14.08.1912
Neðri deild: -1. fundur, 23. löggjafarþing.
Sjá dálk 286 í B-deild Alþingistíðinda. (698)

19. mál, verðtollur

Lárus H. Bjarnason:

Eg tek við þakklæti hæstv. ráðherra. En til þess að hann þurfi ekki að vera að spandera þakklæti til mín, skal eg leyfa mér að ráðleggja honum að fara að dæmi mínu og lesa þingtíðindin, kynna sér fyrst og fremst vandlega það, sem hann hefir sjálfur sagt, og þar næst það sem frsm. meiri og minni hluta nefnda hafa sagt. Eg hefi lengi gert þetta og þess vegna svo fljótur að átta mig á ummælum hæstv. ráðh 1911 og hrifsa þau niður í morgun. Deildarmenn munu lengi muna dóma hæstv. ráðherra um farmtollinn nú er þeir hafa verið mintir á þá, enda verður ekki annað sagt en að þeir séu fyllilega réttmætir.

Viðvíkjandi því, sem hann sagði út af tilvitnunum mínum í álitsskjal milliþinganefndarinnar, skal eg geta þess, að verðtollur er miklu hægari til innheimtu sem allsherjartollur en sem tollur á einstökum vörum.

Hæstv. ráðherra þarf ekki að hrista höfuðið út af því og mun ekki gera það þegar hann íhugar það betur. í factúrunum ægir öllu saman: striga, kaffi, silki, brennivíni o. s. frv., hverju innan um annað, og ætti því hver heilvita maður að sjá, að það er hægara að líta á eina samlagða upphæð, samlagningarupphæð factúrunnar, heldur en að leita uppi einstakar vörutegundir og tolla þær. Þetta hljóta allir að sjá og ekki síst hæstv. ráðherra, jafn skýr maður og hann er Svo að úr því að verðtollur er tiltækilegur tollur á einstaka vöru, manufaktúrvöru, hlýtur hann að vera enn tækilegri sem allsherjartollur.

Allir nema hæstv. ráðh. hafa tekið undir það, að verðtollurinn sé miklu sanngjarnari heldur en farmtollurinn. Sumir hafa aftur á móti fundið honum það til foráttu, að hann sé svo erfiður til innheimtu, en þó að nokkuð sé til í því, þá er hann þó léttari til innheimtu sem allsherjartollur heldur en tollur á einstökum vörutegundum.

Út af athugasemdum hæstv. ráðh. við brt. nefndarinnar skal eg geta þess, að það hefir aldrei verið meiningin að láta reikna toll af verði vörunnar eins og hún kostar hingað komin með öllum kostnaði. Það er misskilningur hjá hæstv. ráðherra, að nefndin hafi miðað verðtollsupphæðina við það verð. Nefndin lét Georg Ólafsson cand. polyt. reikna út verð á innfluttum vörum bæði eftir útsöluverði og hreinu innkaupsverði, og niðurstaðan varð sú, að 1906—1910 að báðum árum meðt. hafa aðfluttar vörur numið að meðaltali 10.675.000 kr. eftir hreinu innkaupsverði.

Annað mál er það, að vel má vera að fult eins rétt væri, að leggja toll á vöruna eins og hún kostar hingað komin með umbúðum. Eg fyrir mitt leyti mundi geta sætt mig við það, og við það mundi tollurinn hækka um hérumbil 40.000 kr.

Eg hugsa sem sé að viðbótarkostnaður á allri útlendri vöru sem hingað flyzt, frá því að hún er keypt í útlöndum og þangað til hún er komin hér á land, muni nema um eða yfir 1.400.000 kr. —

Út af athugasemd hæstv. ráðh. við 2. brt. skal eg geta þess, að það var ekki tilætlun nefndarinnar að undanþiggja öll þau skip, sem keypt eru erlendis, heldur þau ein, sem siglt er sjálfum hingað til lands, þannig að t. d. ef einhver kaupir mótorbát ytra og kemur á honum hingað að sumri til, þá er báturinn tollfrjáls, en láti hann flytja bátinn hingað á skipi að vetrinum, þá er á honum tollur. Þetta er eg búinn að skýra og hæstv. ráðh. mundi ekki hafa farið að fetta fingur út í það, ef hann hefði hlustað á mig, en hann var víst ekki viðstaddur.

Aths. hans um 6. brtill. nefndarinnar held eg að hafi verið gerð svona til gamans, til þess að sýna hve ágætur „advocat“ hann getur verið. Hann bjóst við einhverju stjórnarr., sem mundi heimta meira af tollheimtumönnum til launa handa umboðsmönnum þeirra, en þá 3 af hundraði, sem ætlaðir eru til tollheimtunnar allrar. Þetta hefir víst engum dottið í hug nema honum; hitt virðist sanngjarnt, samanborið viðkaup í tollheimtumanna, að umboðsmenn fái einhvern hluta af innheimtulaununum, og bjóst nefndin við því að það færi ekki fram úr 1%. Hitt hlýtur að vera gaman hjá honum, að tollheimtugjaldið ætti að vera 12—13%, enda hefir mér skilist á 2 lögreglustjórum hér í deildinni að 3% mundi nægja.

Hann endaði ræðu sína á því, að eftir því sem hann athugaði þetta frv. betur, eftir því sæi hann á því fleiri galla. Það má vel vera, enda höfum við aldrei ætlast til þess, að þetta yrði neitt fyrirmyndar frv.,heldur að eins bráðabirgðahjálp til þess að auka tekjur landssjóðs. Eg held því nú reyndar fram, að landssjóði bráðliggi ekki á neinum auknum tekjum, og get eg þar skýrskotað til orða hv. fyrv. ráðh. (hann ber á móti, ef eg fer rangt með) en af því að eg lagðist á móti kolafrv. skattanefndarinnar, þóttist eg skyldugur til að benda á eitthvað annað, sem komið gæti í staðinn. Það hefi eg gert. Þingið ræður hvort það vill taka þeirri bendingu, og eg mundi ekki taka mér það nærri þó að það gerði það ekki, en fari svo, þá get eg hugsað að torsótt verði að finna annað, sem samþykt verði með ljúfara geði hér í deildinni.

Vinur minn, hv. þm. Ak. (G. Gr.) var að sanna, að minsta kosti fyrri hlutann af lýsingu minni á honum á dögunum, sem sé að hann geti verið nokkuð hávær stundum. Eftir því sem honum sagðist frá, hefir honum reynst tollheimtan allörðug öðrum fremur. Að minsta kosti varð hún mér ekki jafnörðug, og átti eg þó því láni að fagna að verða sjaldan fyrir því, að verulegar athugasemdir væru gerðar við starf mitt Eg hafði það svo, að eg tók við tollseðlunum sjálfur í Stykkishólmi og vottorði skipstjóra um að ekki væru afhentar fleiri tollskyldar vörur, en þar var greint. Síðan lét eg kaupmenn gefa vottorð um hvað þeir hefðu fengið, og bar svo saman við tollskrá. Bæri nokkuð á milli, fór eg aftur til kaupmanns skoðaði factúru hans og bar hana saman við vottorðið, og skrifaði svo upp á þau að þau væru rétt, ef svo var, og að þessu var aldrei fundið. Utan Stykkishólms lét eg hreppstjóra safna tollskjölum og senda mér. Þetta var ofboð hægt, og þessi nýja innheimta, sem frumv. gerir ráð fyrir, verður ekki svo fjarska miklu örðugri — dálítið örðugri auðvitað, en í notum þess eiga líka tollheimtumenn að fá 1% hærri innheimtulaun en nú gerist, launin með öðrum orðum þriðjungi hærri fyrir þetta.

Eg er þakklátur hv. 1. þm. N.-Múl. (Jóh. Jóh.). Hann kannaðist við það, eins og allir hljóta að gera, sem sannsýnir vilja vera, að verðtollurinn væri sanngjarnari en farmgjaldið. Hins vegar er eg honum ekki samdóma um það, að farmgjaldið sé jafn auðvelt til innheimtu og hann vildi vera láta. Hvað verður úr innheimtuhægðinni ef farmskrá vantar eða reynist röng. Farmgjaldið hefir enn alla sömu aðalgalla, sem það hafði 1911. Þá get eg verið þakklátur hv. þm. fyrir það, að hann vill þó að verðtollurinn komist héðan úr deildinni. (Jóhannes Jóhannesson: Það vil eg ekki, eg er á móti frumvarpinu). Þá tek eg þær þakkir aftur. Eg hafði skilið hv. þm. á hinn veginn og bið forláts, að eg hefi ætlað hann betri en hann er.

Ekki er það fyllilega rétt, sem hv. þm. fann frumv. til foráttu út af póstsendingunum. Eg hefi nýlega talað við einn af kaupmönnum þessa bæjar, sem skiftir mikið bæði við öll Norðurlönd, Þýzkaland, England, Frakkland o. fl. Hann sagði mér að víðast hvar gilti sama reglan, sú, að við sjálft fylgibréfið með póstsendingunni væri fest annað fylgibréf, sem skýrði frá því, hver varan væri, hve þung og hvað hún kostaði. Eg hefi hér í höndum tvö slík bréf, annað sænskt og hitt þýzkt, og maður- inn sem lánaði mér þau, fullyrti að sama væri aðferðin í Frakklandi og Englandi (Bjarni Jónsson: Menn fá ekki að senda póstsendingar frá Þýzkalandi nema svona). Það er rétt, og svona er það alstaðar. Maðurinn fann ekki fleiri af þessum bréfum í svipinn, en nú geta menn séð þessi tvö og sannfærst af þeim um það, að eftir þessu verður ekki eins örðugt að eiga við póstsendingarnar, eins og hv. þm. vildi halda fram. Ekki er það rétt heldur, að það sé oftast lítils virði af vörum, sem sent er í póstinum. Það eru til kaupmenn, sem aldrei fá neinar vörur nema gegnum póstinn. Þannig flyzt t. d. mest af skófatnaði hingað. Jafnvel ein af stærstu verzlunum þessa bæjar fær allar sínar vörur sendar þannig.

Eg býst nú við að hv. þm. hafi fengið nóg. Þeir hafa nú ekki annað að gera, en að átta sig á því, hvort frv. er ekki þess vert, að hv. Ed. fái að sjá það. Þótt það sé ekki neitt fyrirmyndarfrv., þá gerir það ekki svo mikið til. Hún er viss með að bæta það, lengi getur gott batnað, og svo fáum við að sjá hvað úr því verður.