12.08.1912
Neðri deild: -1. fundur, 23. löggjafarþing.
Sjá dálk 227 í B-deild Alþingistíðinda. (675)

19. mál, verðtollur

Lárus H. Bjarnason:

Þó eg sé nú illa undir það búinn að tala um þetta mál, þar sem eg hefi verið lasinn síðustu daga og er það enn, þá álít eg mér þó skylt að bera hönd fyrir höfuð mér og háttv. framsögumanni.

Hæstv. ráðherra (H. H.) sagði fjárhagsástandið mjög bágt, en honum láðist að sanna það, gerði meira að segja enga tilraun til þess. Hins vegar höfum við, hv. framsm. (P. J.) og eg, hvor í sínu lagi athugað fjárhaginn svo nákvæmlega sem kostur var á, að miklu leyti samkv. skýrslum úr sjálfu stjórnarráðinu, og báðir komist að sömu niðurstöðu. Fjárhagstímabilið 1910—11 gaf í rauninni 90.000 kr. tekjuafgang, og 1911—12 er líklegt til að bera sig. Hv. framsögum. telur þó tekjuhalla af því um 30.000 kr., en þó svo yrði, er það ekki teljandi, enda býst eg ekki við þeim halla, komi ekkert óvænt fyrir. Eg býst líka við, að hæstv. ráðherra álíti ástandið ekki eins geigvænlegt og hann lét uppi, hann hefði þá ekki tekið við ráðherraembættinu nauðungarlaust.

Fjárhagstímabilið 1914—15 hlýtur aftur á móti að vanta töluvert á að tekjur hrökkvi fyrir gjöldum. Þá má gera tekjurnar um 420 þús. kr. lægri en 1912 —13 vegna áfengisbannsins. Gangi lotterífrv. fram í hv. Ed., mundi það hér í um bil fylla skarðið. En fyrir því er engin vissa, því rétt að gera ráð fyrir öðrum tekjum, enda þó ekki sé bráðnauðsynlegt að skapa þær á þessu þingi, þar sem alþingi kemur saman 1913, en næsta fjárhagstímabil byrjar ekki fyr en með árinu 1914.

Nefndin hefir athugað ýmsar leiðir og 6 af 7 orðið sammála um að tollur eftir verðhæð aðfluttrar vöru mundi eftir atvikum vera aðgengilegastur, en þó að eins sem bráðabirgðahjálp, nokkurs konar „Hjálp í viðlögum“, því að frambúðarskattalög verður vitanlega stjórnin að semja.

Slíkur verðtollur kemur miklu réttlátar niður en t. d. þungatollur. Hann leggur minna gjald á nauðsynjavörur, matvöru, salt og kol, það eru ódýrar vörur, en þungar, og hann kemur harðast niður á þeim sem, dýrast kaupa.

Geri maður ráð fyrir að vörur flytjist hingað til lands fyrir 11 milj. króna á ári, mundi 3% verðtollur einn rúmlega fullnægja þörf landssjóðs.

Og við vonum að svo sé um hnútana búið, að tollurinn verði viðunanlegur til innheimtu, en innheimtuörðugleikinn hefir hingað til verið talinn aðal agnúi verðtolls, enda þeirri aðfinningu haldið mest fram af hv. 1. þm. G.-K. (B. Kr.) og eftir honum af hæstv. ráðherra (H. H.) og hv. þm. Ak. (G. G.).

Því er haldið fram, að tollinn eigi eingöngu að innheimta eftir kaupreikningi (factúru), en slíkur reikningur sé óábyggilegt heimildarskjal, hann megi hafa rangan og hann komi oft ekki fyr en eftir dúk og disk, en þetta er rangt. Það á aðallega að ákveða tollinn eftir kaupreikningi, en þó ekki nema öðrum þræði, því að mat getur komið í hans stað, en ásamt reikningnum hefir tollheimtumaður hliðsjón af vöruskrá skips (manifesti), tilvísunarbréfum og öðrum skipsskjölum, verzlunarbókum viðtakanda og æru- og samvizkuvottorðum hans og skipstjóra. Það dugar því ekki að falsa reikninginn einan til þess að komast undan tolli, heldur verða allir hlutaðeigendur að vera samtaka um að ljúga og svíkja til þess, og væri gaman að vita undan hvaða lögum ekki mætti komast með slíkum samtökum, það því fremur, sem þung refsing liggur við fölsun verzlunarbóka og vísvitandi röngum æru- og samvizkuvottorðum. Sérstaklega er það kynlegt að hv. 1. þm. G.-K. (B. Kr.) skuli gera sama sem ekkert úr manifestunum, sem hann annars trúir svo mjög á. Hv. þm. lánaði nefnd- inni stórt safn af manifestum, heft saman í bók. Samkv. bók þessari nefna manifestin ekki einungis nafn viðtakanda, heldur og hvaða vara flutt er, stykkjatölu og þunga. Og factúrur þær, sem eg hefi séð, geta, auk verðsins, hins sama. Þessi gögn til samans eru sannarlega ekki lakari heimildir en manifestið eitt til innheimtu farmgjaldsins, enda ekki síður hægt að falsa það en önnur skjöl. Hvaða trygging er fyrir því, að maður sem notar sitt eigið skip t. d. Tulinius eða Ásgeir Ásgeirsson geti ekki flutt meiri vörur eða aðrar vörur með skipum sínum en þær, sem standa á manifesti, vilji hann hafa sig til þess.

Hv. framsm. minni hl. (B. Kr.) sagði, að það vantaði í frv. ákvæði um, hvernig fara ætti að ef vara skemdist eða væri endursend, en hvorugt er rétt. Í 5. gr. frv. er vísað til gildandi tolllaga og í 10. og 14. gr. þeirra eru lögð ráð við þessum meinbugum.

Hann sagði að það væri mikill ágalli á frv., að ekki ætti að skilja eftir manifest á skrifstofu tollheimtumanns, en úr honum er ofurhægt að bæta með brt., og mun það verða gert við 3. umr.

Hann sagði, að pósthús ættu að sjá um innheimtu á tolli af póstsendingum. Það er ekki rétt. Það er einungis sagt að stjómarráðið megi fela póstmönnum innheimtuna.

Þá sagði hv. þm. að factúran ætti að vera hulinn leyndardómur kaupmanna. En bæði er þetta rangt, því að samkv. 5. gr. gildandi tolllaga eru kaupmenn skyldir að sýna factúrur. Og í annan stað getur leyndardómur factúrunnar haldist þó að sýnd sé, því að innheimtumaður á að þegja yfir henni, að viðlagðri þungri ábyrgð.

Þá sagði hv. þm., að skýrslan, sem við létum prenta um samanburð á vörugjaldi og farmgjaldi, væri óábyggileg, en þeim orðum getur hann ekki fundið stað. Það stendut fast að t. d. á einn poka rúgmjöls, sem vegur 200 pd., mundi falla eftir hans frv. 50 aurar, en eftir verðtollsfrv. ekki nema 42 aurar. Á hvert tonn af kolum koma eftir hans frv. 1 kr. en ekki nema 24 aur. eftir verðtollsfrumv. Á 200 pd. af jarðeplum kæmi eftir hans frv. 2 kr. en ekki nema 15 aur. eftir okkar frv. Svona mætti rekja nærri því endalaust. Eg skal að eins benda á nokkur dæmi af handahófi á bls. 6—7 í nefndaráliti þm. samkvæmt því kemur:

Á skipsbrauð 52/10%

— jarðepli 6%

(á að vera 40%)

— nýlenduvörur 4%

— kol og kóks 5%

— hafra og bygg 31/2%

Á sápu og sóda 7%

— leir og glerílát 6½%

Á eina vörutegund aftur á móti koma ekki nema ½% og það er vefnaðarvara, sú vara, sem „Verzlunin Björn Kristjánsson“ verzlar með. Það nær því engri átt að farmgjaldið komi ekki harðara við menn.

Það nær heldur engri átt, að kaupm. leggi farmgjaldið á holt og bolt. Það verður auðvitað gjald eftir flokkum, enda mér svo sagt af kaupmönnum Hins vegar sagði kaupmannaráðið nefndinni, að hundraðsgjaldið mundi ekki verða lagt á matvöru eða kaffi og sykur, því að þar héldi samkepni í. (Björn Kristjánsson: Eg hefi komið fram með brt.).

Því meira sem farmgjaldið er flokkað í sundur, því meira missist í innheimtuhægð. Það er nú komið niður í 7 fl., og er að því leyti betra en á seinasta þingi, en þó eru flokkarnir altof margir til þess að gjaldið verði hægt til innheimtu, enda mjög auðvelt að fela vöru úr hærra flokki í lægra flokki.

Þá ætla eg að víkja nokkurum orðum að hávttv. þm. Ak. (G. G.) þessum hávaðasamasta sleggjudómara ekki einungis deildarinnar heldur alls þingsins (Guðlaugur Guðmundsson: Heyr!) Það má segja um hann, að umbúðirnar eru meira en vætt og innihaldið minna en lóð. Hávaðinn er svo mikill, að þess gætir ekki þó eitthvað kynni að slæðast með af rökum í ræðum hans.

Hann var að mæla kolanefndinni sælu bót, en gleymir því, að þeirri nefnd var ekki falið annað en að rannsaka, hvort einokunarleið væri tiltækileg, en alls ekki að negla sig á einokunarlagasmíði. Þm. ætti að skilja, að það er alt annað heldur en hann sagði. Hið einasta af því sem á rökum var bygt í ræðu hv. þm., var það, að í rauninni væri til alt of mikils mælst, að ætla þingi, einkum aukaþingi, að ganga sæmilega frá jafnvandasömu máli og allsendis óundirbúnu af stjórninni. Þetta er laukrétt, og einmitt þess vegna hefði háttv. þm. ekki átt að vera svo harðorður í garð nefndar og flutn.m. sem hann var.

Háttv. þm. sagði, að enginn hemill mundi verða á tollsvikum, þar sem engu væri eftir að fara nema factúrunum, og þær mundu sumpart reynast falsaðar og sumpart vanta. Fyrri aðfinningunni er þegar svarað, fölsun factúru, enda ómögulegt að komast hjá tollsvikum. Það hefir verið flutt inn brennivín í steinolíutunnum, tóbak og vindlar í klæðisströngum o. s. frv. Jafn vel þar, sem eftirlitið er bezt, svo sem það mun vera kringum háttv. þm. Ak. (G. G.), býst eg við að tollar séu sviknir meira og minna. Hin aðfinningin er og rakalaus, að oft sé ekki hægt að láta factúru fylgja sendingu. Eða hví skyldi ekki vera jafn auðvelt að senda kaupreikninga yfir tunnur og tunnustafi og salt eins og yfir hvað annað sem er? Og komi ekki factúra fram, á að meta vörurnar til verðtolls.

Háttv. frams.m. minni hlutans (B. Kr.) hélt að þetta mat mundi verða örðugt eða jafn vel ókleyft, en það skil eg ekki. Tökum til dæmis verzlun hans — eða verzlun þá sem ber hans nafn — þangað er aðallega flutt vefnaðarvara. (Björn Kristjánsson: Og krít). Mundi ekki vera hægt að meta þá vöru, ef til kæmi. Þyrfti ekki annað en spyrja kaupmenn hér, hvaða verð sé á þeim vörum hjá þeim, og ef þeir gætu ekki gefið fullnægjandi svar, þá mætti spyrjast fyrir í útlöndum, þar sem varan var keypt.

Þá kvartaði hv. þm. yfir því að heimild vantaði til að heimta manifest áður en affermt væri, en úr þessu er hægt að bæta, sé ekki þegar heimild til þess samkv. 4. gr. gildandi tolllaga.

Háttv. þm. Ak. (G. G.) sagði, að það væri ógreinilegt hvort taka ætti l% í innheimtulaun aukreitis af þeim sem innheimtumaður tæki gjaldið hjá eða af innheimtulaunum sýslumanna, en þetta er ekki rétt. Og hvað sem því líður, þá þótti flestum eða öllum nefndarmönnum svo miklu hlaðið á sýslumenn og bæjarfógeta, að ekki væri sanngjarnt að leggja nefnd umboðslaun á þá, heldur skyldu þau greiðast úr landssjóði.

Eg skyldi vel upphaf ræðu hæstv. ráðherra (H. H.) að hann taldi sér vandfarið í þessu efni. En mér fanst hann ekki vera eins varkár í niðurlagi ræðu sinnar, eins og í upphafinu, og hefði þó átt að mega vænta þess, því að það ætti ekki að skifta miklu máli fyrir hann hvaðan féð er tekið eða með hverju móti.

Eg hefi í upphafi ræðu minnar leitast við að sýna fram á, að fjárþörfin er ekki jafn mikil og af er látið, og vísa til þess Skal að eins bæta því við, að stjórnin verður að fara varlegar en hing að til í útgjaldatillögum sínum 1914— 1915, ef svo skyldi reynast, að við, hv. framsm. og eg, hefðum gert of lítið úr fjárþörfinni. Ráðsmaður þjóðarinnar verður að fara að eins og skynsamir einstaklingar gera, sníða sér stakk eftir vexti og spara, þegar tekjurnar eru litlar.

Hæstv. ráðherra (H. H.) má ekki taka það illa upp, þó að þingið kynni að kynoka sér við að leggja fram mikið fé fyrst um sinn, áður en það sér áætlanir stjórnarinnar svart á hvítu. Stjórnin hefði átt að segja til þurftar sinnar.

Það var rétt hjá háttv. þm. Ak. (G. G.) í hinni háværu ræðu hans, að þetta væri verk stjórnarinnar, en ekki þingsins; var eitt af því fáa, sem hann sagði rétt og heföi hann þá átt að setjast niður. (Guðlaugur Guðmundsson: Og sei-sei). En það er svo langt frá að stjórnin hafi gert það, að hæstv. fráfarinn ráðherra (Kr. J.) hefir tjáð mér, að hann sæi ekki þörf á nýjum tekjum í bráðina.

Hæstv. ráðherra (H. H.) fann það helst að verðtollsfrv., að innheimta og endurskoðun yrði erfiðari eftir því heldur en eftir farmgjaldsfrv., en úr þessu er alt of mikið gert, enda að miklu leyti bætt úr því með því að gera skipstjóra að skyldu að láta manifest fylgja til tollheimtumanns. En hæstv. ráðherra (H. H.) lét sér ekki nægja þær aðfinningar. Hann taldi nú verðtollinn jafn ósanngjarnan og þungatollinn og lauk máli sínu með því að hann vildi heldur þungatoll en verðtoll, en kvaðst þó taka við verðtollinum, fengi hann ekkert betra. Þetta hól hæstv. ráðherra um farmgjaldið má vera mjög svo ánægjulegt fyrir háttv. 1. þm. G. K. (B. Kr.), því að hann átti því ekki að fagna úr þeirri átt á þingunum 1909 og 1911. En það er jafnframt eftirtektarvert að heyra hv. ráðherra, sem haldið hefir verðtolli fara á vefnaðarvöru í fjármálanefndinni, og marglýst hann réttlátari en farmgjaldið bæði innan þings og utan, nú fordæma verðtollinn bæði í eðli sínu og framkvæmd, og enda er ekkert hægara en að leysa hann af öllum ótta út af verðtollinum. Það er síður en svo að mér sé nokkuð kappsmál að neyða 600.000 kr tekjum upp á ráðherrann, þó að eg hafi borið fram þetta frv. með háttv. 1. þm. Eyf. (St. St.) og háttv. framsögum. meiri hlutans (P. J.), sem fyrstur manna mun hafa haldið þessari hugmynd fram hér á landi. En af því að eg var á móti kolamálinu, áleit eg mér skylt að sýna viðleitni á því að setja eitthvað í í staðinn og það þykist eg hafa gert með lotterífrv. og þessu. (Ráðherrann: Var lotteríhugmyndin sprottin frá þm.?) Nei, hugmyndin er ekki frá mér, og ekki verðtollshugmyndin heldur, en eg vona að það sé ekki ofmælt, þó eg segi að þessum málum báðum hafi verið nokkur styrkur að fylgi mínu, enda ekki nýlunda að inaður — jafnvel hæstv. ráðherra sjálfur — beri fram hugmyndir annara.

Viðvíkjandi því, hvernig kaupmenn líta á málið, skal eg með leyfi hæstv. forseta lesa nokkur orð. Nefndin leitaði álits kaupmannaráðsins og er það bókað svo í gjörðabók nefndarinnar:

„Kaupmannaráðið var spurt um það hvort principið mundi verða aðgengilegra, verðtolls- eða þungatollsprincipið. Kaupmannaráðið er samhuga um það að verðtollur sé sanngjarnari, og álítur meiri hluti kaupmannaráðsins, 4 af 5, viðunanlega tryggingu mögulega með verðtolli, en 1 — einn — álítur þungatollsprincipið með fáum flokkum öruggara.“

Og í dag hefir nefndin fengið bréf, sem tekur í sama strenginn, frá formanni og skrifara kauprnannaráðsins. (Ráðherrann: Hver er formaður?) Kaupmaður Jes Zimsen er formaður og skrifari er kaupmaður B. H. Bjarnason. (Valtýr Guðmundsson: Það er rétt að lesa bréfið). Já, það má gjarnan sjást í þingtíðindunum. Með leyfi hæstv. forseta? Það hljóðar svo:

„Samkvæmt tilmælum hv. skattamálanefndar neðri deildar alþingis 1912 hefir kaupmannaráðið nánara athugað frumvörp nefndarinnar, þgskj. nr. 19 um vörugjald ásamt br.till. við sama nr. 188, og flgskj. nr. 201. Ennfremur frumv. minni hlutans nr. 40, ásamt nefndaráliti, þgskj. nr. 173 og br.till. nr. 174.

Þótt meiri hluti kaupmannaráðsins að því er eftirlitið snertir, telji þungagjaldið tryggara, þá hefir það þó svo mikla ókosti, sérstaklega þá, hve illa og ójafnt þetta gjald myndi koma niður á hinum ýmsu vörutegundum, og er þar nóg að benda til skýrslu meiri hlutans á þgskj. nr. 201 og samanburðartöflu minni hlutans, þgskj. nr. 173, bls. 7, þar sem minni hlutanum telst svo til, að þungagjaldið fyrir vefnaðarvöru, fatnað og leður myndi samsvara 1/3% af verðmæti varanna. Að áliti kaupmannaráðsins eru nýnefndar vörutegundir þó einmitt þær vörur, sem eru bezt færar um að bera nokkrar álögur. Gjalds af þilskipum og bátum telur kaupmannaráðið að sjálfsögðu, að meiri hluti skattamálanefndarinnar ætlist ekki til.

Með skírskotun til þess, sem nú hefir verið tekið fram, verður kaupmannaráðið fremur að hallast að vörugjaldsfrumvarpi meiri hlutans, með þeim breytingum, sem greinir á þgskj. 188.

Að því er br.till. meiri hl. snertir, þá vildi kaupmannaráðið mega leyfa sér að leggja það til, að í br.till. á á þgskj. nr 188, lið 3, yrði skotið inn orðinu: „innkaupsreikninga“ á undan „verzlunarbækur“ og á undan „viðtakanda“ á heimili eða skrifstofu“.

Virðingarfylst Jes Zimsen,

p. t. form.

B. H. Bjarnason.

Til

skattamálanefndar Nd. alþingis 1912.“

Þannig lítur þá kaupmannaráðið á málið. Eg heyrði hæstv. ráðherra kasta því fram, að meiri hluti þess væri með farmgjaldinu. En það er ekki rétt haft eftir kaupmannaráðinu, eins og allir sjá, hvort heldur litið er á framburð þess fyrir nefndinni eða bréf þess, að kaupmannaráðið er samhuga um að verðtollurinn sé réttlátari og muni geta orðið viðunanlega tryggur til innheimtu.

Það er síður en svo, að mér sé það nokkuð kappsmál að þetta frv. gangi fram. Mér má það í léttu rúmi liggja og eg sé ekki að það sé svo strangnauðsynlegt að úvega nýjar tekjur á þessu þingi, þó að eg hins vegar játi að það væri skemtilegt fyrir hæstvirtan ráðherra að hafa sem mest milli handanna.

Farmgjaldsfrv. með 7 flokkum er mér gersamlega óaðgengilegt.