14.08.1912
Neðri deild: -1. fundur, 23. löggjafarþing.
Sjá dálk 296 í B-deild Alþingistíðinda. (701)

19. mál, verðtollur

Framsm. minni hlutans (Björn Kristjánsson):

Eg hafði ekki hugsað mér að standa upp við þessa umr., en eg neyðist þó til þess vegna tveggja atriða sem komið hafa fram í ræðum háttv. þm. í dag.

Annað atriðið var í ræðu hv. 1. þm. Rvk. (L. H. B.). Hann benti á það hvernig farmgjaldsfrv. mínum hefði verið tekið á undanförnum þingum, meðal annara af hæstv. núv. ráðherra (H. H). Eg get að nokkru leyti kent sjálfum mér um það hvernig viðtökur hin fyrri frv. mín hafa fengið, því að eg hefi aldrei skýrt þetta mál eins ítarlega og nú. Í annan stað ber þess að gæta, að nýmælum er venjulega illa tekið í fyrstu, jafnvel þó þau séu góð; menn þurfa allflestir langan tíma til að átta sig á þeim. Nú fyrst, eftir svo langan tíma og svo mikla fyrirhöfn af minni hálfu, er eins og sumir þingmenn séu farnir að sjá kjarna þessa máls. Eg get því ómögulega áfelst hæstv. ráðherra eða aðra sem voru í byrjun á móti því, en eru nú að snúast á sveif með því.

Hitt atriðið var að háttv. 1. þm. Rvk vitnaði í, og sýndi fylgibréf frá Þýzkalandi sem sönnun þess, að á þeim stæði ávalt tiltekið verðmæti vörunnar, er mætti heimta tollinn eftir. Þetta er misskilningur. Það er engin trygging fyrir fyrir því að þó verð sé gefið upp á bréfinu, þá sé það hið sanna verð vörunnar, heldur heimtar pósthúsið að eitthvað verðmæti sé tiltekið, ef sendingin er send sem ábyrgðarsending, sem hægt sé að miða skaðabæturnar við ef böggullinn týnist. Að öðrum kosti væri ekkert til að halda sér við; eigandi, bögguls sem týnist, kynni að heimta alt of háar skaðabætur. Pósthúsið borgar þá tilteknu upphæð, án þess nokkur sönnun sé fyrir því að hún sýni hið sanna verðmæti vörunnar. Eins er með peningabréf. Innheimtan gæti því orðið pósthúsinu afar erfið eins og margoft hefir verið tekið fram. Það væri mikil fyrirhöfn að láta meta mikinn hluta af póstsendingum, en það er hætt við að ekki verði hjá því komist vegna þess að oft fylgja engir reikningar með sendingunum, sem kemur til af því meðal annars, að flestar gjafir hingað til landsins eru sendar gegnum póstinn.

Háttv. þm V.-Ísf. (M. Ó.) vil eg benda á það, að hann mundi vera kominn að annari niðurstöðu nú ef hann hefði fylgst með meðferð þessa máls á undanförnum þingum. Hann hefir ekki haft nægan tíma til að átta sig á því ennþá. En þó vorkenni eg honum minna að skilja þetta mál en þingmönnum á undanförnum þingum, því að nú er málið miklu betur skýrt en nokkru sinni áður. Hann vildi taka verðtollinn af brúttóverði vörunnar. En hversu mikið ómak hefði það ekki í för með sér fyrir tollheimtumenn? Þá vil eg taka það fram að vigt með umbúðum stendur sjaldan á innkaupsreikningum, nema hún sé borguð fyrirfram, sem sjaldnast er. Þar sem svo er, á smástöðum eins og t. d. Dýrafirði, þar er auðvitað vandalaust að sjá fragtina. En það er heldur ekki nema á smástöðum sem fragtin er tekin fyrirfram. Hér í Reykjavík er hún aldrei borguð fyr en eftir á, og hér yrði afar mikið erfiði fyrir bæjarfógeta að heimta inn tollinn, ekki síst þar sem ætlast er til að hann fari heim til kaupmanna til að sækja reikningana. Hann mundi sennilega verða að fara minst tvær ferðir og oft fleiri til þeirra, því að fragtreikningurinn kemur aldrei strax eftir að skipið er komið, heldur nokkru seinna. — Hversu margar póstsendingar eru sendar með eftirkröfu má fá upplýsingar um á pósthúsinu. Eg veit að þær eru sárfáar. Og enda er líka annar ókostur á þeim; þær gefa ekki upp innkaupsverð sendingarinnar heldur eina upphæð þar sem reiknaður er með allur kostnaður. Eg er þakklátur hv. þm. V.-Ísf. (M. Ó.) að hann vill greiða þungagjaldsfrv. atkv. upp í Ed. Það er rétt að hún fái bæði frv. til athugunar þar sem svo stendur á að hér er því sem næst helmingur deildarinnar með hvoru.