12.08.1912
Neðri deild: -1. fundur, 23. löggjafarþing.
Sjá dálk 242 í B-deild Alþingistíðinda. (677)

19. mál, verðtollur

Framsögum. minni hl. (Björn Kristjánsson):

Það er að eins sárfátt, sem eg þarf að taka fram út af ræðum þeim, er haldnar hafa verið, því að svo fátt í þeim hefir snert það sem eg hefi sagt um frumvörpin.

Hv. framsm. meiri hl. (P. J.) lagði mikið upp úr því að tollur á leirvörum mundi samkvæmt þungagjaldinu verða ca. 26%; eg held nú ekki að hann verði svo hár eftir frumv. En við þurfum ekki að rífast um það, því að nú hefi eg með brt. á þgskj. 215 flutt þennan flokk undir 25 aura flokkinn, og yrði því tollur á honum lægri en upprunalega var ætlast til með frumv.

Eg skil ekki að hv. þm. skuli staðhæfa, að hærra gjald verði á nauðsynjavöru eftir þungagjaldinu en verðtollinum. Eg hefi einmitt bent á það, að 3% gjaldið legst þyngra á matvöru þegar meðaltal er tekið. Taki menn 100 kíló af hvorri af þessum fimm korntegundum, rúgmjöl, hveiti, bankabygg, matbaunir og haframjöl, þá verður gjaldið af þessum 500 kíló til samans 250 au. samkv. þungagj., en 288 au. samkv. verðtollinum. Þetta má sjá á skýrslunni á þgskj. 202. Auk þess vil eg benda á, að í minni skýrslu eru tekjur af farmtollinum áætlaðar um kr. 250 þús. kr., en þar af hvílir ekki meir en kr. 47.849, eða tæpur 5. hluti, á kornvöru.

Hv. 1. þm. Rv. (L. H. B.) hélt því fram að þegar leggja á verðtoll á vöru eftir factúru þá megi hafa stuðning af farmskránni og sjá af því, hvort ekkert sé dregið undan á reikningunum, því að á báðum standi merki, númer og vigt vörunnar. Það er mikið rétt hjá honum að ef svo væri að vigt vörunnar stæði líka á kaupreikningnum þá mætti hafa stuðning af farmskránni, en að öðrum kosti heldur ekki, og að því er eg veit bezt, þá stendur vigtin nálega aldrei á kaupreikningnum. Eg hefi hér í höndum reikning frá Englandi að upphæð 216 pd. sterl. og á honum er að eins númer og merki vörunnar. Annan reikning frá Þýzkalandi, 9.000 mörk. Þar er engin vigt viðsett. Og loksins einn reikning frá Danmörk, og er þar engin vigt til tekin. Eg veit að vigt á sumum vörum eins og t. d. kaffi og sykri stendur venjulega á reikningunum, en hitt er hið vanalegasta, og þá veitir farmskráin engan stuðning.

Þá er hitt atriðið, sem háttv. þm. er altaf að halda fram, að farmskránar sjálfar séu óábyggilegar, eða að ekki sé hægt að treysta því að þau segi rétt til um farm skipsins og þunga hans. Eg hefi kynt mér lítið eitt hvernig aðrar þjóðir líta á farmskrárnar. í „Das Buch des Kaufmanns“, sem er kenslubók í verzlunarvísindum fyrir kaupmenn, iðnaðarmenn og lögfræðinga, segir svo, ef eg má lesa það upp með leyfi hæstv. forseta: „Das Manifest bildet die Grundlage für die Zollbehandlung“, það er á íslenzku: „Farmskráin myndar grundvöllinn fyrir meðferð tollsins“. Hvernig Englendingar líta á þetta, má sjá í M. Cullshc’s Commercial Dictionary, þar sem segir á bls. 656, ef hæstv. forseti leyfir að eg lesi það upp: „Enga vöru má flytja inn í hið sameinaða konungsríki eða inn í eyna Mön frá stöðum í hinum megin hafs í nokkru brezku skipi (né nokkurt tóbak í nokkru skipi) án þess skipstjórinn hafi meðferðis farmskrá yfir vörurnar eða tóbakið, er sé undirskrifuð af honum á þeim stað þar sem vörurnar voru fermdar. Taka skal fram á farmskránni nafn og smálestatal skipsins, nafn skipstjóra, heimilisnafnið og nöfn þess staðar, þar sem skipið tók við vörunum og nafn affermingarstaðarins, og skal á henni sundurliða hvern pakka sem fer um borð með merki, númeri og tegund vörunnar eftir beztu vitund skipstjórans.“ — Þetta væri ekki sett í lög, ef farmskrárnar ættu að vera þýðingarlausar, og í annari málsgrein segir, að skipstjóri eigi að afhenda tollstjórninni samrit af farmskránni að viðlagðri 100 sterlingspunda sekt. Í brezka ríkinu er því farmskráin álitin ábyggilegt sönnunargagn þess, hve mikið er í skipinu af vörum, og er notuð sem grundvöllur fyrir meðferð tollsins. Sömuleiðis get eg bent á ákvæði í siglingalögum þeim er fyrir þinginu liggja nú, er miða að þessu sama. Í 38. gr. segir: „Skipstjóri skal kynna sér ákvæði og fyrirmæli um siglingar, er honum ber að gæta á viðkomustöðum á för sinni“. Hann á þá að vita hvað eru lög í landi þar sem hann kemur með farm. Í 42. gr. er sagt, að bóka skuli í leiðarbók hverju skipið er fermt og ásigkomulag farmsins; skipstjóri lætur því bóka allar þær vörur er í skipið fara. Samkvæmt þessari bók eru svo gefnir út „Losse“-seðlar, þegar affermt er, og eiga þeir að vera rétt afrit af henni. Í 67. gr. segir að skipstjóri geti sagt upp í þjónustu sinni, þegar skipið kemur í innlenda höfn, ef hann hefir ekki verið ráðinn til tiltekins tíma, en hann má ekki hverfa frá skipinu fyr en lokið er að afferma það. Hann ber ábyrgð á því að farminum sé skilað í land lögum samkvæmt.

Það rétt hjá hæstv. ráðherra (H. H.) að það mundi reynast erfitt fyrir pósthúsið ef það ætti að krefja inn reikninga fyrir og toll af þeim vörum sem sendar eru með pósti, einnig þeim er sendar eru sem gjafir, en þær sendingar eru ekki fáar, því að flestar gjafir frá útlöndum eru sendar hingað með pósti; en þeim fylgir vitanlega enginn reikningur, og ekki getur viðtakandi heldur altaf vitað hve mikils virði gjöfin er. Og hverjum eiga menn að sýna reikningana ? Sennilega ekki póstmeistara sjálfum, heldur þjóninum á pósthúsinu. Og hvaða trygging er þá fyrir því að öll kurl komi til grafar? Því ekki getur hin umboðslega endurskoðun annað gert en tekið við þeim vottorðum sem henni eru afhent, hvort sem þau eru rétt eða röng. Póstkröfusendingar eru auðvitað auðveldar viðfangs, að því undanskildu að póstkrafan felur ekki að eins í sér innkaupsverð vörunnar heldur og allan kostnað við sendinguna, og hvernig á að sundurgreina það? En póstkröfusendingar eru auk þess sjaldgæfar vegna þess, að þær eru að eins sendar til manna hér sem eru óþektir í útlöndum, eða þá miður skilvísra manna.

Eg vil biðja hæstv. forseta að skifta 1. brt. á þgskj. 215 tvent í atvæðagreiðslunni, þannig að síðasta línan, frá „og af hverjum 50 kílógr.“, eða sé borið sérstaklega undir atkvæði. Eg býst við að meiri ágreiningur sé um þennan síðasta flokk en hina.