12.08.1912
Neðri deild: -1. fundur, 23. löggjafarþing.
Sjá dálk 245 í B-deild Alþingistíðinda. (678)

19. mál, verðtollur

Framsögum. meiri hl. (Pétur Jónsson):

Mér skildist hv. frams.m. minni hl. (B. Kr.) vilja sanna með skýrslunum að ekki væri hærra gjald á nauðsynjavöru samkvæmt farmtolli en verðtolli. Eg hygg að hið gagnstæða liggi í augum uppi. Hann hefir reiknað út að tekjur af þungagjaldinu muni nema árlega ca. 250 þús. kr., og nokkuð líkt álít eg að muni fást með verðtolli. Og þar sem nú búist er við að því sem næst jafn miklar tekjur verði af þungagjaldinu og verðgjaldinu, þá er það sýnilegt að þungagjaldið hlýtur að verða hærra á þungavöru en verðgjaldið sem legst jafnt á allar vörur eftir verðmæti þeirra hvort sem þær eru þungar eða léttar. Af þessu leiðir að þungagjaldið verður hærra á nauðsynjavöru, því að hún er þyngri en flest önnur vara. Þungagjaldið getur ekki orðið neðan við 3% af nauðsynjavöru, nema þá að það gefi minni tekjur í sjálfu sér en verðgjaldið. Enda má líka sýna þetta með dæmi. Rúgur er hin mest brúkaða matartegund. Á hver 200 pd. af rúgi legst samkvæmt þungagjaldinu 50 aurar. Síðan rúgur hækkaði í verði hefir hann kostað 5—6 kr. hver 100 pd. Eftir verðtollinum leggjast því á hver 200 pd., 3% af 10—12 kr. = 30—36 aurar. Á dýrustu korntegundum verður aftur líkt um þungagjaldið og verðtollinn.

Þá eru leirvörurnar. Háttv. framsm. minni hl. (B. Kr.) hefir nú flutt þær ofan í 25 au. flokkinn, en það álit eg galla á frv. frekar en bót. Eg hefði frekar kosið að halda þessu háa gjaldi á leirvörum en að setja þær í ódýrasta flokkinn, vegna þess að þær eru alt af fluttar í umbúðum, í hálmi í kössum eða kláfum og er því auðvelt að smygla annari vöru inn sem leirvöru, en til þess verður vitanlega meiri freisting ef leirvara er í ódýrasta flokknum. Eg taldi það einmitt kost á frv. hv. minni hl. nú, að það aðgreinir vörurnar ekki eins mikið í flokka eins og eldri frumv. hafa gert, því að það verður því aðgengilegra því einfaldari sem flokkaskipunin er.

Að endingu vil eg geta þess, að eg kysi helst að farmgjaldið kæmi ekki til atkvæða nú, vegna þess að þá gæti eg ekki greitt atkvæði með því; en hins vegar kysi eg, ef verðtollsfrv. félli, farmgjaldið miklu fremur en margt annað sem til máls hefir komið.