12.08.1912
Neðri deild: -1. fundur, 23. löggjafarþing.
Sjá dálk 262 í B-deild Alþingistíðinda. (687)

19. mál, verðtollur

Valtýr Guðmundsson:

Hæstv. ráðherra (H. H.) sagði, að eg hefði ekki verið ákveðinn í orðum mínum um þetta frv. Eg skal kannast við það, að eg finn sömu gallana á frumv. sem hann, en þó minni á þessu en hinu (farmgjaldsfrv.). Eg get verið þakklátur hæstv. ráðherra fyrir svör hans um aðflutningsbannið, og er eg honum fyllilega samþykkur í því, að réttast sé að afnema þau lög. Aftur á móti um kolaeinokunina er eg honum ósamþykkur, eins og flestir vita.

Viðvíkjandi brt. á þgskj. 201, þá verð eg að taka undir með hv. 2. þm. Rang. (E. P.) um það, að þar sem þetta frv. er að eins til bráðabirgða, er óheppilegt að ætla sýslusjóðum og sveita nokkurt slíkt gjald til tekna.

Gagnvart hv. þm. Dal. (B. J.) verð eg að taka það fram, að það er alger misskilningur hjá honum að líkja saman goðorðum og Bandaríkjafylkjum og hreppum hér. Það er tvent ólíkt, og get eg þar talað sem ekki ófróðari maður en hann. Goðorðin voru smáríki, nokkurskonar furstadæmi, og goðarnir einskonar fylkiskonungar, þótt ekki bæru þeir konungsnafn, þar sem hrepparnir aftur á móti eru háðir æðri stjórnarvöldum.

Út af orðum hv. 2. þm. S.-Múl. (J. Ól.) get eg þess, að ókunnugt er mér um það, að sveitarsjóðir í Canada fái styrk úr ríkissjóði. Aftur í móti veit eg til þess, að fylkin þar fá tillag úr aðalríkissjóði.