12.08.1912
Neðri deild: -1. fundur, 23. löggjafarþing.
Sjá dálk 254 í B-deild Alþingistíðinda. (683)

19. mál, verðtollur

Valtýr Guðmundsson:

Eg hefi skrifað undir nefndarálit meiri hlutans með fyrirvara, og finn því ástæðu til að segja nokkur orð. Eg ætla þó ekki að ræða málið í heild sinni vegna þess, að búið er að taka það helzta fram á báðar hliðar, og sé eg enga þörf á að taka það upp. Eg vildi að eins gera grein fyrir hvað fyrir mér vakti, er eg skrifaði undir nefndarálitið með fyrirvara, og það var blátt áfram það að eg var í miklum vafa um, hvoru frv. eg ætti að fylgja. Hvorttveggja hefir sína kosti og ókosti. Verðtollurinn kemur réttlátar niður en eftirlitið er miklu erfiðara. Farmgjaldið er óréttlátara en eftirlitið tryggara Eg tók það fram í nefndinni að eg áskildi mér frjálsar hendur í þessu máli, því að eg bjóst við, að þegar það kæmi til umræðu, fengi eg svo miklar og góðar upplýsingar um það, að eg gæti fullkomlega áttað mig á, hvoru frv. eg skyldi greiða atkvæði. En það hefir ekki farið eins og eg bjóst við, því að eg hefi fengið mjög litlar leiðbeiningar hjá deildinni. Umræðurnar hafa mest snúist milli nefndarmannanna sjálfra, auk þeirra hafa þeir að eins talað hæstv. ráðh. (H. H.) og hv. þm. Ak. (G. G.). Hv. þm. N.-Ísf. (Sk. Th.) tala eg ekki um, því að hann talaði að eins um brtill. sína. Einkum bjóst eg við leiðbeiningum frá ráðherrastólnum. Mér finst sjálfsagt að þingið taki mikið tillit til tillagna hæstv. ráðh. því að hann ber ábyrgðina gagnvart þjóðinni og heill landsins. Þess vegna bjóst eg við að fá leiðbeiningar þaðan. Og þess vegna áskildi eg mér að hafa frjálsar hendur, að eg vildi geta stutt þá tillögu, er hann teldi svo góða, að hann vildi taka ábyrgð á henni. Svona haga ráðherrar sér í útlöndum. Þeir taka ekki hverju því sem að þeim er rétt, en segja sem svo: Þessu vil eg taka ábyrgð á, en þessu ekki. Hæstv. ráðh. (H. H.) gat um aðrar heppilegri leiðir, er hér lægju ekki fyrir. Mér er forvitni á að vita hverjar þessar leiðir eru, og svo býzt eg við að sé um fleiri hér í deildinni. (Jón Ólafsson: Við fáum að heyra það á næsta þingi. Bjarni Jónsson: Hann gat um það áðan.) Nei hann sagði ekki hverjar leiðirnar væru, en einungis það, að hann vildi fremur aðrar leiðir. Hann taldi mikla örðugleika á eftirlitinu með verðtollinum og fanst mér það er hann sagði hafa við mikil rök að styðjast. En þó var hann fús til að taka ábyrgð á honum ef hann yrði ofan á. Yfirleitt heyrðist mér að hann gæti tekið móti hverju sem væri, bara að svanginn væri fyltur, þá væri hann ánægður.

Eg mun við þessa umræðu greiða atkv. bæði með verðtollinum og farmtollinum til 3. umr. Ef til vill tekur hæstvirtur ráðherra þá skarpari afstöðu til einhvers frv. Stjórnin verður um fram alt að vera ákveðin í hverju hún vill taka ábyrgð á, og er þá ekki nema sjálfsagt að þeir þingm. er stjórnina vilja styðja fylgi henni að málum þar sem hún ber alla ábyrgðina. Sem sagt eg mun greiða báðum frv. atkv. mitt til 3. umr.