Þegar um einstakar eyðsluvörur er að ræða, sem hverjum er sjálfrátt hvort hann kaupir, þá hefir þetta og mikið til síns máls. En þegar til nauðsynjavörunnar kemur, sem allir þurfa að kaupa, þá hverfur þessi gyllingin, og þá kemur fram annar eiginlegleiki við verðtollinn, miður glæsilegur. Hann er sá, að því dýrari, sem varan verður á útlendum markaði, því hærra verður gjaldið. Hækki kornvaran afarmikið í verði fyrir óáran, eða komist kol, járn, salt eða aðrar nauðsynjar í geypiverð fyrir verkföll eða önnur afhroð, þá hækkar skattgjaldið af þessum vörum hér á landi að sama skapi. Því meiri dýrtíð, því meiri og þyngri verður skattabyrðin. Þetta er nú hliðin sem að almenningi snýr. En að því er kaupmennina snertir víkur þannig við, að því lélegri, rírari og þar af leiðandi ódýrari vöru sem þeir kaupa, því betur sleppa þeir frá gjaldinu, án þess að þessi gjaldsparnaður komi almenningi til góða, því í útsölu fylgja þeir auðvitað hinu almenna verði hér á landi, þó að þeir af einhverjum ástæðum hafi komist að lágu verði á uppboði eða þvílíku. Margt fleira mætti til þess telja, að verðtollur, sérstaklega almennur verðtollur eða prósentugjald á allan varning, er enganvegin eins réttlátt í eðli sínu, sem skattur, eins og í snöggu bragði sýnist.

Að því er snertir farmtollinn eða þungatoll af öllum aðfluttum vörum með engri eða mjög lítilli flokkun, stingur það þegar í augun, að þar getur ekki verið um neinn jöfnuð eða réttlæti að ræða að því er snertir samanburð á tollgjaldi einstakra vörutegunda. Pund af silki tollað jafnt og pund af striga, pund af gullstássi jafnt og lítil blýsakka, gullúrið jafnt og jafnþyngd af kartöflum! En þegar að er gætt, kemur það í ljós, að þessar dýrindisvörur, sem sleppa með svo hlægilega lágt gjald í samanburði við aðrar vörur, nema svo lítilli upphæð í vöruumsetning landsins, að þessa mis réttis gætir tiltölulega lítið í heildinni. Flestir kaupa eitthvað af svo mörgum tegundum, að þetta jafnast nokkuð upp. Aðalmisréttið við farmtollinn hefir hann sameiginlegt við almenna verðtollinn, og það er það, hversu ójafnt báðir þessir tollar í heild sinni koma niður á landsbúa yfirleitt.

Það þarf ekki að liggja lengi yfir verzlunarskýrslunum til þess að sjá það, að meginið af báðum þessum tollum kemur niður á þungavöruna, nauðsynjavöruna. Þeir vöruflokkar, sem nema mestu verði í verzlunarskýrslunum gefa auðvitað hæst prósentugjald, og sömu flokkarnir nema langmestum þunga, og gefa því hæst farmgjaldið í landssjóðinn. En þessar vörur eru ekki keyptar jafnt um land alt, né heldur tiltölulega meir af hinum efnuðu, heldur en þeim fátækari. Landssjóðurinn fær tekjurnar af báðum þessum tollum án alls manngreinarálits um gjaldþol og frjálsan vilja til að kaupa. Báðir tollarnir koma lang þyngst niður á þeim mönnum og þeim landshlutum, sem mest neyðast til að kaupa af aðfluttri vöru yfirleitt, en það eru kaupstaðirnir og sjávarplássin. Sjávarútvegurinn verður í báðum tilfellum lang harðast úti. Þaðan fær landssjóðurinn bróðurpartinn af tekjufúlgunni, hvort þessara frumv. sem valið er. — Að því er snertir réttlæti gjaldanna frá almennu sjónarmiði finst mér þannig enginn munur gerandi á þessum frumv.

En það er fleira sem taka verður tillit til í praktískri löggjöf, og það er fyrst og fremst framkvæmd laganna. Fátt er meira siðspillandi en löggjöf, sem ekki er unt að framfylgja, og leiðir menn til undanbragða og svika. Eg sé ekki betur, en að verðtollslögin séu þess eðlis, að mjög væri hætt við einhverju slíku. Innheimtan yrði erfið, eftirlitið meir en erfitt, reikningaendurskoðunin eftirá, nafnið eitt. Það þarf engum blöðum um það að fletta, hve örðugt er að koma í veg fyrir, að innkaupsverð sé rangt upp gefið; eg legg ekkert upp úr vottorðum frá þeim, sem svíkja vilja á annað borð, og innkaupsreikningunum má ýmislega fyrirkoma. Oft yrði í meira lagi erfitt að ná þeim. Eg vil að eins til dæmis nefna innkaupsreikninga fyrir vörum, sem koma í póstböglum. Að meðaltali koma um 1.000 póstböglar með hverju póstskipi hingað til Reykjavíkur, stundum jafnvel alt að 25 tons af pakkapósti með einu skipi, er svarar til 5.000 póstpakka með fullri þyngd (10 pd. hver). Mér er spurn: Hvernig á lögreglustjórinn að geta elt uppi, hvað verið hefir í hverjum þessara bögla, og hve mikið það hefir kostað? Eg hygg, að hér sé reistur hurðarás langsamlega um öxl. Eftirlitið með því að ekki flyttist meira inn en til er sagt, skilst mér að yrði alómögulegt eftir verðtollsfrumv., nema með afarmiklu tollgæzluliði. Í sama kassanum geta verið margskonar vörur með mjög mismunandi verði; skipsskjöl sýna ekkert um það, sem tollheimtumaður þarf að vita, ekkert eftir að fara nema það vottorð, sem viðtakanda þóknast gefa eftir á. — Endurskoðunin á reikningum tollheimtumanna yrði ekkert annað en samlagningarendurskoðun, athugun á því, hvort rétt er goldið af því sem til er sagt. En endurskoðarinn hefir engin tæki í höndum til þess að rannsaka jafnvel hvort tollheimtumenn skila því, sem þeir hafa tekið á móti, hvað þá hitt, hvort þeir hafa heimt gjaldið af öllu sem fluttist. Hingað til hefir endurskoðunin haft opinberar tollskrár og manifestar skipanna fylgja sem gefið hafa fullnægjandi grundvöll í þessu efni. Um verðtoll eru engin samskonar skilríki fáanleg. Ekkert nema faktúrur, eða reikningar, sem mönnum hefir þóknast að afhenda, eftir því sem hverjum býður við að horfa.

Með farmgjaldsfyrirkomulaginu yrði þetta alt framkvæmanlegt og tiltölulega auðvelt. Á manifestunum á að mega sjá alt, sem innflutt er og þyngd þess; á þeim má því byggja innheimtuna og sjá um, að gjald sé heimt af öllu því, sem með skipinu hefir fluzt. Eftir manifesti og öðrum skipaskjölum getur endurskoðunin eftirá sannfært sig um, að öllu sé til skila haldið, þegar ekki þarf að hugsa um annað en þyngd þess, sem innflutt er.

Að þessu athuguðu verð eg að hallast að því, að réttara sé að samþykkja tillögu minni hluta skattanefndarinnar, farmtollsfrumvarpið, sem bráðabirgðafyrirkomulag, þrátt fyrir gallana að öðru leyti. Þó verður auðvitað í bráðina að sætta sig við verðtollinn, ef ekki fæst annað skárra.