15.08.1912
Neðri deild: -1. fundur, 23. löggjafarþing.
Sjá dálk 275 í B-deild Alþingistíðinda. (694)

19. mál, verðtollur

Lárus H. Bjarnason:

Háttv. framsögum. (P. J.) segist hafa sagt af sér framsögunni, en eg sé að eins einn veg til þess, að losna við framsögumannsstarfið, og hann er sá að segja af sér þingmensku. En eg vona að það komi nú ekki til þess hér, því að mjög mikið mundi eg sjá eftir háttv. þm. S.-Þing.

Vil eg nú stuttlega gera grein fyrir því sem fyrir nefndinni vakti með brt., enda þótt þess þurfi naumast, því að þær eru flestar fram komnar fyrir athugasemdir og bendingar sem komu fram við 2. umr. Fyrsta br.till. er til orðin af því að okkur þótti réttara að taka það fram beint að tollurinn skyldi takast af hreinu innkaupsverði varanna, enda ætlaðist nefndin alt af til þess. Háttv. þm. S.-Þing. (P. J.) hélt því raunar fram að tolla vöruna eftir verðhæð hennar á móttökustaðnum og það liggur við að eg sé orðinn honum samdóma, en hann féll frá því að halda því fram til streitu. önnur br.till. er sömuleiðis til skýringar, það var ekki meining nefndarinnar að tolla skip sem siglt er hingað til landsins, enda geta þau tæpast talist vörur. Raunar getur þetta orðið til þess að skip, t. d. vélabátur, verði í einu falli gjaldfrjáls, en í öðru gjaldskyldur, eftir því hvort hann flýtur undir sjálfum sér eða er fluttur á öðru skipi, en við gátum ekki fundið ákveðnari markalínu en þetta. Þriðja í br.till. þarf ekki skýringar. Fjórða brt. er tekin upp eftir bendingum frá háttv. þm. K.-G. (B. Kr.) og hv. þm. Ak. (G. G.). Það hafa komið fram br.till. við þessa fjórðu br.till. og get eg sagt fyrir mitt leyti, — eg get ekki sagt um það fyrir nefndarinnar hönd, af því að nefndin hefir ekki haft tækifæri til að athuga hana — að eg er ekki móti því að 1. br.till. á þgskj. 241 verði samþykt, þó hennar sé raunar ekki þörf. Það hefði vafalaust verið tekið fram í reglugerðinni, sem gert er ráð fyrir í 5. gr. frv., að skipstjóri skyldi láta tollheimtumanni í té eftirritið af vöruskrá skipsins, áður en vörurnar væru fluttar í land, enda skylt eftir núgildandi tolllögum, 4. gr. Þá leyfi eg mér að mæla með 5. og 6. br.till. nefndarinnar af því að það má búast við að gjald þetta verði erfiðara til innheimtu en vanaleg tollgjöld, eg legg þá jafnframt til að 2. og 3. br.till. háttv. þm. Ak. (G. G.) á þgskj. 241 verði feldar, enda heldur bann, hafi eg skilið hann rétt, tæplega fast við þær.

Vegna þess að málið er til 3. og seinustu umræðu í þessari deild, þá virðist ekki óviðeigandi að tala dálítið um frv. alment og mætti þá líklega víkja ögn að farmtollsfrv., þar sem atkvæðagreiðslan fer óbeinlínis fram um bæði verðtollsfrv. og farmtollsfrv. Er það þá sérstaklega afstaða hv. ráðh. (H. H.) til beggja frv., sem eg vildi minnast á. Hæstv. ráðherra sagði við 2. umr. þessa máls, að verðtollurinn væri engu sanngjarnari og engu réttlátari en farmtollurinn og jafnframt sagði hann að farmtollurinn hefði þá yfirburði yfir verðtollinn, að hann væri framkvæmanlegri. Eg get ekki verið sammála þessari nýju skoðun hæstv. ráðherra, en er honum þar á móti öldungis sammála sem milliþinganefndarmanni 1911 og 1912 og sem framsögumanni minni hluta tollanefndarinnar á alþingi 1911 og leyfi mér jafnframt að færa honum beztu þakkir mínar fyrir meðmæli hans í milliþinganefndinni með verðtollinum og fyrir fordæmingu hans á farmgjaldinu á alþ. 1911. Skal eg svo með leyfi hæstv. forseta lesa viðeigandi kafla úr áliti milliþinganefndarinnar og alþ.tíð. 1911. Get eg þess að eins áður, að 3.—15. gr. eru nálega orði til orðs eins í báðum frumvörpunum. Aðal munurinn sá, að í fyrirliggjandi frv. er öllum undirflokkum slept, en aðal flokkatalan, að póstsendingum meðtöldum, hin sama og í frv. frá 1911, sem sé 7.

Í álitsskjali milliþinganefndarinnar frá 1911 er komist svo að orði um vörugjald eða verðtoll, bls. 109:

„Með því að ákveða tollgjaldið sem hundraðsgjald af verðmæti vörunnar næst það markmið, að dýrasta varan ber hæsta tollinn, en gjaldið verður því lægra, því ódýrari sem varan er sé tollgjaldið gert svo einfalt og óbrotið, sem unt er virðist þó með nokkru eftirliti og samanburði á vörunni við það, sem upp er gefið, mega vera unt að komast hjá verulegum undanbrögðum, er nokkuð kveði að.“

Á bls. 110:

„Hundraðsgjald af verðmæti vörunnar verður að miða við innkaupsverð hennar, því sannvirði er ekki unt að ákveða og útsöluverð er of misjafnt og breytilegt til þess að hægt sé að miða við það.“

Á bls. 119:

„Hann (verðtollurinn) hefir þann kost fram yfir vörumagnstoll að koma réttar niður eftir gjaldþoli, mest á þá er keypt geta hið bezta og dýrasta …“

En á alþingi fórust hæstv. ráðherra orð á þessa leið, Alþ.tíð. 1911 A nr. 650:

„Sem bráðabyrgðar fyrirkomulag eru flestir vegir til muna álitlegri en sá er hér er valinn .... miklu aðgengilegra væri að leggja á reglulegt farmgjald — lestagjald —.“

Alþ.tíð. 1911. B. bls. 1497:

„Það er gamla tollrófan sem Evrópulöndin flest enn þá frá gamalli tíð, mega dragast með og stynja undir með sínum óheyrilega kostnaði til tolleftirlits og öllum þeim óeðlilegu höftum á frjálsri verzlun og vernd fyrir innlent fúsk, sem það alstaðar hefir í för með sér.“

Á bls. 1498:

„Þessi ónauðsynlegi gjaldþungi legst ætíð tiltölulega þyngst á fátœkari stéttirnar kemur langt um ranglátar niður en hækkun á kaffi- og sykurtolli, jafn vel þótt hér séu undanskyldar ýmsar nauðsynjavörur, svo sem korn kol og steinolía“, sem ekki eru undanskyldar í fyrirliggjandi frv.

„Dýrir málmar tollast jafnvel helmingi lœgra en eldspýtur og hampur ... gullúrin eins og skófatnaður og tvinni, gullstáss eins og blikkfötur, dýrasta silki og pell eins og stumpasirs og strigi ... yfir höfuð er ekki hið minsta tillit tekið til þeirra meginregla í allri tolllöggjöf, að reyna að láta gjaldið koma sem réttlátast niður.“

Á bls. 1499:

„Meginþorri (gjaldsins) fellur auðvitað á þær vörutegundir, sem mest er keypt af, en það eru þær vörur sem alþýðan og fátœklingarnir neyðast til að kaupa - þessi tollur hlýtur að koma eigi að eins tiltölulega þyngst heldur með mestri fjárhœð niður á fjölskylduheimilunum, sem sízt er rétt að láta blæða … við minni hluta menn getum því með engu móti léð hönd til þessu að kasta þessu óhentuga og óréttláta gjaldi á þjóðina … þetta er alófært sem bráðabyrgðafyrirkomulag.

Á bls. 1500:

„Hlýtur að verða mikill vanbrestur á því að útlend vöruflutningaskip … fullnægi fyrirmælunum um vöruskrá og því um líkt. Vanti vöruskrá verður hið opinbera að láta rannsaka nákvæmlega allan farminn ... landið yrði að launa tolllið til þess.“

Á bls. 1523:

„Ein af sterkari ástæðunum móti frumvarpinu, að alómögulegt er að framfylgja því, nema með sérstaklega fjölmennu tollgæzluliði.“

Á bls. 1524:

„Sérstakar skrár frá tollastjórnum annara landa yfir allar vörur, sem hér er um að ræða, er alls ekki unt að fát. Lögin myndu verða til háðungar og athlægis ella (án tollgæzluliðs).“

Á bls. 1525:

„Það (frv.) er eins og kjaftshögg á öll princip í gildandi lögum um þetta efni.“

Eg er hæstv. ráðherra (H. H.) enn þá þakklátari fyrir ummæli hans á þingi 1911 um farmgjaldið, heldur en ummæli hans um verðtollinn í álitsskjali milliþinganefndar. Eg hefi lesið þau upp, vegna þess að eg treysti mér ekki til að kveða upp réttlátari og skorinorðari dóm um farmtollinn, en hæstv. ráðherra hefir gert á þingi 1911. Og læt eg því úttalað um málið að sinni.